Sólin Sólin Rís 10:20 • sest 16:07 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:27 • Sest 15:40 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:11 • Síðdegis: 23:50 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:43 • Síðdegis: 17:39 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:20 • sest 16:07 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:27 • Sest 15:40 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:11 • Síðdegis: 23:50 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:43 • Síðdegis: 17:39 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hverjir áttu mestan þátt í söfnun þjóðsagna á Íslandi?

Gísli Sigurðsson

Árnastofnun - mynd í *Árnarstofnun
Líta má á þetta svar sem framhald af svari sama höfundar við spurningunni Hvað eru þjóðsögur og hverjir söfnuðu þeim fyrst hér á landi? Gagnlegt gæti verið fyrir lesendur að kynna sér það áður en lengra er haldið.

Söfnun þjóðfræða á 19. öld
Með rómantík 19. aldar verður skráning þjóðlegs fróðleiks úr munnlegri geymd miklu skipulegri og umfangsmeiri en áður. Fyrsta prentaða safnið kom út 1852 þegar Magnús Grímsson (1825-1860) og Jón Árnason (1819-1888) sendu frá sér Íslenzk æfintýri. Sumarið 1858 ferðaðist þýski fræðimaðurinn Konrad Maurer (1823-1902) um Ísland og safnaði af vörum fólks þjóðfræðaefni sem hann gaf út sjálfur í Isländische Volkssagen 1860 og varð Jóni Árnasyni fyrirmynd um efnisskipan. Maurer hvatti Magnús og Jón til að halda starfi sínu áfram og lofaði að finna útgefanda í Þýskalandi ef þeir skiluðu fullbúnu handriti.

Magnús Grímsson (1825-1860).

Magnús féll frá 1860 og það kom í hlut Jóns að ganga frá safni þeirra. Starf hans fólst þó ekki í að skrá beint af vörum fólks heldur miklu fremur í að velja úr ritum annarra eða fá landa sína til að skrifa upp þjóðlegan fróðleik og senda sér. Að því leyti safnaði Jón ekki þjóðsögum beint eins og þjóðsagnasafnarar nú á dögum heldur var hann miklu fremur í hlutverki ritstjóra.

Af þeim sagnariturum sem lögðu Jóni til hvað mest og best efni nefnir Guðbrandur Vigfússon (1827-1889, 2. mynd) þessa sérstaklega í formálanum sem hann ritaði fyrir safninu: séra Skúla Gíslason á Breiðabólstað, Jón Sigurðsson alþingismann á Gautlöndum, séra Sveinbjörn Guðmundsson, Runólf bónda Jónsson í Vík, séra Eirík Kúld á Helgafelli, Gísla Konráðsson sagnaritara, Þorvarð bónda Ólafsson á Kalastöðum sem hafði nokkrar sögur frá Páli sýslumanni Melsteð, og Sigurð málara Guðmundsson.

Guðbrandur nafngreinir enga konu í formálanum en segir þó:
Í safni þessu eru nokkrar sögur, og margar ágætar, sagðar eptir kvennmönnum, en hinar eru þó miklu fleiri sem þangað eiga kyn sitt að rekja, sem karlmenn muna eptir því sem mæðr þeirra eðr annað kvennfólk hefir sagt þeim í barnæsku. (32)

Íslenskir menntamenn í Kaupmannahöfn skynjuðu fljótt þá hugmyndastrauma sem báru þá að söfnun þjóðfræða á 19. öld. Fornfræðanefndin í Höfn bað fólk um slíkt efni árið 1817, Bókmenntafélagið gat þess 1839 í spurningalista fyrir sóknalýsingar sem það sendi til presta um allt land og Norræna fornfræðafélagið spurði um þjóðlegan fróðleik 1846. En þessum fyrirspurnum og áskorunum var lítið sinnt og Guðbrandur Vigfússon túlkaði áhugaleysið sem tortryggni:
Fyrst ætti að ginna úr mönnum hjátrú og bábiljur og gjöra svo háð að öllu á eptir, eða brenna það, eins og Árni Magnússon hefði gjört á sinni tíð, eptir að hann hefði ruplað sögum og handritum út úr landinu og flutt til Danmerkr. (28)

Guðbrandur Vigfússon (1827-1889).

