Við minnum á að rannsóknir í hlaupum aftur á bak eru grunnrannsóknir. Leiðarstef fræðimanna í faginu er: ,,Í upphafi skyldi end(ir)inn skoða'' - og eru menn þegar farnir að skoða hvora orðmyndina skuli nota. Að þeirri skoðun lokinni verður merki stofnunarinnar birt en þegar hefur verið bannað að í því komi fyrir hringur af því að hann hefur sem kunnugt er engan endi. Til stendur að fjölga birtingum fræðimanna við Háskóla Íslands um þetta mikilvæga efni um 100%. Það ætti að nást fljótlega, enda má skrifa greinar um svona hlaup bæði aftur á bak og áfram. Það er skilvirkni! Einn af meginkostum þessa rannsóknaverkefnis er sá að það er svo þverfræðilegt. Þannig hafa líffræðingar þegar hafið rannsóknir á því af hverju menn hafa ekki augu í hnakkanum og málvísindamenn athuga af hverju orðið ,,áfram'' vísar í sömu stefnu og augun í okkur en ,,aftur á bak" í hina áttina. Fræðimenn sem hafa stundað rannsóknir á sléttuböndum eru sérstaklega hvattir til að hafa samband við rannsóknarstofuna á næstu misserum - enda eru þeir manna leiknastir í því fást við texta sem hægt er að lesa bæði aftur á bak og áfram. Eins er ljóst að mikil þörf verður á málvísindamönnum sem hafa sérhæft sig rannsóknum á afurbeygða fornafninu í indóevrópskri samanburðarmálfræði. Bókmenntafræðingar og leikhúsfók sem hefur góð tök á Ibsen er líka sérstaklega hvatt til að slást í hópinn. Gera má ráð fyrir því að fyrstu námskeið sem kennd verða í hreyfingarfræðum aftur á bak fjalli um leikrit Ibsens Afturgöngur, en það mun taka sérstaklega á fyrstu skrefum manna sem ganga aftur á bak. Ibsen hafði einmitt sérstakan áhuga á hugtökunum upphaf og endir og kemur hann einnig fram í Brúðuheimilinu. Eins og kunnugt er hafa verið skrifaðar bæði lærðar greinar og heil leikrit þar sem spurt er um endi þess verks:
Hvor gik Nora hen (da hun gik ud)? [Hvert fór Nóra þegar hún fór út?]Þessi spurning verður einnig tekin fyrir í námskeiðinu en þangað til eru lesendur hvattir til að kynna sér hana með gúgli. Góða helgi! Munið að þetta er föstudagssvar! Mynd: