Aðrir vilja meina að mannfallið hafi líklega verið einhvers staðar þarna á milli, um eða yfir 71.000 dauðsföll, þar af hafi um 12.000 látist af völdum gjóskuflóðs eða öskufalls á meðan gosið stóð yfir en aðrir hafi látist úr sjúkdómum, hungri eða vosbúð sem fylgdu í kjölfar eldgossins. Þessi tala upp á 71.000 tekur aðeins til íbúa á Sumbawa og nágranneyjunni Lombok en talið er að einhverjir hafi látist á öðrum eyjum í kring. Nánar má lesa um þetta í greininni Climatic, environmental and human consequences of the largest known historic eruption: Tambora volcano (Indonesia) 1815 eftir Clive Oppenheimer. Í gosinu í Tambora kom upp mikið magn gosefna eða sem samsvarar um 50 km3 af föstu bergi. Til samanburðar eru stærstu eldgos á Íslandi um 25 km3. Megnið af gosefnunum voru gjóska. Mikið af henni féll sem aska í nágrenni við eldfjallið en töluvert magn barst einnig út í andrúmsloftið og hafði áhrif á veðurfar langt frá gosstaðnum. Talið er að meðallofthiti á jörðinni hafi lækkað fyrstu árin eftir gosið og er árið 1816 talið eitt það kaldasta ár á norðurhveli jarðar í um 600 ár. Í Norður-Ameríku og Evrópu var árið 1816 kallað „árið þegar ekki kom sumar“ (the year without a summer). Afleiðingarnar af sérlega hörðu vori og sumri það árið urðu meðal annars mikill uppskerubrestur með tilheyrandi þrengingum.
Annað mannskæðasta eldgos sögunnar er gosið á eyjunni Krakatá í Indónesíu árið 1883. Eyjan sjálf var óbyggð en talið er að um 36.000 manns á nálægum eyjum hafi þá látið lífið, langflestir vegna mikillar flóðbylgju eða tsunami sem myndaðist við gosið. Þriðja mannskæðasta gosið var í eldfjallinu Pelée á karabísku eyjunni Martiník, sem gaus árið 1902. Í því gosi eyddist borgin St. Pierre og fórust allir íbúarnir, í kringum 30.000. Um það er stuttlega fjallað í svari Ármanns Höskuldssonar við spurningunni Hvað getur þú sagt mér um peléeísk og plínísk eldgos? Í fjórða sæti á þessu lista er svo gos í Nevado del Ruiz í Kólumbíu árið 1985 þá fórust um 25.000 manns. Í báðum síðastöldu gosum má rekja hið mikla mannfall til gjóskuhlaupa sem eru hættulegustu fyrirbrigði sem myndast geta í eldgosum en í þeim þeytist brennheit gjóskan á miklum hraða niður hlíðar eldfjallsins í stað þess að fara upp í loftið. Hægt er að lesa um gjóskuhlaup í svari Ármanns Höskuldssonar við spurningunni Hvers konar eldgos lagði Pompei í rúst?
Þrátt fyrir að þau eldgos sem hér hafa verið nefnd hafi kostað mjög mörg mannslíf þá flokkast ekkert þeirra sem súpereldgos. Í svari Ármanns Höskuldssonar við spurningunni Hvað er súpereldgos? kemur fram að nútíma samfélag manna hefur aldrei þurft að glíma við afleiðingar slíks goss en þær yrðu gífurlegar og gætu stór svæði eins og Bandaríkin eða Evrópa orðið fyrir gríðarlegu manntjóni ef slíkt eldgos yrðu þar. Landbúnaður myndi leggjast af sem og flugsamgöngur, en það gæti fljótt leitt til hungursneyðar í þessum heimshlutum. Veðurfarsáhrif yrðu jafnframt gríðarleg þar sem að mikið magn gosefna og eldfjallagufa bærist upp í heiðhvolfin. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Ef það kemur kvika upp úr jörðinni við eldgos myndast þá ekki tómarúm annars staðar eða er kvikuframleiðsla endalaus? eftir Sigurð Steinþórsson
- Clive Oppenheimer. 2003. Climatic, environmental and human consequences of the largest known historic eruption: Tambora volcano (Indonesia) 1815. Progress in Physical Geology, 27(2) bls. 230-259.
- Tambora Volcano, Indonesia á U.S. Geological Survey. Skoðað 3. 9. 2008.
- volcano á Encyclopædia Britannica Online. Skoðað 3. 9. 2008.
- Mount Tambora á Wikipedia. Skoðað 3. 9. 2008.
- William Menke. The Most Dangerous Volcano in the World. Skoðað 3. 9. 2008.
- John Seach. Volcano Eruption Fatalities á Volcano Live. Skoðað 3. 9. 2008.
- Tom Simkin. Volcano Fatalities--Lessons from the Historical Record. Science, 01/12/2001. Skoðað 3. 9. 2008.
- Mynd af uppgreftri: Lost civilization unearthed in Indonesia á msnbc 27. 2. 2006. Ljósmyndari: Lewis Abrams. Sótt 3. 9. 2008.
- Kort af öskufalli: 1815 tambora explosion.png á Wikipedia. Birt undir GNU leyfi. Sótt 3. 9. 2008.
Hér er einnig svarað spurningunni:
Mig langar að vita hvaða eldfjöll hafa verið mannskæðust síðustu aldir?