Sólin Sólin Rís 10:23 • sest 16:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:04 • Sest 15:29 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:18 • Síðdegis: 25:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:51 • Síðdegis: 18:50 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:23 • sest 16:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:04 • Sest 15:29 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:18 • Síðdegis: 25:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:51 • Síðdegis: 18:50 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver sigldi fyrstur umhverfis jörðina?

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir

Fyrsta hnattsiglingin er venjulega kennd við portúgalska sæfarann Magellan. Rétt er að hann fór fyrir fyrsta leiðangrinum sem sigldi umhverfis jörðina, en sjálfur náði Magellan þó ekki að ljúka ferðinni þar sem hann lést áður en hringnum var lokað.

Ferdinand Magellan fæddist í norðurhluta Portúgals um 1480. Ungur að árum kom hann að hirð Leonóru drottningar eiginkonu Jóhanns II. Konungurinn hafði mikinn áhuga á siglingum og landkönnun og teygði sá áhugi anga sína til hirðmanna drottningar því meðal þess sem þeim var uppálagt að læra var kortagerð og stjörnufræði.

Árið 1505, þá nýlega 25 ára gamall, sigldi Magellan með flota Francisco de Almeida til Austurlanda en Almeida hafði verði skipaður landstjóri á Indlandi. Þetta var stærsti floti sem nokkru sinni hafði farið frá strönd Portúgals, 22 skip og tæplega 2000 menn innanborðs. Magellan lagði af stað sem óreyndur lausamaður en kom til baka átta árum síðar sem reyndur skipstjóri sem tekið hafði þátt í mörgum orrustum, bæði á sjó og landi.

Eftir heimkomuna gekk Magellan illa að fá viðurkenningu fyrir framlag sitt í þágu fósturjarðarinnar og fór svo að Manúel II sem þá ríkti í Portúgal tilkynnti honum að hann gæti leitað í þjónustu annarra þjóðhöfðingja ef honum sýndist svo.

Árið 1517 gekk Magellan í þjónustu spænsku krúnunnar. Á þessum tíma var krydd mjög eftirsótt í Evrópu og hægt að hafa mikið upp úr verslun með það. Portúgalar fluttu krydd til Evrópu frá Kryddeyjum, öðru nafni Mólúkkaeyjum, sem tilheyra Indónesíu og réðu að mestu siglingarleiðinni til Austurlanda suður fyrir Afríku. Sú hugmynd að finna siglingaleiðina í vestur að eyjunum féll því vel í kramið hjá Karli I Spánarkonungi sem hét Magellan stuðningi sínum.

Hafist var handa við að undirbúa ferðina og í september árið 1519 var lagt af stað í þennan mikla leiðangur. Skipin voru fimm, Trinidad sem Magellan stýrði, San Antonio, Conception, Victoria og Santiago með rúmlega 200 manna áhöfn (heimildum ber ekki saman um fjöldann en hann virðist hafa verið á bilinu 234-277).

Eftir rúmlega tveggja mánaða siglingu yfir Atlantshafið kom floti Magellans að ströndum Brasilíu. Vikum saman var siglt suður með ströndinni í leit að siglingarleiðinni vestur fyrir álfuna. Flotinn þurfti að hafa vetursetu um margra mánaða skeið og á þeim tíma gerðu þrír skipstjóranna uppreisn sem endaði með því að einn þeirra féll, annar var hálshöggvinn og sá þriðji skilinn eftir í landi. Einnig missti Magellan eitt skipa sinna þegar Santiago strandaði í könnunarleiðangri, en áhöfnin bjargaðist að einum manni undanskildum.

Í október árið 1520, rúmu ári eftir að lagt var af stað, fann Magellan loks sundið sem hann hafði leitað að, leiðina á milli Atlantshafs og Kyrrahafs, sem síðan fékk nafnið Magellansund. Tæpum 40 dögum síðar sigldu þrjú skip út í Kyrrahafið, en áhöfn þess fjórða, San Antonio sem var stærsta skip leiðangursins, strauk á leiðinni og sneri skipinu aftur til Spánar með mestan hluta af vistum leiðangursins.



