Sólin Sólin Rís 10:52 • sest 15:43 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:25 • Síðdegis: 19:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:09 • Síðdegis: 13:45 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:52 • sest 15:43 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:25 • Síðdegis: 19:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:09 • Síðdegis: 13:45 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvaða menjar sjást eftir ísaldarjökulinn á Reykjavíkursvæðinu?

Árni Hjartarson

Ísaldarjökullinn sem lá yfir Reykjavík hefur skilið eftir sig fjölbreytilegar menjar. Þær blasa við nánast hvert sem litið er. Þegar jökullinn skreið af hálendinu, yfir láglendið og út til sjávar á höfuðborgarsvæðinu svarf hann og mótaði undirlag sitt með ýmsum hætti. Hann skildi eftir sig jökulrispur á klöppum en einnig svokallaðar jökulgrópir, hvalbök og jökulmótað landslag, jökulsorfnar hæðir og lægðir, firði, sund og eyjar.[1] Í Nauthólsvík og Öskjuhlíð má sjá góð dæmi um þetta. Þar eru jökulrispur á grágrýtinu sem sýna að í eina tíð hefur jökull skriðið út Fossvoginn og teygt sig á haf út. Stóra Lyngberg skammt austan við baðströndina er dæmi um jökulsorfið hvalbak og uppi á því eru dæmigerðar jökulgrópir og rákir sem sýna að jökullinn sem svarf þær kom frá Bláfjöllum. Öskjuhlíðin sjálf er jökulmótuð hæð sem hefur staðið betur af sér álag jökulsins en landið í kring.

Jökulrákaðar klappir í Fossvogi skammt innan við Nauthólsvík. Stefna jökulrákanna sýna að jökullinn sem mótaði þær kom frá Bláfjallasvæðinu. Ofan á klöppunum er jökulruðningur og sjávarset frá ísaldarlokum.

Jöklarnir skildu líka eftir sig jökulruðning, grettistök og jökulgarða. Áberandi jökulgarðar eru í Kópavogi og úti á Álftanesi. Það er Álftanesgarðurinn svonefndi en Bessastaðir standa á honum. Álftanesgarðurinn myndaðist í ísaldarlok þegar jökullinn sem lá yfir Reykjavíkursvæðinu var að hörfa inn fyrir núverandi strönd.[2]

Í Heiðmörk og Bláfjöllum og einnig í Hengli má sjá menjar eftir eldgos undir jökulísnum. Þetta eru fjöll og hæðir úr móbergstúffi, kubbabergi og bólstrabergi en þessar bergtegundir verða til við gos undir jökli. Vífilsfell er gott dæmi um fjall sem orðið hefur til við eldgos undir mörg hundruð metra þykkum jökulís.

Í lok ísaldar stóð sjór miklu hærra við strendur landsins en hann gerir nú. Víða um land má finna skeljar í jarðlögum og sjá fornar strandlínur langt inn til dala. Ástæðan fyrir hárri sjávarstöðu við landið í ísaldarlok var sú að landið hafði sigið svo mjög undan fargi jöklanna, að þrátt fyrir að sjór stæði almennt mun lægra í heimshöfunum en hann gerir í dag, flæddi hann langt inn yfir núverandi strendur er ísa leysti og áður en land náði að rísa á ný.

Setlög frá ísaldarlokum í Fossvogi. Í forgrunni sést jökulruðningur með grettistökum. Ofan á honum sést í lagskipt straumvatnaset. Fjær og innar með voginum sést lagskipt sjávarset. Í því eru fornskeljar.

Þegar jökullinn hörfaði af höfuðborgarsvæðinu fyrir 11.500 árum fylgdi sjórinn honum fast eftir. Í Öskjuhlíð eru fjörumörk í 42 m y.s.[3] Á sama tíma kaffærði sjórinn allt Kársnesið. Efsti hluti Borgarholtsins, þar sem Kópavogskirkja stendur, er í rétt rúmum 40 m. Þar hefur aldan brotnað á skeri og skilið eftir sig þá lábörðu hnullungadreif sem holtið skartar. Óvíða er skemmtilegri sjávarstöðumenjar frá ísaldarlokum að finna á höfuðborgarsvæðinu en einmitt þarna.

Tilvísanir:
  1. ^ Árni Hjartarson 1999. Jökulrákir í Reykjavík. Náttúrufræðingurinn 68, 155-160.
  2. ^ Árni Hjartarson 1989. The ages of the Fossvogur layers ant the Álftanes end-moraine, SW-Iceland. Jökull 39, 21-31.
  3. ^ Ólafur Ingólfsson, Hreggviður Norðdahl and Hafliði Hafliðason 1995. A rapid isostatic rebound in South-western Iceland at the end of the last glaciation. Boreas 24, 245-259.

Myndir:
  • Árni Hjartarson.

Höfundur

Árni Hjartarson

jarðfræðingur

Útgáfudagur

23.11.2015

Spyrjandi

Jóhanna Gísladóttir

Tilvísun

Árni Hjartarson. „Hvaða menjar sjást eftir ísaldarjökulinn á Reykjavíkursvæðinu?“ Vísindavefurinn, 23. nóvember 2015, sótt 3. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=21968.

