Meginmarkmið og sérkenni Sagnanetsins er að það veitir aðgang að heildstæðu safnefni úr öllum handritum, það er þeim skinn- og pappírshandritum er geyma þetta efni og þessi söfn varðveita, auk prentaðra útgáfna og lærdómsrita um efnið, sem gefin eru út fyrir 1901. Í gagnagrunni Sagnanetsins eru nú stafrænar myndir af rúmlega 1000 handritum og 452 bókum. Samtals eru það um 390 þús. blaðsíður. Verkin hafa öll verið nákvæmlega skráð, og gert hefur verið mjög gott notendaviðmót sem býður upp á fjölhæft leitarforrit og allt sem til þarf til að vinna með efnið um Vefinn.
Sagnanetið er einnig tilraunaverkefni í þeim skilningi að meðal markmiða þess er að mynda sýndarsafn sem fræðimenn hafa aðgang að um Netið, gera könnun meðal notenda Vefsins á kostum og göllum við að vinna eingöngu um Netið með þetta efni og gera könnun á kostnaði og ávinningi fyrir annars vegar þau bókasöfn sem standa að verkefninu og leggja til efnið, og hins vegar fyrir notendur þjónustunnar. Þegar fram líða stundir verður unnt að bæta við Sagnanetið efni sem er í öðrum bókasöfnum eða með því að tengja það við samskonar stafræn söfn. Ennfremur verður unnt að bæta við það nýjum verkum. Þetta er metnaðarfullt verkefni, og óhætt er að fullyrða að það er viðamesta verkefni á sviði stafrænnar endurgerðar safnefnis sem ráðist hefur verið í hérlendis og þótt víðar væri leitað. Textabrotin eru fengin af Sagnanetinu. Enski textinn er upphaf Egils sögu í þýðingu W. C. Green sem út kom í London 1893.