Hvenær var byrjað að virkja vindorku og hvar get ég fundið upplýsingar um það?Hér er einnig svarað spurningunni:
Hver fann upp á vindmyllum?Menn hafa lengi nýtt sér hreyfiorkuna sem falin er í vindinum til þess að knýja til dæmis seglskip og vindmyllur. Elsta heimildin um siglingar er mynd af seglskipi máluð á disk sem fannst í Kúveit og er talin vera frá því 5500-5000 f.Kr. Seglskip voru lengi vel helstu farartækin til þess að flytja fólk og vörur langar vegalengdir, þar til gufuknúin skip urðu vinsælli á seinni hluta 19. aldar. Hinir frægu landkönnuðir Ferdinand Magellan, Kristófer Kólumbus og Vasco da Gama sigldu til dæmis á seglskipum í leiðöngrum sínum, og landnámsmenn Íslands komu hingað á skipum sem voru aðallega knúin af vindi. Talið er að gríski uppfinningamaðurinn Heron frá Alexandríu hafi búið til fyrstu vindmylluna á 1. öld e.Kr. en hún var notuð til að knýja einhvers konar vatnsorgel. Notkun vindmylla í landbúnaði, og raunar fyrsta hagnýta notkunin á vindmyllum, hófst á 7.-9. öld. Það var á landsvæði sem nú tilheyrir Íran en þar voru vindmyllur notaðar til að þurrka upp land og mala korn. Vindmyllurnar urðu síðar útbreiddar í Mið-Austurlöndum, auk þess að berast til Austur-Asíu og Evrópu. Þannig má nefna að seint á 12. öld voru vindmyllur mikið notaðar í Norðvestur-Evrópu til mölunar á korni. Eftir að rafallinn, sem umbreytir hreyfiorku í raforku, var fundinn upp var hægt að knýja rafal með vindafli og framleiða þannig raforku. Fyrsta notkun vindorku til raforkuframleiðslu var í Skotlandi árið 1887 en þá byggði verkfræðiprófessorinn James Blyth (1839-1906) vindtúrbínu í garðinum við sumarhús sitt og knúði með henni rafmagnsljós í húsinu. Var þetta upphafið af útbreiddri notkun vindmylla til raforkuframleiðslu næstu áratugina, meðal annars í Bandaríkjunum, eða þar til dreifikerfi á raforku var komið á fót. Í kjölfar olíukreppunnar 1973 jókst áhugi á endurnýtanlegum orkugjöfum, þar á meðal vindorku, og fé var veitt í rannsóknir á því hvernig hægt væri að byggja skilvirkar og afkastamiklar vindmyllur til raforkuframleiðslu. Undanfarna áratugi hefur mikil uppbygging átt sér stað í virkjun vindorku en árið 2014 kom um 4% af heildarraforkuframleiðslu heimsins frá um 240.000 vindmyllum. Á Íslandi voru nokkrar vindmyllur reistar á 19. öld, meðal annars tvær í Reykjavík sem notaðar voru til að mala rúg. Á 20. öld urðu litlar vindrafstöðvar algengar við bóndabæi þangað sem rafmagnslínur höfðu ekki enn verið lagðar, og til þess að knýja tæki, eins og veðurstöðvar, sem eru staðsett fjarri mannabyggðum. En þegar á heildina er litið hefur vindorka lítið verið notuð á Íslandi, í samanburði við til dæmis mörg lönd Evrópu og Bandaríkin. Árið 2013 voru vindrafstöðvar fyrst tengdar við flutningskerfið og árið 2014 var 0,04% af raforkuframleiðslu á Íslandi framleidd með vindorku. Heimildir:
- Vindur og vindorka | Veðurstofa Íslands. (Skoðað 21.04.2017).
- ÍDÞ. „Hvaða orkugjafar eru á Íslandi?“ Vísindavefurinn, 7. október 2016. (Skoðað 21.04.2017).
- History of wind power - Wikipedia. (Skoðað 21.04.2017).
- Maritime history - Wikipedia. (Skoðað 21.04.2017).
- Geir Þ. Þórarinsson. „Hvað getið þið sagt mér um uppfinningamenn og uppfinningar Forngrikkja?“ Vísindavefurinn, 25. mars 2010. (Skoðað 21.04.2017).
- History of Wind Power - Energy Explained, Your Guide To Understanding Energy - Energy Information Administration. (Skoðað 21.04.2017).
- Wind Energy Foundation | History of Wind Energy. (Skoðað 21.04.2017).
- Vindmylla Herons: History of wind power - Wikipedia. (Sótt 21.04.2017).
- Vindmylla Blyths: History of wind power - Wikipedia. (Sótt 21.04.2017).
- Vindmyllur: Windmill - Wikipedia. Myndrétthafi er Uberprutser. Myndin er birt undir Creative Commons-leyfi. (Sótt 21.04.2017).