Í svari við spurningunni Er eða hefur verið líf á reikistjörnunni Mars? ræðir Þorsteinn Þorsteinsson mismunandi kenningar um þetta efni sem skotið hafa upp kollinum í gegnum tíðina. Eldri kenningar gerðu greinilega ráð fyrir að lífverur sem hugsanlega gætu búið á Mars væru líkar manninum á ýmsan hátt, til dæmis héldu menn einu sinni að einhver hefði kannski búið til áveitukerfi þar. Hugmyndin um grænar verur með hendur og fætur og kannski loftnet er svipuð þessu. Loftnetin eru raunar það helsta sem skilur milli þeirra og okkar!
Eins og Þorsteinn útskýrir er hins vegar ekkert sem styður kenningar af þessu tagi. Möguleikarnir sem vísindamenn eru nú að skoða eru að ef til vill séu eða hafi verið örverur á Mars, til dæmis ef fljótandi vatn er undir heimskautaísnum, eða að finna megi steingerðar leifar lífvera frá tímum þegar betri aðstæður voru fyrir líf þar.
Hugmyndasagan er full af dæmum um sjálfsmiðjun mannanna, það er að segja tilhneigingu þeirra fyrst í stað til að setja sjálfa sig í miðjuna, líta á sig sem hápunkt sköpunarverksins og svo framvegis. Kópernikus og eftirmenn hans sýndu hins vegar fram á að maðurinn býr engan veginn í miðju alheimsins eins og menn höfðu haldið fram að því. Darwin og aðrir þróunarsinnar hafa sýnt fram á að maðurinn er engan vegin neinn fyrirfram ákveðinn endapunktur þróunarinnar því að hún verkar ekki þannig. Sumir segja að Freud hafi líka raskað fyrri sjálfsmiðjunar- og sjálfsánægjuhugmyndum með því að sýna fram á að maðurinn (meðvitundin) er ekki einu sinni herra í eigin húsi, það er að segja sálarlífinu.
Sú hugmynd nútímamannsins að geimverur hljóti að líkjast mönnum, samanber grænu karlana á Mars og ýmsar kvikmyndir, er eitt nýjasta dæmið um þessa sjálfsmiðjun. Eins og fram hefur komið í mörgum svörum á Vísindavefnum útiloka vísindi nútímans engan veginn að líf sé á öðrum hnöttum. Hins vegar er engin ástæða til að ætla að það líf mundi líkjast manninum eða öðrum þróuðum tegundum lífs hér á jörðinni. Jafnvel þótt við fyndum reikistjörnu þar sem ytri aðstæður væru mjög svipaðar og á jörðinni, þá er samkvæmt þróunarkenningunni engin ástæða til að ætla að þróaðar tegundir yrðu eins og hér.
- Hvernig urðu litlu frumurnar í sjónum að mönnum og dýrum?
- Höfum við beina línu forfeðra frá öpum til nútímamanns eða vantar enn "týnda hlekkinn"?
- Eru til staðfest dæmi þess að geimverur séu til?
- Er eða hefur verið líf á reikistjörnunni Mars?
- Eru geimverur til?
- Er Area 51 til?
- Væri hægt að nota stærðfræði sem tungumál í samskiptum við geimverur?
- Hvar er jörðin?
- Hvers vegna er sagt að ekki sé líf á öðrum hnöttum?
- Hvað er nú vitað um loftsteininn frá Suðurskautslandinu sem talinn var bera merki um líf á Mars?
- Hvers vegna er alltaf sagt að líf geti ekki þrifist á öðrum hnöttum nema þar sé vatn? Gætu ekki verið til lífverur sem geta lifað án vatns og sólar?
- Geta menn ekki sent geimskutlu með nokkrum fjölskyldum til að kanna líf í öðrum sólkerfum?
Myndir: Úr kvikmyndinni Mars Attacks! eftir Tim Burton. Myndirnar eru að sjálfsögðu skáldskapur og styðjast ekki við hugmyndir vísindanna, eins og fram kemur í texta svarsins.