Fimm skip með hátt í 300 manna áhöfn létu úr höfn á Spáni í september 1519. Í september 1522 var hringnum lokað þegar eitt skipanna og 19 manna áhöfn náði aftur til Spánar.

Á þessum tíma gerðu menn sér enga grein fyrir víðáttu Kyrrahafsins og töldu að innan tíðar kæmu þeir að Kryddeyjum, fyrirheitna staðnum. Hafi ferðin reynst Magellan og mönnum hans erfið hingað til þá tók litlu betra við nú. Siglingin yfir Kyrrahafið stóð yfir í meira en þrjá mánuði og á þeim tíma tókst þeim aðeins einu sinni að taka land á lítilli eyju til þess að afla vista. Hungur og sjúkdómar, svo sem skyrbjúgur, hrjáðu menn og margir dóu á leiðinni. Í byrjun mars árið 1521 náðu þeir til Guameyju og mun það hafa bjargað mönnum frá hungurdauða að komast þar í land og afla fæðu. Eftir nokkurra daga siglingu í viðbót komu þeir til Filippseyja.

Magellan og mönnum hans var vel tekið á Filippseyjum og varð þeim nokkuð ágengt í að útbreiða kristna trú. Fljótlega blandaðist Magellan þó inn í erjur innlendra höfðingja og fór svo að hann féll í bardaga ásamt nokkrum tugum manna sinna þann 27. apríl 1521.

Þegar mannfallið á Filippseyjum bættist við það manntjón sem þegar hafði orðið vegna hungurs, sjúkdóma og annars í ferðinni var ekki lengur hægt að manna þrjú skip þar sem aðeins 115 menn voru eftir. Því var brugðið á það ráð að halda ferðinni áfram til Kryddeyja á tveimur skipum en brenna Conception. Til Kryddeyja náðu skipin í nóvember 1521. Þar var höfð viðdvöl í nokkrar vikur þar sem skipverjar gátu hvílst og safnað kröfum og skipin hlaðin kryddi og öðrum varningi.

Í febrúar 1522, þegar leggja átti úr höfn með varninginn áleiðis til Spánar kom í ljós að Trinidad var of illa farið fyrir hina löngu ferð. Ákveðið var að hluti mannanna yrðu eftir til þess að lappa upp á skipið og reyna síðan að sigla aftur í austur og komast þannig heim. Það tókst hins vegar ekki þar sem skipið og áhöfn þess lentu í höndum Portúgala. Victoria með 60 manns innanborðs sigldi hins vegar áfram vestur á leið. Portúgalar réðu flestum höfnum á leiðinni og því var í lengstu lög forðast að taka land. Áhöfnin neyddist þó til að stoppað á Grænhöfðaeyjum, en þar vildi ekki betur til en svo að nokkrir skipverjar voru gripnir af Portúgölum og fangelsaðir.



Endurgerð af Victoria, eina skipinu úr leiðangri Magellans sem náði aftur til Spánar. Þegar skipið kom til hafnar var það varla sjófært, enda hriplekt svo menn áttu fullt í fangi við dælurnar.

Í byrjun september 1522, þremur árum eftir að Magellan hélt úr höfn, náði Victoria loks til Spánar með 19 manns innanborðs (sumar heimildir segja 18). Fyrstu hnattsiglingunni var lokið.

Einn þeirra sem náðu að ljúka hnattsiglingunni var maður að nafni Antonio Pigafetta sem hélt dagbók á meðan á ferðinni stóð og er það ómetanleg heimild um þetta mikla afrek.

Þegar Magellan lagði af stað var eitt meginmarkmiðið að finna nýja leið til Kryddeyja. Leiðin fannst en reyndist svo erfið og seinfarin að hún þótti ekki fýsilegur kostur. Leiðangurinn leiddi í ljós í eitt skipti fyrir öll, það sem menn höfðu raunar lengi vitað, að jörðin væri kúla en ekki flöt. Magellan fann siglingaleið á milli Atlantshafs og Kyrrahafs og var fyrstur Evrópumanna til þess að stýra leiðangri yfir Kyrrahafið.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir og myndir:

Höfundur

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir

landfræðingur og starfsmaður Vísindavefsins

Útgáfudagur

21.4.2011

Spyrjandi

Sólrún Mary Gunnarsdóttir

Tilvísun

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hver sigldi fyrstur umhverfis jörðina?“ Vísindavefurinn, 21. apríl 2011, sótt 23. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=25378.

