Þetta á líka við um Bandaríkin. Bæði hefur þar verið trú á kapítalisma - og einkaframtak í framleiðslu og þjónustu - og fólk hefur getað stundað þá iðju að græða peninga (vart þarf að taka fram að margur maðurinn hefur lifað þar við sult og seyru, en það hefur ekki komið í veg fyrir mátt ríkisins). Vegna þessa kerfis hefur safnast upp mikið ríkidæmi og framleiðslukraftur. Þessi framleiðslukraftur hefur verið svo mikill að auðveldlega má færa rök fyrir því að Möndulveldin (Þýskaland, Ítalía og Japan) hafi tapað síðari heimsstyrjöldinni þegar Bandaríkin sneru hernaðarmætti sínum gegn þeim; að sigur Bandamanna (Bandaríkjanna, Breta og Sovétmanna) hafi aðeins verið spurning um tíma. Í stuttu máli voru Bandaríkin langöflugasta ríki veraldar að heimsstyrjöldinni lokinni, þar sem mörg önnur lönd höfðu verið lögð í rúst. Þessir yfirburðir hafa haldist, þó að hlutfallslega hafi dregið úr þeim. Eftir heimsstyrjöldina kusu Bandaríkin að vernda markaðskerfið um víða veröld, þar sem þeim var það fært, og kemur þaðan vilji þeirra til að byggja upp herveldi. Loks ber þess að geta að auður Bandaríkjanna gerir þeim kleift að hafa áhrif með því að veita fjármagni (sem þá er kallað „þróunaraðstoð") til hinna ýmsu landa heimsins. Þau geta þá skrúfað fyrir „aðstoðina" ef ríkið gerir ekki sem Bandaríkin bjóða. Þetta á til að mynda við um Egyptaland. Í kjölfar þessa hefur mótast það sem oft er kallað Pax Americana, „ameríski friðurinn", sem líkt er við Pax Romana eða Pax Britannica; Rómarfriðinn til forna eða Bretafriðinn á 19. öld. Þetta er heimsveldi - sem byggist á kapítalisma um víða veröld - sem Bandaríkjamenn hafa mótað og eru reiðubúnir að verja með mætti sínum. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvaða land eða lönd gætu í náinni framtíð orðið að ríki sem getur jafnast á við Bandaríkin í hernaðarmætti og efnahag? eftir Örn Arnarson
- Hvaða land er það vanþróaðasta í heimi? eftir Þórönu Elínu Dietz
- Wikipedia.com. Sótt 31.05.2010