Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Eru til staðfest dæmi þess að geimverur séu til?

Þorsteinn Vilhjálmsson

Svarið er nei. En vísindamenn gera eftir sem áður fyllilega ráð fyrir því að líf sé að finna utan jarðar. Galdurinn er bara að finna lífverurnar og sannfærast um tilvist þeirra.

Af þeim stöðum sem við höfum þekkt til skamms tíma eru aðstæður á reikistjörnunni Mars einna líkastar þeim sem ríkja hér á jörðinni. Það er því ekki að furða að menn hafa löngum viljað leita að lífi á Mars og hafa hugmyndir manna um það verið með ýmsu móti í tímans rás. En skemmst er frá því að segja að nú á dögum telja flestir vísindamenn ekki útilokað að frumstætt líf sé eða hafi einhvern tímann verið á Mars, en það sem við köllum vitsmunalíf hefur ekki verið þar.

Á síðustu árum hafa geimför í sólkerfinu fært okkur upplýsingar um tiltölulega lífvænlegar aðstæður á tveimur af tunglum Júpíters, Evrópu og Kallistó. Þar er til dæmis vatn að finna, að vísu frosið, en undir því gæti verið fljótandi vatn. Margir vísindamenn eiga erfitt með að hugsa sér líf án vatns, samanber svar Guðmundar Eggertssonar við spurningunni Hvers vegna er alltaf sagt að líf geti ekki þrifist á öðrum hnöttum nema þar sé vatn? Gætu ekki verið til lífverur sem geta lifað án vatns og sólar? Þess vegna hafa aðstæður á þessum tveimur tunglum einmitt vakið sérstaka athygli.

Áhugi manna á lífi utan sólkerfisins hefur magnast mjög að undanförnu vegna þess að menn hafa farið að sjá merki um reikistjörnur við sólstjörnur í nágrenni sólkerfisins í Vetrarbrautinni. Slíkar reikistjörnur eru að sjálfsögðu forsenda lífs. Kringum sólstjörnur eins og sólina okkar er oft svæði sem hefur verið kallað lífhvolf stjörnunnar. Þetta er nánar tiltekið svæði milli tveggja kúluskelja með miðju í sólstjörnunni, með öðrum orðum með svipaða lögun og börkur á appelsínu. Á þessu svæði er geislun frá sólstjörnunni hæfilega sterk til þess að hiti við yfirborð á reikistjörnu verið hæfilegur, miðað við lofthjúp hennar og aðrar aðstæður. Jörðin er þannig einmitt í lífhvolfi sólarinnar.

Það er hins vegar ekki fullnægjandi skilyrði fyrir vitsmunalífi á tiltekinni reikistjörnu að hún sé í lífhvolfi sólstjörnunnar. Því til viðbótar þurfa til dæmis réttu efnin að vera fyrir hendi, líf þarf að hafa kviknað og síðan þróast nægilega, það má ekki hafa tortímst aftur af eigin völdum eða af öðrum ástæðum, og svo framvegis.

Þar á ofan kann að vera þrautin þyngri fyrir okkur jarðarbúa að finna merki um líf í öðrum sólkerfum. Sú staða gæti til dæmis vel komið upp í framtíðinni að menn teldu sig hafa fundið óyggjandi rök fyrir því að líf hljóti að vera til þarna úti en þeir geti samt ekki fundið tiltekin staðfest og sannfærandi dæmi um það.

Til að skilja þetta betur skiptir miklu að gera sér annars vegar grein fyrir þeim gríðarlegu fjarlægðum sem eru milli sólkerfa í geimnum og hins vegar fyrir því að hraða í boðskiptum eru takmörk sett, að ekki sé talað um hraða í eiginlegum ferðalögum. Engin skilaboð geta farið hraðar en ljósið. Næsta sólstjarna, Proxima í Mannfáknum, er 4,3 ljósár í burtu frá okkur sem merkir að ljósið er 4,3 ár að komast þangað frá okkur eða að fara hina leiðina. Boð sem við sendum til manna eða annarra lífvera sem þar væru staddar yrðu því að minnsta kosti 4,3 ár á leiðinni. Ef þeim væri svarað um hæl yrði svarið jafnlengi á leiðinni til okkar. Þetta getur því ekki orðið neitt venjulegt símtal!

