Fyrstu nútímaólympíuleikarnir fóru fram í Aþenu árið 1896 en þar var maraþonhlaup á meðal keppnisgreina. Grikki að nafni Spiridon Louis kom fyrstur í mark á tímanum 2 klst., 58 mín. og 50 sek. (2:58:50). Vegalengdin var hins vegar einungis 40 kílómetrar en frá og með Ólympíuleikunum í París árið 1924 var vegalengdin fastsett í 42 kílómetra og 195 metra eða 26,22 mílur eins og Bandaríkjamenn tala gjarnan um.
Konur hlupu ekki maraþonhlaup á Ólympíuleikum fyrr en árið 1984. Þá kom hin bandaríska Joan Benoit fyrst í mark í Los Angeles á tímanum 2:24:52. Nú á Haile Gebrselassie frá Eþíópíu heimsmetið í maraþonhlaupi karla en hann náði tímanum 2:03:59 í Berlínarmaraþoninu árið 2008. Hann keppti hins vegar ekki í maraþoni á Ólympíuleikunum sem fóru fram þetta sama ár í Peking. Heimsmetið í kvennaflokki er 2:15:25 sett af Paulu Radcliffe frá Bretlandi í apríl árið 2003. Áhugavert er að skoða tíu bestu karlana en þar situr eins og áður segir Gebrselassie á toppnum en í sætum 2-10 eru einungis Keníumenn. Auk þess munar einungis 1 mín. og 14 sek. á heimsmetinu og 10. besta tímanum. Munurinn er töluvert meiri í kvennaflokki enda heimsmetið orðið 7 ára gamalt.
Til að gera sér betur í hugarlund hversu hratt maraþonhlauparar fara má geta þess að meðalhraði Gebrselassie þegar hann setti heimsmetið var 20,4 km/klst. Höfundur þessa svars hvetur lesendur að fara á hlaupabretti og auka hraðann jafnt og þétt og þannig reyna að nálgast meðalhraða Gebrselassie. Vísindavefurinn tekur samt enga ábyrgð á meiðslum sem geta hlotist af því að detta af hlaupabretti á þessum hraða! Sökum þess hve maraþonhlaup er langt getur brautin sem hlaupin er skipt mjög miklu máli. Þannig geta nokkrar brekkur í seinni hluta maraþons hægt mjög á keppendum. Hæð yfir sjávarmáli skiptir einnig máli en með meiri hæð þynnist loftið og getur reynst þeim sem óvanir eru að hlaupa við þær aðstæður óþægur ljár í þúfu. Bestu tímarnir nást á brautum sem eru við sjávarmál og þar sem hæðarmismunur er tiltölulega lítill. Lítill vindur og svalt veður skemmir heldur ekki fyrir. Svokallaðir hérar leika einnig stórt hlutverk. Héri hleypur á undan fremstu mönnum á fyrir fram ákveðnum tíma en dregur sig svo yfirleitt í hlé eða nýr tekur við. Spennandi verður að fylgjast með tímunum í maraþonhlaupi í nánustu framtíð. Til dæmis hvort karlarnir hafi náð ákveðnum toppi enda er í raun ótrúlega stutt á milli þeirra miðað við þessa löngu vegalengd. Aftur á móti er það eflaust draumur margra að vera fyrstur til að hlaupa undir tveimur klukkustundum. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvenær voru fyrstu Ólympíuleikarnir haldnir? Hvers vegna? Hvaða íþróttir voru þá? eftir Hauk Má Helgason
- Ef maður hlypi stanslaust í sólarhring myndi þá líða yfir hann? eftir Ágúst Kvaran
- Hvað brennir meðalmaðurinn mörgum hitaeiningum í maraþonhlaupi? eftir EDS
- Er hægt að hlaupa hraðar aftur á bak en áfram? [föstudagssvar] eftir ritstjórn
- Hvað er hlaupastingur og hvernig er hægt að losna við hann? eftir Emilíu Dagnýju Sveinbjörnsdóttur
- Hvað gerist í líkamanum við áreynslu? eftir Sindra Traustason og Þórarin Sveinsson
- Wikipedia.com - Phidippides. Sótt 20.7.2010.
- Wikipedia.com - Berlínarmaraþonið. Sótt 20.7.2010.