Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hér er gengið út frá því að átt sé við hvenær Homo, ættkvísl manna, hafi komið fram.
Í svari við spurningunni: Hvar í heiminum er talið að mannkynið sé upprunnið? eftir Haraldur Ólafsson kemur meðal annars fram að talið sé að fyrir fimm til sex milljónum ára hafi verið komin fram í Afríku tegund sem þróaðist til nútímamannsins. Okkur mundi þó sjálfsagt ekki finnast við eiga mikið sameiginlegt með þessum fyrstu mannlíku verum.
Elsta tegundin af ættkvísinni Homo er Homo habilis eða hinn handlagni maður. Tegund þessi lifði í austurhluta Afríku fyrir 2,5 – 1,8 milljónum ára. Margt í líkamsgerð þessara frummanna var þó ólíkt nútímamanninum, þeir voru til dæmis töluvert minni, handleggjalangir og heilarými þeirra einungis um helmingur þess sem gerist hjá mönnum í dag. Talið er að þeir hafi búið til og notað frumstæð verkfæri.
Af öðrum frummönnum má nefna Homo erectus eða hinn upprétta mann. Hann var kominn fram í Afríku fyrir allt að 2 milljónum ára og breiddist þaðan út til Evrópu og Asíu. Hinn upprétti maður líktist nútíma manninum aðeins meira en handlagni maðurinn, var hærri en fyrri mannverur og með stærri heila. Hann notaði þróaðri verkfæri en forverar hans. Hinn upprétti maður var enn á ferli fyrir um 200.000 árum og jafnvel enn síðar.
Nær okkur í tíma er Homo neanderthalensis eða neanderdalsmaðurinn sem var uppi á árabilinu frá því fyrir um það bil 120.000 árum og þar til fyrir um 28.000 til 30.000 árum. Mest af leifum neanderdalsmannsins hafa fundist í Evrópu en einnig í Asíu. Hann var náskyldur nútímamanninum sem við teljumst til, en þó sýna nýjustu rannsóknir að allnokkur munur er á erfðaefni neanderdalsmanns og nútímamanns eins og Haraldur Ólafsson kemur inn á í svari við spurningunni: Hvaða dýr veiddi Neanderdalsmaðurinn?
Fræðimenn eru ekki á eitt sáttir um það hvenær nútímamaðurinn, Homo sapiens sapiens, kom fyrst fram (ekki frekar en uppruni og þróun fyrri tegunda af mannættkvíslinni eru óumdeildar) en ein kenningin er sú að hann þróaðist í Afríku fyrir um 200 þúsund árum. Fyrir rúmum 100 þúsund árum hóf hann svo útrás sem náði til flestra meginlandanna fyrir um 40 til 50 þúsund árum. Síðast náði hann þó til Ameríku en þangað kom nútímamaðurinn fyrst fyrir um það bil 20 þúsund árum. Um þetta er fjallað í svari Kristjáns Mímissonar við spurningunni: Hverjir voru krómagnon-menn?
Til frekari fróðleiks má til dæmis benda á svör við spurningunum:
Þetta svar er í flokknum "bekkirnir spyrja" þar sem starfsfólk vefsins svarar spurningum frá grunnskólabekk í kennslustund, samkvæmt samningi. Lögð er áhersla á skjót svör, stutt og aðgengileg. Oft er byggt á öðrum svörum sem kunna að nýtast almennum lesendum betur.