Þetta verður enn óárennilegra þegar við leiðum hugann að því að ferðast til annarra sólstjarna. Hraði jarðarinnar á ferð hennar um sól er um 30 kílómetrar á sekúndu (km/s), sem er um einn tíuþúsundasti af ljóshraðanum. Geimskutlur nútímans fara með hraða sem er innan við 10 km/s miðað við jörð. Með því að nýta hraða jarðarinnar má gefa þeim hraða sem nemur nokkrum tugum km/s miðað við sól. Hraðinn er samt sem áður í stærðarþrepinu einn tíuþúsundasti af ljóshraða sem mundi þýða að það tæki tugþúsundir ára að komast til næstu sólstjarna.

Þessu er enn betur lýst í svari Árdísar Elíasdóttur við spurningunni Geta menn ekki sent geimskutlu með nokkrum fjölskyldum til að kanna líf í öðrum sólkerfum? Árdís hugsar sér að vísu um tíu eða hundrað sinnum meiri hraða en hér var lýst og kann vel að vera að mannaðar ferðir af þessum toga verði hreinlega að bíða þar til tæknin leyfir mönnum að ná slíkum hraða. Einnig er fjallað um hraða geimskipa í svari Ágústs Valfells við spurningunni Hvaða hraða má búast við að raunverulegt geimfar geti náð ef nægileg orka er fyrir hendi, til dæmis í kjarnaklofnun eða kjarnasamruna?

Hins vegar er ekki að vita hvað menn geti gert með vélmennum í geimförum í framtíðinni, en á því sviði eru nú miklar framfarir eins og gestir Vísindavefsins geta séð í svari Ara K. Jónssonar við spurningunni Hvað er gervigreind?

Allt ber þetta að þeim brunni sem lýst er í upphafi svarsins. Við getum vel hugsað okkur að vistmunalíf sé einhvers staðar í óravíddum geimsins, en það getur orðið þrautin þyngri að finna það!

Heimildir og lesefni:

Tarter, Jill C., og Christopher F. Chyba, "Is There Life Elsewhere in the Universe?", Scientific American, 281, desember 1999, 80-85.

Fleiri greinar í sama tímariti á síðustu árum.

Vefsetur:

Bandaríska stofnunin til leitar að vitsmunalífi utan jarðar, SETI.

Höfundur

Þorsteinn Vilhjálmsson

prófessor emeritus, ritstjóri Vísindavefsins 2000-2010 og ritstjóri Evrópuvefsins 2011

Útgáfudagur

13.4.2000

Spyrjandi

Hjalti Jón Sverrisson

Tilvísun

Þorsteinn Vilhjálmsson. „Eru til staðfest dæmi þess að geimverur séu til?“ Vísindavefurinn, 13. apríl 2000, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=336.

Þorsteinn Vilhjálmsson. (2000, 13. apríl). Eru til staðfest dæmi þess að geimverur séu til? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=336

Þorsteinn Vilhjálmsson. „Eru til staðfest dæmi þess að geimverur séu til?“ Vísindavefurinn. 13. apr. 2000. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=336>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Eru til staðfest dæmi þess að geimverur séu til?
Svarið er nei. En vísindamenn gera eftir sem áður fyllilega ráð fyrir því að líf sé að finna utan jarðar. Galdurinn er bara að finna lífverurnar og sannfærast um tilvist þeirra.

Af þeim stöðum sem við höfum þekkt til skamms tíma eru aðstæður á reikistjörnunni Mars einna líkastar þeim sem ríkja hér á jörðinni. Það er því ekki að furða að menn hafa löngum viljað leita að lífi á Mars og hafa hugmyndir manna um það verið með ýmsu móti í tímans rás. En skemmst er frá því að segja að nú á dögum telja flestir vísindamenn ekki útilokað að frumstætt líf sé eða hafi einhvern tímann verið á Mars, en það sem við köllum vitsmunalíf hefur ekki verið þar.

Á síðustu árum hafa geimför í sólkerfinu fært okkur upplýsingar um tiltölulega lífvænlegar aðstæður á tveimur af tunglum Júpíters, Evrópu og Kallistó. Þar er til dæmis vatn að finna, að vísu frosið, en undir því gæti verið fljótandi vatn. Margir vísindamenn eiga erfitt með að hugsa sér líf án vatns, samanber svar Guðmundar Eggertssonar við spurningunni Hvers vegna er alltaf sagt að líf geti ekki þrifist á öðrum hnöttum nema þar sé vatn? Gætu ekki verið til lífverur sem geta lifað án vatns og sólar? Þess vegna hafa aðstæður á þessum tveimur tunglum einmitt vakið sérstaka athygli.

