Reglur Evrópusambandsins taka ekki gildi á Íslandi nema þær hafi sérstaklega verið teknar upp í landsrétti, annað hvort með lögum eða reglugerð sem hefur stoð í lögum. Reglur Evrópusambandsins hafa því ekki svokölluð "bein réttaráhrif" hér á landi, eins og þær hafa í aðildarríkjum sambandsins. Hins vegar felur EES-samningurinn í sér skyldu EFTA/EES-ríkja til þess að taka tilteknar reglur Evrópusambandsins upp í landsrétti, á þeim sviðum sem EES-samningurinn tekur til. Vanræki ríkið þessa skyldu sína geta borgarar öðlast skaðabótakröfu á hendur ríkinu.1 Skyldan er því rík. Veigamesta skuldbindingin felst í ákvæði 7. gr. EES-samningsins, sem kveður á um skyldu aðildarríkja til þess að taka upp í landsrétti gerðir sem vísað er til eða er að finna í viðaukum við samninginn, eða ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar. Viðamikla skyldu er einnig að finna í bókun 35 við samninginn, um framkvæmd EES-reglna, en þar segir:
Vegna tilvika þar sem getur komið til árekstra á milli EES-reglna [...] og annarra settra laga, skuldbinda EFTA-ríkin sig til að setja, ef þörf krefur, lagaákvæði þess efnis að EES-reglur gildi í þeim tilvikum.Áhrif Evrópusambandsins á innlendan rétt eru enn víðtækari, því skv. 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið2 skal skýra íslensk lög og reglur til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja. Samkvæmt 6. gr. EES-samningsins, skal svo við framkvæmd og beitingu ákvæða samningsins túlka þau í samræmi við úrskurði Evrópudómstólsins (ECJ) sem kveðnir eru upp fyrir undirritunardag samningsins. Fjórða gr. EES-samningsins kveður svo á um bann við mismunum á grundvelli ríkisfangs á gildissviði samningsins. Heimildir, frekari lesning og mynd:
Neðanmálsgreinar:
1Samanber dóm Hæstaréttar Íslands í máli íslenska ríkisins gegn Erlu Maríu Sveinbjörnsdóttur, frá 16. desember 1999, mnr. 236/1999. 2EES-samningurinn er birtur sem fylgiskjal með lögunum.