Til þess að nýir arfgengir og þar með varanlegir eiginleikar verði til í stofninum þurfa að koma til stökkbreytingar eða endurröðun erfðaefnisins í einstaklingi. Flestar stökkbreytingar eru að vísu óhagstæðar þannig að einstaklingurinn deyr eða á ekki frjó afkvæmi. Engu að síður verða öðru hverju hagstæðar stökkbreytingar sem haldast í stofninum og breiðast út, meðal annars af því að einstaklingarnir sem bera þær eru á einhvern hátt „hæfari“ sem kallað er, en það nefnist náttúruval. Þessar hagstæðu stökkbreytingar mega ekki vera of miklar því að þá er líklegt að einstaklingurinn verði ófrjór. Þess vegna þurfa venjulega að verða margar stökkbreytingar til þess að ný tegund verði til, það er að segja nýr stofn Y sem aðskilur sig þannig frá gamla stofninum X að einstaklingar af stofni Y og X geta ekki átt saman frjó afkvæmi. Á þennan hátt hefur nútímamaðurinn sem tegund orðið til og er nú talið að það hafi gerst fyrir um það bil 130.000 árum, það er að segja löngu, löngu áður en nokkrar sögur hófust. Jafnvel þótt þeir sem þá voru uppi hefðu kunnað skil á tegundarhugtaki og þróunarkenningu nútímans hefðu þeir ekki getað bent á einhvern tiltekinn einstakling, karl eða konu, og sagt: „Þú ert fyrsti maðurinn“. Og þó svo að við gætum til dæmis horft á einhvers konar kvikmynd af því sem var að gerast í náttúrunni þegar tegundin maður varð til, þá mundum við heldur ekki geta tilgreint hver var fyrstur. Til þess eru skrefin í þróuninni alltof smá eins og áður var lýst. Þess eru mörg dæmi í umhverfi okkar og talsmáta að við getum ekki sagt til um hver sé fyrstur, stærstur, minnstur eða bestur. Dæmið um fyrsta manninn er kannski líkast því þegar við hellum úr sandpoka og spyrjum hvenær verður til hrúga. Við getum þá ekki bent á tiltekið sandkorn og sagt að hrúgan hafi orðið til þegar þetta sandkorn bættist við. Um þetta fjallar Geir Þ. Þórarinsson í svari sínu við spurningunni Hvað eru hrúgurök?
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Eru allir í heiminum skyldir? Hvers vegna? eftir ÞV
- Hvernig sýndi Darwin fram á þróunarkenninguna? eftir Þorstein Vilhjálmsson
- Ef líf þróast á annarri plánetu er þá rökrétt að gáfaðasta eða þróaðasta lífveran verði á endanum svipuð mönnum? eftir Val Brynjar Antonsson
- Hvar í heiminum er talið að mannkynið sé upprunnið? eftir Harald Ólafsson
- Hverjir voru krómagnon-menn? eftir Kristján Mímisson
- Hvað geturðu sagt mér um þróun apa? eftir Jón Má Halldórsson