Efnahagskerfi Kína byggir að miklu leyti (um 40%) á útflutningi á neysluvörum fyrir Vesturlönd en þar hefur neysla dregist mikið saman og eftirspurn því minnkað. Í maí 2009 var útflutningur rúmum fjórðungi minni en á sama tíma árið 2008. Auk þess hefur dregið mjög úr erlendum fjárfestingum í landinu. Gert hefur verið ráð fyrir verulegum samdrætti í kínverska efnahagskerfinu, allt niður í 6%, en í júní 2009 spáði Alþjóðabankinn 7,2% hagvexti á árinu 20091. Þetta kunna að virðast háar tölur, einkum þegar borið er saman við Bandaríkin og Vestur-Evrópu þar sem hagvöxtur hefur verið á bilinu 2-3% undanfarin ár (fyrir heimskreppu), en lækkun hagvaxtar í Kína hefur viðsjárverð áhrif. Atvinnulausum fjölgar ört og er áætlað að þeir verði um 40 milljónir á árinu 20092. Skortur á skilvirku velferðarkerfi veldur mikilli ólgu á meðal þessa fólks og sumir telja að kreppan gæti jafnvel leitt til þess að það taki að hrikta í stoðum stjórnkerfisins3. Þótt enn séu engin merki um slíkt er ljóst að kreppan mun hafa veruleg og hugsanlega afar víðtæk áhrif í Kína. Þar má heldur ekki gleyma að fátækt í Kína er enn mikil og að minnsta kosti 30 milljónir manna lifa í sárri fátækt, að langmestu leyti í héruðunum í vestri. Hvað sem öllu þessu líður er hins vegar ólíklegt að staða Kína sem efnahagslegs stórveldis muni taka breytingum. Stóraukin umsvif Kína í efnahagsmálum heimsins á undanförnum áratugum hefur knúið aðrar þjóðir til að viðurkenna pólitískt vægi þess á alþjóðavísu. Kína hefur raunar átt fastafulltrúa í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna síðan 1971 en það er einkum á seinni árum, með auknum vilja kínverskra yfirvalda til samvinnu með öðrum þjóðum, sem Kína hefur verið tekið alvarlega á sviði alþjóðastjórnmála.
Kína á aðild að Shanghai-samstarfsráðinu ásamt Rússlandi, Kasakstan, Kirgisistan, Úsbekistan og Tadsjikistan (dökkgrænt). Ljósgrænu löndin eiga áheyrnarfulltrúa í ráðinu.
Gríðarlegt vægi Kína á Kyrrahafssvæðinu er óumdeilt. Ekki þykir til dæmis raunhæft að finna lausn á málefnum Norður-Kóreu án þess að hafa kínversk yfirvöld með í ráðum. Hugsanleg viðleitni Kínverja til að mynda bandalög sem verkað gætu sem mótvægi gegn Atlantshafsbandalaginu (NATO) hefur verið fylgt eftir af miklum áhuga, tortryggni og jafnvel ótta. Stofnun Shanghai-samstarfsráðsins (Shanghai Cooperation Organisation – SCO) árið 2001 (fyrrum „Shanghai-fimm“ sem sett var á laggirnar 1996) ásamt Rússlandi, Kasakstan, Kirgisistan, Úsbekistan og Tadsjikistan er dæmi um slíkt bandalag. Auk aðildarþjóðanna eiga Indverjar, Pakistanar, Íranar og Mongólar áheyrnarfulltrúa í ráðinu. Einnig má nefna stóraukið samstarf Kína við hin 10 aðildarríki ASEAN-samtakanna (Association of Southeast Asian Nations) sem felur í sér víðtæka samvinnu um efnahags-, umhverfis- og öryggismál. Loks má nefna að Kína hefur stóraukið útgjöld sín til varnarmála á undanförnum áratug eða um 12-15% á ári. Bandarískir hernaðarsérfræðingar áætla að útgjöld Kínverja til hernaðarmála séu allt að þrisvar sinnum hærri en kínversk yfirvöld gefa upp. Það myndi þýða að á árinu 2007 hafi útgjöldin verið allt að 125 milljarðar Bandaríkjadala í stað 45 milljarða, eins og segir í opinberum tölum kínverska varnarmálaráðuneytisins4. Ef þetta mat á við rök að styðjast eru útgjöld Kína til varnarmála næsthæst í heimi á eftir Bandaríkjunum og Kína er þá nú þegar orðið, eða í óðaönn að verða, hernaðarlegt stórveldi. Hafa ber þó í huga að hærri talan er enn hverfandi í samanburði við útgjöld Bandaríkjanna til hernaðarmála sem nam 623 milljörðum dala árið 20085. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Af hverju eru Bandaríki Norður-Ameríku svona máttug? eftir Jóhann M. Hauksson
- Hvaða land eða lönd gætu í náinni framtíð orðið að ríki sem getur jafnast á við Bandaríkin í hernaðarmætti og efnahag? eftir Örn Arnarson
- Hagnast Kínverjar meira en Bandaríkjamenn á viðskiptum þjóðanna? eftir Gylfa Magnússon
- “World Bank Raises China 2009 Growth Forecast to 7,2%”, Bloomberg News, 27. júní 2009.
- “China to Train Housekeepers to Reduce Unemployment”, Asia Pacific News, 19. júní 2009.
- Joshua Kurlantzick, “Crash and Burn. How the Global Economic Crisis could bring down the Chinese Government”, The New Republic, 18. nóvember 2008.
- “Pentagon Warns that China is Adding Missiles and Building Capacity to Fight Abroad”, The Washington Post, 26. maí 2007.
- “World Wide Military Expenditures”, GlobalSecurity.org.
- Market Avenue. Sótt 12. 8. 2009.
- Rising Powers. Sótt 12. 8. 2009.