Á fyrri hluta 19. aldar vitum við um tvö tilhlaup til skipulegrar söfnunar og skráningar þjóðfræða. Um 1822 ritar séra Friðrik Eggerz (1802-1894) skrá um skröksögur sem menn ætla að hann hafi hugsað sér að skrifa upp síðar. Um svipað leyti hvatti Lárus Sigurðsson (1808-1832) Ólaf Sveinsson í Purkey til að setja á blað sögur um álfa. Ólafur lauk riti sínu um 1830 og ber það með sér að hann trúi einlæglega á tilveru álfa og huldufólks og vilji sannfæra lesendur um réttmæti trúar sinnar. Álfarit Ólafs nýttist Jóni Árnasyni mjög víða og var prentað sérstaklega í heildarútgáfunni á safni hans.

Í bréfum frá séra Páli Jónssyni (1812-1889) á Myrká sem hann skrifaði Jóni Árnasyni á síðustu æviárum sínum kemur fram að hann hafi safnað „mestu firnum af allrahanda“ áður en hann lagðist „löngu leguna á Myrká“ en brennt það allt til að það lýtti sig ekki látinn að hafa safnað slíkum „hégilju- og hjátrúarsögum og þulum“ því að þá „voru engum farnar að detta í hug neinar þjóðsögur.“ Ekki er vitað hvenær þetta var en af bréfi Páls frá 1859 er ljóst að þetta var áður en hann frétti af starfi Jóns og Magnúsar Grímssonar.

Þjóðsögur Jóns Árnasonar

Stórvirki Jóns Árnasonar, Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri, kom út í tveimur bindum á árunum 1862-64 og hlaut mikla útbreiðslu. Til dæmis lét Jón Sigurðsson forseti Bókmenntafélagið strax kaupa 800 eintök af útgáfunni og dreifa ókeypis til félagsmanna. Sögurnar urðu mönnum innblástur í sjálfstæðisbaráttunni og áttu mikinn þátt í þeim uppgangi sem varð í öllu því sem okkur er tamast að hugsa um sem þjóðlegt.

Um þetta leyti voru Sigurður Guðmundsson og Jón Árnason að vekja athygli á nauðsyn forngripasafns sem var svo stofnað 1863; Útilegumenn Matthíasar Jochumssonar voru sýndir í ársbyrjun 1862; Þorrablót var fyrst haldið utan heimilis í Reykjavík 1867; um 1870 var komið í tísku meðal kvenna að eignast íslenskan búning gerðan eftir tillögum Sigurðar Guðmundssonar; Nýársnótt Indriða Einarssonar, dóttursonar Gísla Konráðssonar sagnaritara, var frumsýnd í árslok 1871 og vakti svo mikla hrifningu að fólk í Reykjavík fór í fyrsta sinn í blysför á gamlárskvöld og söng „Máninn hátt á himni skín“ sem Jón Ólafsson hafði samið í tilefni dagsins.

Á þessum árum koma því fram bókmenntaverk, ásamt nýjum siðum og venjum sem hafa æ síðan verið kjölfestan í þjóðarvitund Íslendinga. Á þjóðlegum hátíðarstundum drögum við fram leikrit þeirra Indriða og Matthíasar, konur fara í íslenskan búning á minjasöfnum, þorrablót eru haldin í hverjum hreppi og alls staðar eru álfabrennur að „gömlum og góðum þjóðlegum sið.“

Jón Árnason safnaði að sér fleiri þjóðsögum og ævintýrum en komust í tveggja binda útgáfuna frá Leipzig, og kom heildarsafn þeirra út í sex bindum í Reykjavík 1954-1961.