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. (2011, 21. apríl). Hver sigldi fyrstur umhverfis jörðina? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=25378

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hver sigldi fyrstur umhverfis jörðina?“ Vísindavefurinn. 21. apr. 2011. Vefsíða. 23. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=25378>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver sigldi fyrstur umhverfis jörðina?
Fyrsta hnattsiglingin er venjulega kennd við portúgalska sæfarann Magellan. Rétt er að hann fór fyrir fyrsta leiðangrinum sem sigldi umhverfis jörðina, en sjálfur náði Magellan þó ekki að ljúka ferðinni þar sem hann lést áður en hringnum var lokað.

Ferdinand Magellan fæddist í norðurhluta Portúgals um 1480. Ungur að árum kom hann að hirð Leonóru drottningar eiginkonu Jóhanns II. Konungurinn hafði mikinn áhuga á siglingum og landkönnun og teygði sá áhugi anga sína til hirðmanna drottningar því meðal þess sem þeim var uppálagt að læra var kortagerð og stjörnufræði.

Árið 1505, þá nýlega 25 ára gamall, sigldi Magellan með flota Francisco de Almeida til Austurlanda en Almeida hafði verði skipaður landstjóri á Indlandi. Þetta var stærsti floti sem nokkru sinni hafði farið frá strönd Portúgals, 22 skip og tæplega 2000 menn innanborðs. Magellan lagði af stað sem óreyndur lausamaður en kom til baka átta árum síðar sem reyndur skipstjóri sem tekið hafði þátt í mörgum orrustum, bæði á sjó og landi.

Eftir heimkomuna gekk Magellan illa að fá viðurkenningu fyrir framlag sitt í þágu fósturjarðarinnar og fór svo að Manúel II sem þá ríkti í Portúgal tilkynnti honum að hann gæti leitað í þjónustu annarra þjóðhöfðingja ef honum sýndist svo.

Árið 1517 gekk Magellan í þjónustu spænsku krúnunnar. Á þessum tíma var krydd mjög eftirsótt í Evrópu og hægt að hafa mikið upp úr verslun með það. Portúgalar fluttu krydd til Evrópu frá Kryddeyjum, öðru nafni Mólúkkaeyjum, sem tilheyra Indónesíu og réðu að mestu siglingarleiðinni til Austurlanda suður fyrir Afríku. Sú hugmynd að finna siglingaleiðina í vestur að eyjunum féll því vel í kramið hjá Karli I Spánarkonungi sem hét Magellan stuðningi sínum.

Hafist var handa við að undirbúa ferðina og í september árið 1519 var lagt af stað í þennan mikla leiðangur. Skipin voru fimm, Trinidad sem Magellan stýrði, San Antonio, Conception, Victoria og Santiago með rúmlega 200 manna áhöfn (heimildum ber ekki saman um fjöldann en hann virðist hafa verið á bilinu 234-277).

Eftir rúmlega tveggja mánaða siglingu yfir Atlantshafið kom floti Magellans að ströndum Brasilíu. Vikum saman var siglt suður með ströndinni í leit að siglingarleiðinni vestur fyrir álfuna. Flotinn þurfti að hafa vetursetu um margra mánaða skeið og á þeim tíma gerðu þrír skipstjóranna uppreisn sem endaði með því að einn þeirra féll, annar var hálshöggvinn og sá þriðji skilinn eftir í landi. Einnig missti Magellan eitt skipa sinna þegar Santiago strandaði í könnunarleiðangri, en áhöfnin bjargaðist að einum manni undanskildum.

Í október árið 1520, rúmu ári eftir að lagt var af stað, fann Magellan loks sundið sem hann hafði leitað að, leiðina á milli Atlantshafs og Kyrrahafs, sem síðan fékk nafnið Magellansund. Tæpum 40 dögum síðar sigldu þrjú skip út í Kyrrahafið, en áhöfn þess fjórða, San Antonio sem var stærsta skip leiðangursins, strauk á leiðinni og sneri skipinu aftur til Spánar með mestan hluta af vistum leiðangursins.



