Hvenær kom fram hvítur kynstofn tegundarinnar Homo sapiens og hvernig vildi það til?Einfalt og stutt svar við þessari spurningu er að erfðafræðilegur munur á hópum innan tegundarinnar Homo sapiens er óverulegur og því er enginn líffræðilegur grundvöllur fyrir skiptingu tegundarinnar upp í ólíka kynstofna. Um þetta er fjallað nánar í svari sama höfundar við spurningunni Eru kynþættir ekki til? Að því gefnu er ekki hægt að svara spurningunni beint eins og hún er lögð fram. Hins vegar má svara því hvers vegna menn koma fyrir í ólíkum litaafbrigðum. Óneitanlega er sýnilegur útlitsmunur á einstaklingum sem tilheyra tegundinni Homo sapiens. Mest áberandi er munur á húðlit, háralit, stærð og á öðrum einkennum sem flokka má undir líkamsbyggingu og eru að mestu leyti erfðafræðilega ákvörðuð. Það er einmitt þessi útlitsmunur á einstaklingum sem leiddi fólk á fyrri tímum til þess að álykta ranglega að jafnmikill munur hlyti að vera á öllum erfðum einkennum einstaklinganna (og þeirra hópa sem þeir tilheyra).
Þrátt fyrir yfirborðskenndan útlitsmun milli einstaklinga erum við hins vegar öll nauðalík erfðafræðilega og náskyld ef miðað er við flestar aðrar tegundir. Ef teknir eru þeir tveir einstaklingar af tegund okkar sem eru fjarskyldastir í beinan kvenlegg, þá þarf ekki að fara lengra aftur en um 171 þúsund ár, eða um 5.700 kynslóðir, til að finna sameiginlega formóður þeirra í beinan kvenlegg. Þetta dæmi hefur ef til vill sérstaka þýðingu fyrir Íslendinga sem eru margir hverjir uppteknir um þessar mundir við að rekja saman ættir sínar í Íslendingabók hinni nýju. Erfðafræðin getur veitt einstaka sýn á hið gríðarlega flókna en tiltölulega stutta ættartré sem tengir saman alla núlifandi (og fyrrverandi) einstaklinga okkar tegundar.