Konrad Maurer (1823-1902).

Eftirmenn Jóns Árnasonar

Ólafur Davíðsson (1862-1903) jók við þjóðlegan fróðleik úr safni Jóns og gaf út í Íslenzkum gátum, skemtunum, vikivökum og þulum 1887-1903. Sjálfur safnaði Ólafur alþýðlegum fræðum í félagi við aðra og átti þátt í útgáfunni á Huld 1890-1898. Úrval úr safni hans sjálfs kom út í litlu kveri 1895, aukið í tvö þykk bindi 1935 og 1939, og enn í þrjú bindi 1945.

Fyrsta stóra þjóðsagnasafn sem einn safnari skráði beint eftir heimildarmönnum er safn Sigfúsar Sigfússonar (1855-1935). Hann safnaði á Austurlandi og umskrifaði allt efnið fyrir útgáfu sem birtist í 16 bindum 1922-1958. Safn Sigfúsar hefur nú verið endurútgefið eftir eldri uppskriftum hans, sem ætla má að standi frásögn heimildarmanna nær.

Af öðrum helstu þjóðfræðasöfnum má nefna Íslenzk þjóðlög Bjarna Þorsteinssonar (1861-1938), sem hann safnaði 1880-1905 og gaf út í Kaupmannahöfn 1906-1909, og verk Jónasar Jónassonar (1856-1918) frá Hrafnagili, Íslenzkir þjóðhættir, sem kom út 1934. Þjóðsagnaútgáfan kennd við Jón Árnason hefur þó alla tíð verið langáhrifamest á sínu sviði og borið höfuð og herðar yfir önnur þjóðfræðasöfn.

(Þetta svar er klippt og skorið úr kafla höfundar um þjóðsögur í 3. bindi Íslenskrar bókmenntasögu.)

Myndir:

Höfundur

rannsóknarprófessor á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Útgáfudagur

16.9.2003

Síðast uppfært

7.7.2022

Spyrjandi

Sigurbjörg Jónsdóttir

Tilvísun

Gísli Sigurðsson. „Hverjir áttu mestan þátt í söfnun þjóðsagna á Íslandi?“ Vísindavefurinn, 16. september 2003, sótt 22. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3735.

Gísli Sigurðsson. (2003, 16. september). Hverjir áttu mestan þátt í söfnun þjóðsagna á Íslandi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3735

Gísli Sigurðsson. „Hverjir áttu mestan þátt í söfnun þjóðsagna á Íslandi?“ Vísindavefurinn. 16. sep. 2003. Vefsíða. 22. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3735>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hverjir áttu mestan þátt í söfnun þjóðsagna á Íslandi?

Líta má á þetta svar sem framhald af svari sama höfundar við spurningunni Hvað eru þjóðsögur og hverjir söfnuðu þeim fyrst hér á landi? Gagnlegt gæti verið fyrir lesendur að kynna sér það áður en lengra er haldið.

Söfnun þjóðfræða á 19. öld
Með rómantík 19. aldar verður skráning þjóðlegs fróðleiks úr munnlegri geymd miklu skipulegri og umfangsmeiri en áður. Fyrsta prentaða safnið kom út 1852 þegar Magnús Grímsson (1825-1860) og Jón Árnason (1819-1888) sendu frá sér Íslenzk æfintýri. Sumarið 1858 ferðaðist þýski fræðimaðurinn Konrad Maurer (1823-1902) um Ísland og safnaði af vörum fólks þjóðfræðaefni sem hann gaf út sjálfur í Isländische Volkssagen 1860 og varð Jóni Árnasyni fyrirmynd um efnisskipan. Maurer hvatti Magnús og Jón til að halda starfi sínu áfram og lofaði að finna útgefanda í Þýskalandi ef þeir skiluðu fullbúnu handriti.

Magnús Grímsson (1825-1860).