Áhugi manna á lífi utan sólkerfisins hefur magnast mjög að undanförnu vegna þess að menn hafa farið að sjá merki um reikistjörnur við sólstjörnur í nágrenni sólkerfisins í Vetrarbrautinni. Slíkar reikistjörnur eru að sjálfsögðu forsenda lífs. Kringum sólstjörnur eins og sólina okkar er oft svæði sem hefur verið kallað lífhvolf stjörnunnar. Þetta er nánar tiltekið svæði milli tveggja kúluskelja með miðju í sólstjörnunni, með öðrum orðum með svipaða lögun og börkur á appelsínu. Á þessu svæði er geislun frá sólstjörnunni hæfilega sterk til þess að hiti við yfirborð á reikistjörnu verið hæfilegur, miðað við lofthjúp hennar og aðrar aðstæður. Jörðin er þannig einmitt í lífhvolfi sólarinnar.

Það er hins vegar ekki fullnægjandi skilyrði fyrir vitsmunalífi á tiltekinni reikistjörnu að hún sé í lífhvolfi sólstjörnunnar. Því til viðbótar þurfa til dæmis réttu efnin að vera fyrir hendi, líf þarf að hafa kviknað og síðan þróast nægilega, það má ekki hafa tortímst aftur af eigin völdum eða af öðrum ástæðum, og svo framvegis.

Þar á ofan kann að vera þrautin þyngri fyrir okkur jarðarbúa að finna merki um líf í öðrum sólkerfum. Sú staða gæti til dæmis vel komið upp í framtíðinni að menn teldu sig hafa fundið óyggjandi rök fyrir því að líf hljóti að vera til þarna úti en þeir geti samt ekki fundið tiltekin staðfest og sannfærandi dæmi um það.

Til að skilja þetta betur skiptir miklu að gera sér annars vegar grein fyrir þeim gríðarlegu fjarlægðum sem eru milli sólkerfa í geimnum og hins vegar fyrir því að hraða í boðskiptum eru takmörk sett, að ekki sé talað um hraða í eiginlegum ferðalögum. Engin skilaboð geta farið hraðar en ljósið. Næsta sólstjarna, Proxima í Mannfáknum, er 4,3 ljósár í burtu frá okkur sem merkir að ljósið er 4,3 ár að komast þangað frá okkur eða að fara hina leiðina. Boð sem við sendum til manna eða annarra lífvera sem þar væru staddar yrðu því að minnsta kosti 4,3 ár á leiðinni. Ef þeim væri svarað um hæl yrði svarið jafnlengi á leiðinni til okkar. Þetta getur því ekki orðið neitt venjulegt símtal!

Þetta verður enn óárennilegra þegar við leiðum hugann að því að ferðast til annarra sólstjarna. Hraði jarðarinnar á ferð hennar um sól er um 30 kílómetrar á sekúndu (km/s), sem er um einn tíuþúsundasti af ljóshraðanum. Geimskutlur nútímans fara með hraða sem er innan við 10 km/s miðað við jörð. Með því að nýta hraða jarðarinnar má gefa þeim hraða sem nemur nokkrum tugum km/s miðað við sól. Hraðinn er samt sem áður í stærðarþrepinu einn tíuþúsundasti af ljóshraða sem mundi þýða að það tæki tugþúsundir ára að komast til næstu sólstjarna.

Þessu er enn betur lýst í svari Árdísar Elíasdóttur við spurningunni Geta menn ekki sent geimskutlu með nokkrum fjölskyldum til að kanna líf í öðrum sólkerfum? Árdís hugsar sér að vísu um tíu eða hundrað sinnum meiri hraða en hér var lýst og kann vel að vera að mannaðar ferðir af þessum toga verði hreinlega að bíða þar til tæknin leyfir mönnum að ná slíkum hraða. Einnig er fjallað um hraða geimskipa í svari Ágústs Valfells við spurningunni Hvaða hraða má búast við að raunverulegt geimfar geti náð ef nægileg orka er fyrir hendi, til dæmis í kjarnaklofnun eða kjarnasamruna?

Hins vegar er ekki að vita hvað menn geti gert með vélmennum í geimförum í framtíðinni, en á því sviði eru nú miklar framfarir eins og gestir Vísindavefsins geta séð í svari Ara K. Jónssonar við spurningunni Hvað er gervigreind?

Allt ber þetta að þeim brunni sem lýst er í upphafi svarsins. Við getum vel hugsað okkur að vistmunalíf sé einhvers staðar í óravíddum geimsins, en það getur orðið þrautin þyngri að finna það!

Heimildir og lesefni:

Tarter, Jill C., og Christopher F. Chyba, "Is There Life Elsewhere in the Universe?", Scientific American, 281, desember 1999, 80-85.

Fleiri greinar í sama tímariti á síðustu árum.

Vefsetur:

Bandaríska stofnunin til leitar að vitsmunalífi utan jarðar, SETI....