Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Þetta er áhugaverð en erfið spurning. Í fyrsta lagi er það skilgreiningaratriði hvað telst „byggilegt“ og hvað ekki, í öðru lagi vita menn ekki gjörla hvað veldur ísöldum, og í þriðja lagi hefur enginn maður orðið vitni að eldgosi af því tagi sem gæti einhvern tíma orðið í Yellowstone.
Ástæðan fyrir spurningunni er sú, að á síðustu árum hafa ýmsar mælingar jarðeðlisfræðinga í Yellowstone-þjóðgarðinum í Bandaríkjunum bent til þess að hreyfing sé á bergkviku undir öskju sem þar er, og fjölmiðlar gripið þetta á lofti. Yellowstone-svæðið er þekktast fyrir hveri, en þar hafa einnig orðið gríðarleg eldgos, síðast fyrir 600.000 árum þegar 1000 km3 (rúmkílómetrar) af gjósku (ösku, vikri og gjalli) komu þar upp. Fyrir tveimur milljónum ára varð þar enn þá stærra gos, 2500 km3. Samþjöppuð gjóskan frá því gosi er 20 cm þykk í 1500 km fjarlægð frá gosstöðvunum, svo að varla þarf að efast um skelfilegar afleiðingar af slíkum hamförum. Sem betur fer eru svona mikil eldgos mjög fátíð á jörðinni - verða að meðaltali einu sinni á 50-100 þúsund árum.
Hér má sjá stærsta hver Bandaríkjanna, og þann þriðja stærsta í heimi. Hann er á Yellowstone-svæðinu.
Til að átta sig á áhrifum eldgoss af þessu tagi má skoða afleiðingar „stórgosa“ sem menn hafa orðið vitni að og kannað afleiðingarnar af:
Gosið í St. Helens 1980 (1 km3 gjóska, eitt slíkt gos á áratug) olli staðbundinni eyðileggingu, á nokkur hundruð ferkílómetra svæði.
Gosið í Krakatá 1883 (10 km3 gjóska, eitt gos á öld) hafði víðfeðmar afleiðingar og varð 36.000 manns að fjörtjóni.
Gosið í Tambora 1815 (100 km3, 1-2 gos á 1000 árum) olli kólnun um allan heim með uppskerubresti og hríðarveðrum um mitt sumar bæði á norður- og suðurhveli. Veðurfarsáhrifin vöruðu samt ekki lengur en 1-2 ár.
Af þessu er þó ljóst að gos í Yellowstone sem væri enn 10 sinnum stærra mundi hafa skelfilegar afleiðingar, að minnsta kosti um alla Norður-Ameríku, og að tímabundin hnattræn kólnun gæti valdið miklum hremmingum um allan heim. Rannsóknir á ískjörnum úr Grænlandsjökli virðast sýna, að greina megi þrjá óháða þætti sem hafi áhrif á loftslag, þar á meðal eldgos. Í þeim er það einkum tvennt sem áhrif getur haft á loftslagið, annars vegar ryk sem hindrar inngeislun sólar og hins vegar brennisteinssambönd (ördropar af brennisteinssýru) sem berast upp í heiðhvolfið og drekka í sig geislun sólar. Mun meiri brennisteinn losnar hlutfallslega í basískum eldgosum (Lakagígar 1783) en súrum (Askja 1875), enda ollu Skaftáreldar kólnun um hálft stig á norðurhveli í eitt ár eða svo.
Af sama tagi og Skaftáreldakvikan eru þau gríðarlegu hraun sem runnu á Indlandi fyrir 65 milljón árum, og þeir eru til sem trúa því að loftslagskólnun af þeirra völdum hafi valdið því að 60% af öllum dýrategundum jarðar dóu út í lok krítartímabilsins, og ekki hafi þurft loftstein til. Á Indlandi runnu um milljón rúmkílómetrar af basalthrauni á hálfri til einni milljón ára - það er að segja að meðaltali 1-2 km3 á ári, sem ekki virðist sérlega skelfilegt í ljósi þess að 15 km3 af bergkviku komu upp á einu ári í Skaftáreldum (sem ollu kólnun um allt norðurhvel í 1 ár).
Niðurstaðan er sú, að stórgos í Yellowstone mundi að vísu valda ólýsanlegu tjóni í Norður-Ameríku og öllu mannkyni talsverðum hremmingum, en sennilega ylli það hvorki ísöld né því að Ísland yrði óbyggilegt nema þá mjög tímabundið - fimbulvetri í 2-3 ár?
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Sigurður Steinþórsson. „Hvað gerist hér á landi og annars staðar ef eldgos hefjast á Yellowstone-svæðinu?“ Vísindavefurinn, 21. mars 2000, sótt 22. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=271.
Sigurður Steinþórsson. (2000, 21. mars). Hvað gerist hér á landi og annars staðar ef eldgos hefjast á Yellowstone-svæðinu? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=271
Sigurður Steinþórsson. „Hvað gerist hér á landi og annars staðar ef eldgos hefjast á Yellowstone-svæðinu?“ Vísindavefurinn. 21. mar. 2000. Vefsíða. 22. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=271>.