Fimm skip með hátt í 300 manna áhöfn létu úr höfn á Spáni í september 1519. Í september 1522 var hringnum lokað þegar eitt skipanna og 19 manna áhöfn náði aftur til Spánar.

Á þessum tíma gerðu menn sér enga grein fyrir víðáttu Kyrrahafsins og töldu að innan tíðar kæmu þeir að Kryddeyjum, fyrirheitna staðnum. Hafi ferðin reynst Magellan og mönnum hans erfið hingað til þá tók litlu betra við nú. Siglingin yfir Kyrrahafið stóð yfir í meira en þrjá mánuði og á þeim tíma tókst þeim aðeins einu sinni að taka land á lítilli eyju til þess að afla vista. Hungur og sjúkdómar, svo sem skyrbjúgur, hrjáðu menn og margir dóu á leiðinni. Í byrjun mars árið 1521 náðu þeir til Guameyju og mun það hafa bjargað mönnum frá hungurdauða að komast þar í land og afla fæðu. Eftir nokkurra daga siglingu í viðbót komu þeir til Filippseyja.

Magellan og mönnum hans var vel tekið á Filippseyjum og varð þeim nokkuð ágengt í að útbreiða kristna trú. Fljótlega blandaðist Magellan þó inn í erjur innlendra höfðingja og fór svo að hann féll í bardaga ásamt nokkrum tugum manna sinna þann 27. apríl 1521.

Þegar mannfallið á Filippseyjum bættist við það manntjón sem þegar hafði orðið vegna hungurs, sjúkdóma og annars í ferðinni var ekki lengur hægt að manna þrjú skip þar sem aðeins 115 menn voru eftir. Því var brugðið á það ráð að halda ferðinni áfram til Kryddeyja á tveimur skipum en brenna Conception. Til Kryddeyja náðu skipin í nóvember 1521. Þar var höfð viðdvöl í nokkrar vikur þar sem skipverjar gátu hvílst og safnað kröfum og skipin hlaðin kryddi og öðrum varningi.

Í febrúar 1522, þegar leggja átti úr höfn með varninginn áleiðis til Spánar kom í ljós að Trinidad var of illa farið fyrir hina löngu ferð. Ákveðið var að hluti mannanna yrðu eftir til þess að lappa upp á skipið og reyna síðan að sigla aftur í austur og komast þannig heim. Það tókst hins vegar ekki þar sem skipið og áhöfn þess lentu í höndum Portúgala. Victoria með 60 manns innanborðs sigldi hins vegar áfram vestur á leið. Portúgalar réðu flestum höfnum á leiðinni og því var í lengstu lög forðast að taka land. Áhöfnin neyddist þó til að stoppað á Grænhöfðaeyjum, en þar vildi ekki betur til en svo að nokkrir skipverjar voru gripnir af Portúgölum og fangelsaðir.



Endurgerð af Victoria, eina skipinu úr leiðangri Magellans sem náði aftur til Spánar. Þegar skipið kom til hafnar var það varla sjófært, enda hriplekt svo menn áttu fullt í fangi við dælurnar.

Í byrjun september 1522, þremur árum eftir að Magellan hélt úr höfn, náði Victoria loks til Spánar með 19 manns innanborðs (sumar heimildir segja 18). Fyrstu hnattsiglingunni var lokið.

Einn þeirra sem náðu að ljúka hnattsiglingunni var maður að nafni Antonio Pigafetta sem hélt dagbók á meðan á ferðinni stóð og er það ómetanleg heimild um þetta mikla afrek.

Þegar Magellan lagði af stað var eitt meginmarkmiðið að finna nýja leið til Kryddeyja. Leiðin fannst en reyndist svo erfið og seinfarin að hún þótti ekki fýsilegur kostur. Leiðangurinn leiddi í ljós í eitt skipti fyrir öll, það sem menn höfðu raunar lengi vitað, að jörðin væri kúla en ekki flöt. Magellan fann siglingaleið á milli Atlantshafs og Kyrrahafs og var fyrstur Evrópumanna til þess að stýra leiðangri yfir Kyrrahafið.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir og myndir: