Á þessum tíma gerðu menn sér enga grein fyrir víðáttu Kyrrahafsins og töldu að innan tíðar kæmu þeir að Kryddeyjum, fyrirheitna staðnum. Hafi ferðin reynst Magellan og mönnum hans erfið hingað til þá tók litlu betra við nú. Siglingin yfir Kyrrahafið stóð yfir í meira en þrjá mánuði og á þeim tíma tókst þeim aðeins einu sinni að taka land á lítilli eyju til þess að afla vista. Hungur og sjúkdómar, svo sem skyrbjúgur, hrjáðu menn og margir dóu á leiðinni. Í byrjun mars árið 1521 náðu þeir til Guameyju og mun það hafa bjargað mönnum frá hungurdauða að komast þar í land og afla fæðu. Eftir nokkurra daga siglingu í viðbót komu þeir til Filippseyja. Magellan og mönnum hans var vel tekið á Filippseyjum og varð þeim nokkuð ágengt í að útbreiða kristna trú. Fljótlega blandaðist Magellan þó inn í erjur innlendra höfðingja og fór svo að hann féll í bardaga ásamt nokkrum tugum manna sinna þann 27. apríl 1521. Þegar mannfallið á Filippseyjum bættist við það manntjón sem þegar hafði orðið vegna hungurs, sjúkdóma og annars í ferðinni var ekki lengur hægt að manna þrjú skip þar sem aðeins 115 menn voru eftir. Því var brugðið á það ráð að halda ferðinni áfram til Kryddeyja á tveimur skipum en brenna Conception. Til Kryddeyja náðu skipin í nóvember 1521. Þar var höfð viðdvöl í nokkrar vikur þar sem skipverjar gátu hvílst og safnað kröfum og skipin hlaðin kryddi og öðrum varningi. Í febrúar 1522, þegar leggja átti úr höfn með varninginn áleiðis til Spánar kom í ljós að Trinidad var of illa farið fyrir hina löngu ferð. Ákveðið var að hluti mannanna yrðu eftir til þess að lappa upp á skipið og reyna síðan að sigla aftur í austur og komast þannig heim. Það tókst hins vegar ekki þar sem skipið og áhöfn þess lentu í höndum Portúgala. Victoria með 60 manns innanborðs sigldi hins vegar áfram vestur á leið. Portúgalar réðu flestum höfnum á leiðinni og því var í lengstu lög forðast að taka land. Áhöfnin neyddist þó til að stoppað á Grænhöfðaeyjum, en þar vildi ekki betur til en svo að nokkrir skipverjar voru gripnir af Portúgölum og fangelsaðir.
Í byrjun september 1522, þremur árum eftir að Magellan hélt úr höfn, náði Victoria loks til Spánar með 19 manns innanborðs (sumar heimildir segja 18). Fyrstu hnattsiglingunni var lokið. Einn þeirra sem náðu að ljúka hnattsiglingunni var maður að nafni Antonio Pigafetta sem hélt dagbók á meðan á ferðinni stóð og er það ómetanleg heimild um þetta mikla afrek. Þegar Magellan lagði af stað var eitt meginmarkmiðið að finna nýja leið til Kryddeyja. Leiðin fannst en reyndist svo erfið og seinfarin að hún þótti ekki fýsilegur kostur. Leiðangurinn leiddi í ljós í eitt skipti fyrir öll, það sem menn höfðu raunar lengi vitað, að jörðin væri kúla en ekki flöt. Magellan fann siglingaleið á milli Atlantshafs og Kyrrahafs og var fyrstur Evrópumanna til þess að stýra leiðangri yfir Kyrrahafið. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hver var Kólumbus og hvað var svona merkilegt við hann? eftir Heiðu Maríu Sigurðardóttur
- Hver var Marco Polo og hversu langt ferðaðist hann? eftir Emilíu Dagnýju Sveinbjörnsdóttur
- Hvað var svona merkilegt við Vasco da Gama? eftir JGÞ
- Eric Newby. 1982. Könnunarsaga veraldar. Reykjavík. Örn og Örlygur.
- Ian Cameron. 1974. Magellan og fyrsta hnattsiglingin. Reykjavík, Örn og Örlygur.
- Ferdinand Magellan á Wikipedia.
- Ferdinand Magellan á Britannica - The Online Encyclopedia.
- Ferdinand Magellan (1480-1521) á BBC History.
- Ferdinand Magellan á About.com Geography.
- Mynd af Magellan: Ferdinand Magellan á Britannica - The Online Encyclopedia.
- Kort: Grunnur fengin á Magellan's voyage á Wikimedia Commons. Til hliðsjónar við merkingar: Magellan Elcano Circumnavigation á Wikipedia.
- Mynd af Victoria: Victoria (ship) á Wikipedia.