Magnús féll frá 1860 og það kom í hlut Jóns að ganga frá safni þeirra. Starf hans fólst þó ekki í að skrá beint af vörum fólks heldur miklu fremur í að velja úr ritum annarra eða fá landa sína til að skrifa upp þjóðlegan fróðleik og senda sér. Að því leyti safnaði Jón ekki þjóðsögum beint eins og þjóðsagnasafnarar nú á dögum heldur var hann miklu fremur í hlutverki ritstjóra.

Af þeim sagnariturum sem lögðu Jóni til hvað mest og best efni nefnir Guðbrandur Vigfússon (1827-1889, 2. mynd) þessa sérstaklega í formálanum sem hann ritaði fyrir safninu: séra Skúla Gíslason á Breiðabólstað, Jón Sigurðsson alþingismann á Gautlöndum, séra Sveinbjörn Guðmundsson, Runólf bónda Jónsson í Vík, séra Eirík Kúld á Helgafelli, Gísla Konráðsson sagnaritara, Þorvarð bónda Ólafsson á Kalastöðum sem hafði nokkrar sögur frá Páli sýslumanni Melsteð, og Sigurð málara Guðmundsson.

Guðbrandur nafngreinir enga konu í formálanum en segir þó:
Í safni þessu eru nokkrar sögur, og margar ágætar, sagðar eptir kvennmönnum, en hinar eru þó miklu fleiri sem þangað eiga kyn sitt að rekja, sem karlmenn muna eptir því sem mæðr þeirra eðr annað kvennfólk hefir sagt þeim í barnæsku. (32)

Íslenskir menntamenn í Kaupmannahöfn skynjuðu fljótt þá hugmyndastrauma sem báru þá að söfnun þjóðfræða á 19. öld. Fornfræðanefndin í Höfn bað fólk um slíkt efni árið 1817, Bókmenntafélagið gat þess 1839 í spurningalista fyrir sóknalýsingar sem það sendi til presta um allt land og Norræna fornfræðafélagið spurði um þjóðlegan fróðleik 1846. En þessum fyrirspurnum og áskorunum var lítið sinnt og Guðbrandur Vigfússon túlkaði áhugaleysið sem tortryggni:
Fyrst ætti að ginna úr mönnum hjátrú og bábiljur og gjöra svo háð að öllu á eptir, eða brenna það, eins og Árni Magnússon hefði gjört á sinni tíð, eptir að hann hefði ruplað sögum og handritum út úr landinu og flutt til Danmerkr. (28)

Guðbrandur Vigfússon (1827-1889).

Á fyrri hluta 19. aldar vitum við um tvö tilhlaup til skipulegrar söfnunar og skráningar þjóðfræða. Um 1822 ritar séra Friðrik Eggerz (1802-1894) skrá um skröksögur sem menn ætla að hann hafi hugsað sér að skrifa upp síðar. Um svipað leyti hvatti Lárus Sigurðsson (1808-1832) Ólaf Sveinsson í Purkey til að setja á blað sögur um álfa. Ólafur lauk riti sínu um 1830 og ber það með sér að hann trúi einlæglega á tilveru álfa og huldufólks og vilji sannfæra lesendur um réttmæti trúar sinnar. Álfarit Ólafs nýttist Jóni Árnasyni mjög víða og var prentað sérstaklega í heildarútgáfunni á safni hans.

Í bréfum frá séra Páli Jónssyni (1812-1889) á Myrká sem hann skrifaði Jóni Árnasyni á síðustu æviárum sínum kemur fram að hann hafi safnað „mestu firnum af allrahanda“ áður en hann lagðist „löngu leguna á Myrká“ en brennt það allt til að það lýtti sig ekki látinn að hafa safnað slíkum „hégilju- og hjátrúarsögum og þulum“ því að þá „voru engum farnar að detta í hug neinar þjóðsögur.“ Ekki er vitað hvenær þetta var en af bréfi Páls frá 1859 er ljóst að þetta var áður en hann frétti af starfi Jóns og Magnúsar Grímssonar.

