Á fimmta hundrað prentaðra bóka bjargaðist en mörg þúsund urðu eldinum að bráð. Handritin höfðu verið látin ganga fyrir, sem von var. Árna var mjög brugðið og í bréfum til Íslands næsta vor gerði hann meira úr glötuninni en efni stóðu til. Skaðinn var engu að síður mikill. Talið er að einungis tólf skinnhandrit hafi brunnið, mest Maríu sögur og Karlamagnúsar sögur, en ókunnur fjöldi handritsbrota. Hjá Árna voru líka fáein íslensk skinnhandrit úr Háskólabókasafninu, sem hann hafði að láni og björguðust fyrir vikið. Aftur á móti brunnu allmörg pappírshandrit frá 17. öld og eftirrit handrita og bréfa sem Árni hafði látið gera áratugina á undan. Fornar bréfabækur embættismanna, alþingisbækur, annálar og kvæðabækur týndust, sem og Sæmundar Eddur „geysimargar“ eins og Árni orðaði það sjálfur. Einnig má nefna jarðabók hans og Páls Vídalíns yfir Austurland. Síðast en ekki síst glötuðust minnisgreinar hans um ýmis efni, meðal annars lærða íslenska menn, sem hann hafði safnað fróðleik um nánast alla ævina. Fyrst um sinn voru handritin í geymslu hjá vini Árna, Hans Becker kaupmanni. Síðar fékk Árni eigið húsnæði, mun þrengra en hann hafði haft áður, og svo virðist sem hann hafi aldrei haft geð í sér til að kanna nákvæmlega hvað bjargaðist og hvað glataðist. Hann lést rúmu ári eftir brunann, aðfaranótt 7. janúar 1730, 66 ára að aldri.
Árni Magnússon vann ótrúlegt þrekvirki með því að safna saman og varðveita ótal íslensk handrit sem annars hefðu glatast. Hér sést hann á gamla íslenska 100 króna seðlinum.
- Er einhver sérstök fræðigrein sem fæst við rannsóknir á handritum? eftir Má Jónsson.
- Hefur einhverjum dottið í hug að skoða erfðaefni í íslenskum skinnhandritum til að finna út hvaðan skinnin komu? eftir Má Jónsson og Guðmund Eggertsson.
- Hvað eru bönd í handritum? eftir Guðvarð Má Gunnlaugsson.
- Hve mörg handrit Eglu eru í gagnagrunni Sagnanets? eftir Þorstein Hallgrímsson.
- Hvenær komu handritin aftur til Íslands og var það sjálfsagt mál að fá þau hingað? eftir Má Jónsson.
- Hver var Árni Magnússon og fyrir hvað er hann þekktastur? eftir Má Jónsson.
- Hvað eru þjóðsögur og hverjir urðu fyrstir til að safna þeim hér á landi? eftir Gísla Sigurðsson.
- Hverjir áttu mestan þátt í söfnun þjóðsagna á Íslandi? eftir Gísla Sigurðsson.
- Jón Ólafsson úr Grunnavík, Relatio af Kaupinhafnarbrunanum sem skeði í október 1728. Dagbók 1725-1731 og fleiri skrif. Útgefandi Sigurgeir Steingrímsson. Reykjavík 2005.
- Maurer, Konrad, Íslandsferð 1858. Þýðandi Baldur Hafstað. Reykjavík 1997, bls. 171.
- Már Jónsson, Árni Magnússon. Ævisaga. Reykjavík 1998, bls. 329-334.
- Þórhallur Vilmundarson, „Bruninn mikli í Kaupmannahöfn 1728.“ Söguslóðir. Afmælisrit helgað Ólafi Hanssyni sjötugum. Reykjavík 1979, bls. 389-415.
- Fyrri myndin er af síðunni Aðföng Leikminjasafns Íslands. Leikminjasafn Íslands. Sótt 2.5.2006.
- Seinni myndin er af síðunni Image:Isl Krone.JPG. Wikipedia, frjálsa alfræðiorðabókin. Sótt 2.5.2006.