Til eru frásagnir af hernaði sem á að hafa geisað fyrr en þær heimildir eru í erfiljóðum sem færð voru í letur síðar en Konungatal Súmera og erfitt er að ákvarða sannleiksgildi þeirra. Fyrstu markverðu frásögnina af hernaði er aftur á móti að finna á Drekasúlunni (e. Stele of Vultures) sem konungurinn Eannatum lét reisa eftir að hafa sigrað ríkið Umma. Drekasúlan er ekki einungis fyrsta markverða heimildin um hernað heldur er hún ein sú allra merkilegasta sem uppgötvast hefur. Eannatum ríkti yfir borgríkinu Lagash um 2525-2450 f.Kr. og Drekasúlan er steinblökk sem hann lét reisa til að mikla afrek sín. Á erlendum tungumálum er hún jafnan kennd við hrægamma (e. Stele of Vultures, f. Stéle de Vautours). Er það tilvísun til hræfugla sem kroppa í lík fallinna andstæðinga herja Eannatums. Á Drekasúlunni má sjá tvær myndir á „framhliðinni“og þá þriðju á „bakhliðinni“ sem vísa beinlínis til hernaðar. Á efri myndinni að „framan“ fer konunginn fyrir sex raða fylkingu fótgönguliða sem báru hjálma og skildi og voru vopnaðir spjótum. Á neðri myndinni heldur konungurinn á sigðsverði og er í stríðsvagni sem dráttardýr draga. Enn er hann sýndur fara fyrir mönnum sínum sem nú eru vopnaður spjótum og stríðsöxum. Á „bakhlið“ Drekasúlunnar má svo sjá Ningirsu, verndarguð borgarinnar, berja á óvinum sínum sem hann hefur fangað í net. Umhverfis myndirnar er texti sem greinir frá landamæraerjunum við Umma sem er einnig kunnur af öðrum heimildum.
Af þessu má ráða að Súmerar gátu barist í vel skipulögðum margra raða herfylkingum um þetta leyti. Slíkt krafðist töluverðs aga og þjálfunar og því hafa konungarnir verið búnir að koma sér upp liði atvinnuhermanna. Með því að skoða það sem er letrað á leirtöflur konungsins Shuruppaks sem var uppi um 2600 f.Kr. sést að hann hefur haldið uppi 6-700 manna herliði sem styður enn frekar að súmersku borgríkin hafi talið mikilvægt að halda uppi reglulegum her á þessum árum og séð honum fyrir vopnum og vistum. Á Drekasúlunni eru því fyrstu mögulegu sannanir fyrir atvinnuhermennsku. Að auki sýnir Drekasúlan fyrstu sannanir þess að menn hafi notað hjálma í stríði. Í stórum gröfum sem grafnar hafa verið upp í borginni Ur og dagsettar hafa verið um 2500 f.Kr sést að þessir hjálmar hafa verið gerðir úr kopar og voru líklega með leðurhlíf að innan. Með tilkomu hjálmanna fékkst loksins mikilvæg vörn við hættulegasta vopni hermannsins fram til þessa, kylfunni. Í kjölfarið urðu stríðaxir algengasta vopn fótgönguliðans í hernaði. Á Drekasúlunni sést enn fremur fyrsta notkun hjólsins við hernað. Þessir stríðsvagnar hafa líklega ekki verið sérlega hentugir. Þeir hafa verið valtir og klunnalegir og eflaust ekki notaðir í miklum mæli, sennilega aðeins til að flytja herlið og nærvera þeirra hefur getað skelft hermenn andstæðingsins. Síðar meir áttu stríðsvagnarnir þó eftir að verða alls ráðandi á vígvellinum. Á Drekasúlunni sést enn fremur konungurinn halda á sigðsverði. Löngu síðar áttu þessi sverð eftir að verða aðalvopn herja Egypta og annarra þjóðflokka sem getið er í Biblíunni. Af Drekasúlunni og fleiri vísbendingum má ætla að Súmerar hafi þróað þetta vopn um 2500 f.Kr. Einnig virðist á Drekasúlunni sem hermenn Eannatums séu íklæddir brynjuðum skikkjum. Á skikkjurnar voru líklega festar málmhlífar og því má ætla að með þessu móti hafi hermaðurinn fengið nokkuð góða vörn gagnvart vopnum þessa tíma. Þetta er í raun fyrstu ummerki líkamsverja í hernaði. Það má sömuleiðis bæta því við að á Drekasúlunni er er að finna fyrstu merki um áróður sem kunnur er í sögunni. Minnismerkinu sem Eannnatum lætur reisa sér og herjum sínum til dýrðar er ætlað að hafa áhrif á þegna hana jafnt sem þegna annarra ríkja og kaupmanna sem komu langt að með vörur sínar. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hver er lengsti tími sem stríð hefur tekið? eftir Skúla Sæland
- Hvenær er talið að siðmenning eins og við þekkjum hana hafi byrjað? eftir Harald Ólafsson
- Hvað er menning? eftir Arnar Árnason
- Hvað er mannkynið gamalt? eftir EDS
- Bartels, Aaron David: Ancient near eastern warfare, á síðunni: www.usc.edu. Skoðað 4.11.2004.
- Gabriel, Richard A. & Metz, Karen S.: A short history of war. The Evolution of Warfare and Weapons, Strategic Studies Institute, U.S. Army War College, (Netútgáfa Air War College) á síðunni: www.au.af.mil
- Opinber vefsíða Louvre-safnsins
- Drekasúlan. Sótt 4.11.2004.