Þjóðsögur Jóns Árnasonar

Stórvirki Jóns Árnasonar, Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri, kom út í tveimur bindum á árunum 1862-64 og hlaut mikla útbreiðslu. Til dæmis lét Jón Sigurðsson forseti Bókmenntafélagið strax kaupa 800 eintök af útgáfunni og dreifa ókeypis til félagsmanna. Sögurnar urðu mönnum innblástur í sjálfstæðisbaráttunni og áttu mikinn þátt í þeim uppgangi sem varð í öllu því sem okkur er tamast að hugsa um sem þjóðlegt.

Um þetta leyti voru Sigurður Guðmundsson og Jón Árnason að vekja athygli á nauðsyn forngripasafns sem var svo stofnað 1863; Útilegumenn Matthíasar Jochumssonar voru sýndir í ársbyrjun 1862; Þorrablót var fyrst haldið utan heimilis í Reykjavík 1867; um 1870 var komið í tísku meðal kvenna að eignast íslenskan búning gerðan eftir tillögum Sigurðar Guðmundssonar; Nýársnótt Indriða Einarssonar, dóttursonar Gísla Konráðssonar sagnaritara, var frumsýnd í árslok 1871 og vakti svo mikla hrifningu að fólk í Reykjavík fór í fyrsta sinn í blysför á gamlárskvöld og söng „Máninn hátt á himni skín“ sem Jón Ólafsson hafði samið í tilefni dagsins.

Á þessum árum koma því fram bókmenntaverk, ásamt nýjum siðum og venjum sem hafa æ síðan verið kjölfestan í þjóðarvitund Íslendinga. Á þjóðlegum hátíðarstundum drögum við fram leikrit þeirra Indriða og Matthíasar, konur fara í íslenskan búning á minjasöfnum, þorrablót eru haldin í hverjum hreppi og alls staðar eru álfabrennur að „gömlum og góðum þjóðlegum sið.“

Jón Árnason safnaði að sér fleiri þjóðsögum og ævintýrum en komust í tveggja binda útgáfuna frá Leipzig, og kom heildarsafn þeirra út í sex bindum í Reykjavík 1954-1961.

Konrad Maurer (1823-1902).

Eftirmenn Jóns Árnasonar

Ólafur Davíðsson (1862-1903) jók við þjóðlegan fróðleik úr safni Jóns og gaf út í Íslenzkum gátum, skemtunum, vikivökum og þulum 1887-1903. Sjálfur safnaði Ólafur alþýðlegum fræðum í félagi við aðra og átti þátt í útgáfunni á Huld 1890-1898. Úrval úr safni hans sjálfs kom út í litlu kveri 1895, aukið í tvö þykk bindi 1935 og 1939, og enn í þrjú bindi 1945.

Fyrsta stóra þjóðsagnasafn sem einn safnari skráði beint eftir heimildarmönnum er safn Sigfúsar Sigfússonar (1855-1935). Hann safnaði á Austurlandi og umskrifaði allt efnið fyrir útgáfu sem birtist í 16 bindum 1922-1958. Safn Sigfúsar hefur nú verið endurútgefið eftir eldri uppskriftum hans, sem ætla má að standi frásögn heimildarmanna nær.

Af öðrum helstu þjóðfræðasöfnum má nefna Íslenzk þjóðlög Bjarna Þorsteinssonar (1861-1938), sem hann safnaði 1880-1905 og gaf út í Kaupmannahöfn 1906-1909, og verk Jónasar Jónassonar (1856-1918) frá Hrafnagili, Íslenzkir þjóðhættir, sem kom út 1934. Þjóðsagnaútgáfan kennd við Jón Árnason hefur þó alla tíð verið langáhrifamest á sínu sviði og borið höfuð og herðar yfir önnur þjóðfræðasöfn.

(Þetta svar er klippt og skorið úr kafla höfundar um þjóðsögur í 3. bindi Íslenskrar bókmenntasögu.)

Myndir:...