Árni Hjartarson. (2015, 23. nóvember). Hvaða menjar sjást eftir ísaldarjökulinn á Reykjavíkursvæðinu? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=21968

Árni Hjartarson. „Hvaða menjar sjást eftir ísaldarjökulinn á Reykjavíkursvæðinu?“ Vísindavefurinn. 23. nóv. 2015. Vefsíða. 3. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=21968>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvaða menjar sjást eftir ísaldarjökulinn á Reykjavíkursvæðinu?
Ísaldarjökullinn sem lá yfir Reykjavík hefur skilið eftir sig fjölbreytilegar menjar. Þær blasa við nánast hvert sem litið er. Þegar jökullinn skreið af hálendinu, yfir láglendið og út til sjávar á höfuðborgarsvæðinu svarf hann og mótaði undirlag sitt með ýmsum hætti. Hann skildi eftir sig jökulrispur á klöppum en einnig svokallaðar jökulgrópir, hvalbök og jökulmótað landslag, jökulsorfnar hæðir og lægðir, firði, sund og eyjar.[1] Í Nauthólsvík og Öskjuhlíð má sjá góð dæmi um þetta. Þar eru jökulrispur á grágrýtinu sem sýna að í eina tíð hefur jökull skriðið út Fossvoginn og teygt sig á haf út. Stóra Lyngberg skammt austan við baðströndina er dæmi um jökulsorfið hvalbak og uppi á því eru dæmigerðar jökulgrópir og rákir sem sýna að jökullinn sem svarf þær kom frá Bláfjöllum. Öskjuhlíðin sjálf er jökulmótuð hæð sem hefur staðið betur af sér álag jökulsins en landið í kring.

Jökulrákaðar klappir í Fossvogi skammt innan við Nauthólsvík. Stefna jökulrákanna sýna að jökullinn sem mótaði þær kom frá Bláfjallasvæðinu. Ofan á klöppunum er jökulruðningur og sjávarset frá ísaldarlokum.

Jöklarnir skildu líka eftir sig jökulruðning, grettistök og jökulgarða. Áberandi jökulgarðar eru í Kópavogi og úti á Álftanesi. Það er Álftanesgarðurinn svonefndi en Bessastaðir standa á honum. Álftanesgarðurinn myndaðist í ísaldarlok þegar jökullinn sem lá yfir Reykjavíkursvæðinu var að hörfa inn fyrir núverandi strönd.[2]

Í Heiðmörk og Bláfjöllum og einnig í Hengli má sjá menjar eftir eldgos undir jökulísnum. Þetta eru fjöll og hæðir úr móbergstúffi, kubbabergi og bólstrabergi en þessar bergtegundir verða til við gos undir jökli. Vífilsfell er gott dæmi um fjall sem orðið hefur til við eldgos undir mörg hundruð metra þykkum jökulís.

Í lok ísaldar stóð sjór miklu hærra við strendur landsins en hann gerir nú. Víða um land má finna skeljar í jarðlögum og sjá fornar strandlínur langt inn til dala. Ástæðan fyrir hárri sjávarstöðu við landið í ísaldarlok var sú að landið hafði sigið svo mjög undan fargi jöklanna, að þrátt fyrir að sjór stæði almennt mun lægra í heimshöfunum en hann gerir í dag, flæddi hann langt inn yfir núverandi strendur er ísa leysti og áður en land náði að rísa á ný.

Setlög frá ísaldarlokum í Fossvogi. Í forgrunni sést jökulruðningur með grettistökum. Ofan á honum sést í lagskipt straumvatnaset. Fjær og innar með voginum sést lagskipt sjávarset. Í því eru fornskeljar.

Þegar jökullinn hörfaði af höfuðborgarsvæðinu fyrir 11.500 árum fylgdi sjórinn honum fast eftir. Í Öskjuhlíð eru fjörumörk í 42 m y.s.[3] Á sama tíma kaffærði sjórinn allt Kársnesið. Efsti hluti Borgarholtsins, þar sem Kópavogskirkja stendur, er í rétt rúmum 40 m. Þar hefur aldan brotnað á skeri og skilið eftir sig þá lábörðu hnullungadreif sem holtið skartar. Óvíða er skemmtilegri sjávarstöðumenjar frá ísaldarlokum að finna á höfuðborgarsvæðinu en einmitt þarna.

Tilvísanir:
  1. ^ Árni Hjartarson 1999. Jökulrákir í Reykjavík. Náttúrufræðingurinn 68, 155-160.
  2. ^ Árni Hjartarson 1989. The ages of the Fossvogur layers ant the Álftanes end-moraine, SW-Iceland. Jökull 39, 21-31.
  3. ^ Ólafur Ingólfsson, Hreggviður Norðdahl and Hafliði Hafliðason 1995. A rapid isostatic rebound in South-western Iceland at the end of the last glaciation. Boreas 24, 245-259.

Myndir:
  • Árni Hjartarson.

...