Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Nokkuð snúið er að meta hve mikinn hag ein þjóð hefur af viðskiptum við aðra. Ein leið til að skoða þetta væri að reyna að áætla hve mikill kaupmáttur þjóðartekna væri hjá tiltekinni þjóð ef hún gæti ekki átt viðskipti við ákveðna aðra þjóð og bera það saman við hver kaupmátturinn er nú í raun. Svona æfingar er hægt að gera í ýmsum tegundum þjóðhagslíkana. Það er þó alls ekki víst að útkoman verði mjög áreiðanleg af ýmsum ástæðum sem ekki verður farið út í hér. Undirrituðum er ekki kunnugt um neina tilraun til að skoða viðskipti Kínverja og Bandaríkjamanna með þessum hætti svo að ekki verða hér kynntar slíkar niðurstöður. Hins vegar má skoða þessi viðskipti út frá því sem almennt er vitað um eðli milliríkjaviðskipta.
Almennt gildir vitaskuld að viðskipti verða þegar bæði kaupandi og seljandi sjá sér hag í því. Því liggur í hlutarins eðli að bæði Kínverjar og Bandaríkjamenn hagnast á viðskiptum þjóðanna.
Almennt gildir einnig að smá hagkerfi hafa meiri hag af milliríkjaviðskiptum en stór, af þeirri einföldu ástæðu að auðveldara er að koma við verkaskiptingu og nýta hagkvæmni stórrekstrar í stóru hagkerfi en smáu, án milliríkjaviðskipta. Milliríkjaviðskipti gera smáum ríkjum kleift að einbeita sér að tiltölulega fáum atvinnugreinum, skara jafnvel framúr á einstökum sviðum, flytja sumt af framleiðslunni út en láta öðrum þjóðum eftir aðrar atvinnugreinar og kaupa framleiðslu þeirra. Vegna þessa má búast við því að öðru jöfnu að því smærra sem ríki er, þeim mun hærra hlutfall af landsframleiðslu þess sé flutt inn og út.
Nú er það svo að bæði Kína og Bandaríkin eru mjög stór ríki; Kína það fjölmennasta í heimi og Bandaríkin einnig fjölmenn og stærsta hagkerfi heims, svipað að stærð og öll Evrópusambandsríkin til samans. Þótt Kínverjar séu margir er hagkerfi ríkisins þó ekki meðal þeirra stærstu í heimi vegna þess hve fátækir íbúarnir eru. Kínverska hagkerfið er einnig miklu fábreyttara en það bandaríska og tækni og menntun mun lakari í Kína en Bandaríkjunum. Þótt saga og menning Kínverja sé afar merk hafa þeir því mun meira að læra af Bandaríkjamönnum en öfugt.
Í ljósi þessa virðast rök hníga að því að Kínverjar hagnist meira á viðskiptum við Bandaríkjamenn en öfugt. Hið öfluga bandaríska hagkerfi er það stórt að það gæti verið sjálfu sér nógt um afar margar vörur en samt notið hagkvæmni stórrekstrar í ákveðnum atvinnugreinum. Kína býr, enn að minnsta kosti, við lakari tækni og þekkingu og hefur úr mun minna fjármagni að spila svo að það skiptir Kínverja meira máli að geta einbeitt sér að þeim greinum sem njóta sín vel í Kína og flutt annað inn. Þeir njóta þess líka að geta lært af löndum sem standa þeim framar í efnahagsmálum, eins og Bandaríkjunum, og það væri miklu erfiðara fyrir Kínverja ef þeir skiptu ekki við slík ríki. Væntanlega gætu viðskipti við önnur iðnríki, til dæmis lönd Evrópu og ríkustu lönd Asíu að nokkru marki komið í stað viðskipta við Bandaríkin frá sjónarhóli Kínverja en ekki verður hér lagt mat á það hve miklu það skiptir.
Rétt er að benda á að engu máli skiptir í þessu samhengi að Kínverjar flytja mun meira út til Bandaríkjanna en Bandaríkjamenn flytja út til Kína. Með öðrum orðum er halli á viðskiptunum við Kína frá sjónarhóli Bandaríkjamanna. Lönd hagnast nefnilega engu síður á innflutningi en útflutningi. Auðvelt er að sjá þetta með því að velta fyrir sér viðskiptum tiltekins einstaklings, ef hann gæti einungis selt það sem hann hefur að bjóða, til dæmis vinnu sína, en ekkert keypt fyrir afraksturinn þá væri allt hans strit fyrir lítið. Það skiptir ekki minna máli að geta gert góð kaup en að geta selt við góðu verði.
Mynd:
Gylfi Magnússon. „Hagnast Kínverjar meira en Bandaríkjamenn á viðskiptum þjóðanna?“ Vísindavefurinn, 15. júní 2001, sótt 23. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1703.
Gylfi Magnússon. (2001, 15. júní). Hagnast Kínverjar meira en Bandaríkjamenn á viðskiptum þjóðanna? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1703
Gylfi Magnússon. „Hagnast Kínverjar meira en Bandaríkjamenn á viðskiptum þjóðanna?“ Vísindavefurinn. 15. jún. 2001. Vefsíða. 23. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1703>.