Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Þetta er mjög vinsæl spurning eins og sést á því hversu margir hafa spurt Vísindavefinn um hlaupasting. Aðrir spyrjendur eru:
Árni Haraldsson, Ellen Helga Steingrímsdóttir, Emilía Sigurðardóttir, Ásdís Ágústsdóttir, Eydís Daníelsdóttir, Ása Einarsdóttir, Davíð Stefánsson, Stefán Gunnarsson, Steinunn Sigurðardóttir, Rakel Jónsdóttir, Viktor Traustason, Bragi Róbertsson, Guðrún Pétursdóttir, Birgir Brynjólfsson, Andrea Hauksdóttir, Kjartan Guðmundsson, Þórður Sævar Jónsson, Áslaug Sóllilja Gísladóttir og Sólveig María Sigurbjörnsdóttir.
Margir hafa lent í því að finna fyrir slæmum verk ofarlega í kviðarholi (oftast hægra megin) þegar hlaupið er. Stundum er verkurinn jafnvel svo slæmur að erfitt er að halda hlaupinu áfram. Þessi verkur er í dagleg tali kallaður hlaupastingur. Þó algengast sé að hlauparar finni fyrir hlaupasting geta aðrir íþróttamenn, svo sem sundmenn, hjólreiðamenn eða þeir sem stunda eróbikk, einnig fengið hlaupasting.
Hlaupastingur er eitt af þeim fyrirbærum sem fræðimenn hafa ekki náð að skilja eða skýra til fullnustu. Flestir virðast þó sammála því að þindin, hvelfdur þunnur vöðvi sem festur er á neðstu rifbeinin og skilur að brjósthol og kviðarhol, leiki þar stórt hlutverk.
Ýmsar tilgátur hafa verið settar fram um hvað veldur hlaupasting. Ein þeirra hefur með öndun að gera en þindin gegnir mikilvægu hlutverki í öndun. Þegar við öndum að okkur þrýstist þindin (ásamt fleiri vöðvum) niður en færist upp aftur þegar við öndum frá okkur. Hlaupastingur finnst venjulega við áreynslu þegar andað er hratt í nokkuð langan tíma og hefur verið bent á að þessi hraða hreyfing þindarinnar (og tengdra vöðva og tengivefs) upp og niður geti á endanum leitt til krampa í þindinni eða á því svæði og það sé verkurinn sem við finnum.
Önnur kenningin snýr að blóðflæði og er á þá leið að við áreynslu, eins og hlaup, verði blóðflæði frá þindinni til vöðva í útlimum og maga og það valdi krampa í þindinni.
Sú kenning sem virðist þó eiga mestu fylgi að fagna er sú að hlaupastingur stafi af þeim rykkjum og skrykkjum sem koma á tengivefinn og þindina við hlaup þegar líffæri eins og magi og lifur ganga upp og niður í takti við hreyfinguna.
Þó ekki sé ljóst hver er nákvæmlega orsök hlaupastingsins hefur verið bent á ýmsar leiðir til þess að minnka líkurnar á að fá hlaupasting og draga úr verknum þegar hann kemur.
Mörgum hefur reynst vel að setja stút á munninn og anda djúpt frá sér. Einnig hefur verið bent á að fylgjast með hvernig taktur hreyfingar og öndunar fer saman en margir hlauparar anda alltaf frá sér þegar stigið er niður í sama fótinn. Það getur verið ráð að reyna að brjóta það munstur upp við og við. Það er að segja, ef við öndum alltaf frá okkur þegar við stígum niður í vinstri fót, þá að reyna að breyta því stundum og anda frá þegar stígið er í hægri fótinn.
Þá getur verið gott að beygja sig fram og spenna kviðvöðvana nokkrum sinnum og líka að nudda eða þrýsta á svæðið þar sem verkurinn er. Vel þjálfaðir kviðvöðvar virðast einnig skipta máli til að koma í veg fyrir hlaupasting.
Einnig ætti að forðast að borða mikið eða drekka rétt fyrir áreynslu því slíkt virðist auka líkurnar á hlaupasting. Loks má benda á að hægja á og draga úr styrkleika æfingarinnar á meðan verkurinn gengur yfir en auka svo hraðann smám saman þegar verkurinn er horfinn.
Oft er ágætt að blanda saman mismunandi aðferðum. Það er einstaklingsbundið hvaða aðferð fólki finnst henta vel til að draga úr hlaupasting og því verður hver og einn að finna út sjálfur hvað virkar best.
Heimildir:
Doktor.is – Hvernig losna ég við hlaupasting eftir Ágústu Johnson
Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hvað er hlaupastingur og hvernig er hægt að losna við hann?“ Vísindavefurinn, 1. júlí 2003, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3544.
Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. (2003, 1. júlí). Hvað er hlaupastingur og hvernig er hægt að losna við hann? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3544
Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hvað er hlaupastingur og hvernig er hægt að losna við hann?“ Vísindavefurinn. 1. júl. 2003. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3544>.