Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hverjir voru krómagnon-menn?

Kristján Mímisson

Hugtakið krómagnonmenn á rætur sínar að rekja til fornleifafundar í Cro-Magnon hellisskútanum við bæinn Les Eyzies í Dordogne-héraði í suðvesturhluta Frakklands árið 1868. Verkamenn sem unnu við lagningu járnbrautar komu niður á mannabein og að lokinni rannsókn á staðnum höfðu bein úr fimm til átta einstaklingum verið grafin upp, auk ýmissa dýrabeina og steinverkfæra. Dýrabeinin, meðal annars úr mammútum, bentu til þess að fundurinn væri frá síðasta hluta ísaldar. Steinverkfærin sýndu að auki að hann væri frá því menningarsögutímabili sem kallað er Aurignacien, en það hófst fyrir um 36 þúsund árum og stóð yfir í 6 þúsund ár.


Hugmynd listamanns um krómagnonmenn á veiðum.

Það vakti strax athygli vísindamanna að beinin frá Cro-Magnon voru af nútímamönnum (Homo sapiens sapiens). Þróunarkenningin var enn ung og mjög umdeild og þessi niðurstaða var því vatn á myllu andþróunarsinna sem töldu að nútímamaðurinn hefði verið skapaður í sinni núverandi mynd og væri ekki afkomandi frumstæðari manntegunda, svo sem neanderdalsmannsins (en uppgötvun hans varð árið 1856 og var því aðeins rúmlega tíu ára gömul). Reyndar kom snemma í ljós að beinin í Cro-Magnon voru 10 til 20 þúsund árum yngri en fundur neanderdalsmannsins úr Feldhofer-hellinum í Neanderthal.

Í dag eru fundarstaðir steingervinga nútímamannsins í Evrópu orðnir þónokkuð margir. Auk Cro-Magnon eru þeir elstu í Móravíu í Tékklandi, það er í Mladec (um 33 þúsund ára) og Predmostí (um 28 þúsund ára). Fornleifafræðingar og þróunarmannfræðingar eru sammála um að Aurignacien-menningarskeiðið sé skeið nútímamannsins en fornleifafundir frá því tímabili eru allt að því 40.000 ára gamlir. Einnig er nú vitað að nútímamaðurinn og neanderdalsmaðurinn lifðu saman í Evrópu í um 7 til 10 þúsund ár, en yngsti fundur neanderdalsmannsins, í Zafarraya á Suður-Spáni, er um 30 þúsund ára gamall.


Höfuðkúpa „Krómagnon 1” einstaklingsins. Höfuðkúpan er af fullorðnum karlmanni og hefur hún fengið viðurnefnið „gamli maðurinn” frá Cro-Magnon. Andlitsbeinin bera merki sveppasýkingar.

Snemma skapaðist sú hefð að kenna alla forna nútímamenn við hellisskútann í Les Eyzies og kalla þá krómagnonmenn. Sumir vísindamenn vilja líka kalla frumgerðir nútímamannsins sem fundist hafa í Miðausturlöndum (til dæmis í Qafzeh og Skuhl í Ísrael) og eru um 100.000 ára gamlar, frum-krómagnonmenn (e. Proto-Cromagnoids). Mörgum þykja þessar nafngiftir aftur á móti svolítið villandi þar sem hinir eiginlegu krómagnonmenn eru aðeins fulltrúar nútímamannsins sem settist að í Evrópu.

Ýmsar rannsóknir hafa sýnt að á þessu tímabili var formfræði nútímamannsins nokkuð einsleit sem þýðir að líkamsgerð hans í Afríku, Evrópu, Asíu og Ástralíu var mjög svipuð. Þetta styrkir stoðir þeirrar tilgátu um uppruna nútímamannsins sem jafnan er kennd við Afríkuútrásina (e. the Out-of-Africa Hypothesis). Samkvæmt henni þróaðist nútímamaðurinn (Homo sapiens sapiens) í Afríku fyrir um 200 þúsund árum. Fyrir rúmum 100 þúsund árum hóf hann svo útrás sem náði til flestra meginlandanna fyrir um 40 til 50 þúsund árum. Síðast náði hann þó til Ameríku en þangað kom nútímamaðurinn fyrst fyrir um það bil 20 þúsund árum.

Evrópubúar í dag eru töluvert ólíkir krómagnonmönnum og í raun má segja það sama um skyldleika íbúa annarra heimsálfa við fyrstu nútímamenn hvers svæðis fyrir sig, eins og til dæmis Asíubúa við hina tæplega 30 þúsund ára gömlu steingervinga úr Efrihelli í Zhoukoudian nálægt Peking. Fjölbreytileiki mannkyns er tilkominn á síðustu 10 þúsund árum. Við erum afkomendur einsleits hóps nútímamanna sem var uppi á síðasta hluta ísaldar. Krómagnonmennirnir voru hluti þessa hóps

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir og myndir:

Höfundur

fornleifa- og þróunarmannfræðingur á Fornleifafræðistofunni

Útgáfudagur

2.8.2005

Spyrjandi

Signý Tryggvadóttir, f. 1989
Linda Björk Jóhannsdóttir, f. 1989
Hulda Berglind Árnadóttir, f. 1986
Áslaug Svavarsdóttir, f. 1989
Svala Sigurgeirsdóttir

Tilvísun

Kristján Mímisson. „Hverjir voru krómagnon-menn?“ Vísindavefurinn, 2. ágúst 2005, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5170.

Kristján Mímisson. (2005, 2. ágúst). Hverjir voru krómagnon-menn? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5170

Kristján Mímisson. „Hverjir voru krómagnon-menn?“ Vísindavefurinn. 2. ágú. 2005. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5170>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hverjir voru krómagnon-menn?
Hugtakið krómagnonmenn á rætur sínar að rekja til fornleifafundar í Cro-Magnon hellisskútanum við bæinn Les Eyzies í Dordogne-héraði í suðvesturhluta Frakklands árið 1868. Verkamenn sem unnu við lagningu járnbrautar komu niður á mannabein og að lokinni rannsókn á staðnum höfðu bein úr fimm til átta einstaklingum verið grafin upp, auk ýmissa dýrabeina og steinverkfæra. Dýrabeinin, meðal annars úr mammútum, bentu til þess að fundurinn væri frá síðasta hluta ísaldar. Steinverkfærin sýndu að auki að hann væri frá því menningarsögutímabili sem kallað er Aurignacien, en það hófst fyrir um 36 þúsund árum og stóð yfir í 6 þúsund ár.


Hugmynd listamanns um krómagnonmenn á veiðum.

Það vakti strax athygli vísindamanna að beinin frá Cro-Magnon voru af nútímamönnum (Homo sapiens sapiens). Þróunarkenningin var enn ung og mjög umdeild og þessi niðurstaða var því vatn á myllu andþróunarsinna sem töldu að nútímamaðurinn hefði verið skapaður í sinni núverandi mynd og væri ekki afkomandi frumstæðari manntegunda, svo sem neanderdalsmannsins (en uppgötvun hans varð árið 1856 og var því aðeins rúmlega tíu ára gömul). Reyndar kom snemma í ljós að beinin í Cro-Magnon voru 10 til 20 þúsund árum yngri en fundur neanderdalsmannsins úr Feldhofer-hellinum í Neanderthal.

Í dag eru fundarstaðir steingervinga nútímamannsins í Evrópu orðnir þónokkuð margir. Auk Cro-Magnon eru þeir elstu í Móravíu í Tékklandi, það er í Mladec (um 33 þúsund ára) og Predmostí (um 28 þúsund ára). Fornleifafræðingar og þróunarmannfræðingar eru sammála um að Aurignacien-menningarskeiðið sé skeið nútímamannsins en fornleifafundir frá því tímabili eru allt að því 40.000 ára gamlir. Einnig er nú vitað að nútímamaðurinn og neanderdalsmaðurinn lifðu saman í Evrópu í um 7 til 10 þúsund ár, en yngsti fundur neanderdalsmannsins, í Zafarraya á Suður-Spáni, er um 30 þúsund ára gamall.


Höfuðkúpa „Krómagnon 1” einstaklingsins. Höfuðkúpan er af fullorðnum karlmanni og hefur hún fengið viðurnefnið „gamli maðurinn” frá Cro-Magnon. Andlitsbeinin bera merki sveppasýkingar.

Snemma skapaðist sú hefð að kenna alla forna nútímamenn við hellisskútann í Les Eyzies og kalla þá krómagnonmenn. Sumir vísindamenn vilja líka kalla frumgerðir nútímamannsins sem fundist hafa í Miðausturlöndum (til dæmis í Qafzeh og Skuhl í Ísrael) og eru um 100.000 ára gamlar, frum-krómagnonmenn (e. Proto-Cromagnoids). Mörgum þykja þessar nafngiftir aftur á móti svolítið villandi þar sem hinir eiginlegu krómagnonmenn eru aðeins fulltrúar nútímamannsins sem settist að í Evrópu.

Ýmsar rannsóknir hafa sýnt að á þessu tímabili var formfræði nútímamannsins nokkuð einsleit sem þýðir að líkamsgerð hans í Afríku, Evrópu, Asíu og Ástralíu var mjög svipuð. Þetta styrkir stoðir þeirrar tilgátu um uppruna nútímamannsins sem jafnan er kennd við Afríkuútrásina (e. the Out-of-Africa Hypothesis). Samkvæmt henni þróaðist nútímamaðurinn (Homo sapiens sapiens) í Afríku fyrir um 200 þúsund árum. Fyrir rúmum 100 þúsund árum hóf hann svo útrás sem náði til flestra meginlandanna fyrir um 40 til 50 þúsund árum. Síðast náði hann þó til Ameríku en þangað kom nútímamaðurinn fyrst fyrir um það bil 20 þúsund árum.

Evrópubúar í dag eru töluvert ólíkir krómagnonmönnum og í raun má segja það sama um skyldleika íbúa annarra heimsálfa við fyrstu nútímamenn hvers svæðis fyrir sig, eins og til dæmis Asíubúa við hina tæplega 30 þúsund ára gömlu steingervinga úr Efrihelli í Zhoukoudian nálægt Peking. Fjölbreytileiki mannkyns er tilkominn á síðustu 10 þúsund árum. Við erum afkomendur einsleits hóps nútímamanna sem var uppi á síðasta hluta ísaldar. Krómagnonmennirnir voru hluti þessa hóps

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir og myndir:

...