Ekki er vitað til þess að erfðaefni hafi nokkurs staðar verið einangrað úr bókfelli. Raunar er fremur ósennilegt að heillegt DNA sé eftir í gömlu skinni. Hins vegar kann að leynast á því DNA-mengun af höndum þeirra sem handleikið hafa handritin á liðnum árum! Það er hvort tveggja að DNA endist illa og enn frekar hitt að ofangreind verkun á húðum hlýtur að hafa stuðlað að eyðileggingu viðkvæmra frumuhluta og sameinda á borð við DNA. Það sem eftir stendur er væntanlega flækja eðlissviptra húðprótína. Þó má velta því fyrir sér hvort einhver agnarögn af DNA hafi staðist verkunina og hvort eitthvert brot af þeirri ögn gæti enn verið það lítið skemmt að magna mætti það upp og nota til greiningar. Um það skal ekkert fullyrt að óreyndu. Svo má líka spyrja hvort einangrun á DNA úr skinninu geti yfirleitt gefið marktækar upplýsingar um uppruna þess. Ætla má að húsdýr hafi komið með landnámsmönnum frá sömu stöðum og þeir. Niðurstöður rannsókna benda til þess að íslenski nautgripastofninn sé af norskum uppruna. DNA athugun mundi því ekki greina á milli norsks og íslensks uppruna. Við hagstæð skilyrði getur DNA í lífrænum leifum vissulega varðveist í þúsundir ára, að minnsta kosti það vel að dugi til greiningar. Þannig hefur DNA verið einangrað úr nokkur þúsund ára gömlum múmíum og jafnvel úr meira en þrjátíu þúsund ára gömlum beinum beinum Neanderdalsmannsins. Hefði ómeðhöndluð húð verið geymd við hagstæð skilyrði í þúsund ár væri eflaust hægt að einangra DNA úr henni. Eins má ímynda sér að notast megi við óskemmd hár sem enn er að finna í allmörgum handritum, til dæmis Flateyjarbók (GKS 1005 fol.). Þar sem göt hafa myndast í skinnið fyrir verkun eru stundum hár eftir sem standa þannig inn í gatinu að þau hafa sloppið þegar skinnið var skafið. Nútímaaðferðir til að magna upp DNA úr sýnum eru ofurnæmar og örsmá sýni geta nægt.
Fjölmargar tilraunir hafa verið gerðar til að ná DNA úr margra milljóna ára gömlum dýra- og jurtaleifum, jafnvel úr leifum risaeðla sem dóu út fyrir 65 milljónum ára. Í fyrstu var mikið um jákvæðar niðurstöður en fæstar þeirra, ef nokkrar, hafa staðist nákvæmari próf. Oft virðast menn þá hafa verið að magna upp „mengun“ eða aðskota-DNA. Ekki er til dæmis ólíklegt að utan á handritaskinninu sé eitthvað af sveppa- og bakteríuleifum auk leifa húðfrumna þeirra sem hafa handleikið þau í tímans rás. Aðskota-DNA gæti flækt málin en auðvelt ætti að vera að greina það frá eiginlegu DNA úr dýrum. Langskemmtilegast væri að finna DNA af höndum skrifarans og annarra sem unnið hafa við gerð handritsins en líklega er nú ekki mikið eftir af því. Þessi forvitnilega spurning minnir á að rannsóknir á íslenskum handritum eru afar skammt á veg komnar. Eins og þegar er getið vitum við nánast ekkert um verkunaraðferðir, en hið sama á við um hvernig eiginlegar bækur voru búnar til úr bókfelli og hvernig búið var í haginn fyrir skrifara og listamenn sem síðan skreyttu handritin með upphafsstöfum og myndum. Rannsóknir af því tagi eru öflugar erlendis, einkum í Þýskalandi, Frakklandi og Ítalíu, en eru rétt að hefjast hér á landi og ættu að skila árangri innan fárra ára. Ólíklegt er að gripið verði til svo róttækrar og kostnaðarsamrar aðgerðar að greina erfðaefni í skinninu, enda yrði þá að taka (örsmá) sýni úr handritunum sjálfum. Það taka handritaverðir varla í mál. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Er einhvers staðar til erfðaefni úr risaeðlum og væri hægt að láta þær koma aftur? eftir Guðmund Eggertsson
- Hvað er DNA og RNA og hvert er hlutverk þeirra? eftir Guðmund Eggertsson
- Af hverju er DNA-sameindin gormlaga? eftir Guðmund Eggertsson
- Hvaða kenning er efst á blaði þessi misserin um aldur og uppruna Íslendingasagna? eftir Véstein Ólason
- Hvers vegna eru Íslendingasögur höfundarlausar? eftir Véstein Ólason
- Er vitað hvernig texti Íslendingasagnanna var borinn fram þegar hann var skrifaður? eftir Guðvarð Má Gunnlaugsson
- Stofnun Árna Magnússonar. Sótt 4.8.2010.