Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Þess skal getið að ítarlegt svar við náskyldri spurningu, Hvernig verða frumeindir til? frá 2013 er að finna á Vísindavefnum. Hér verður reynt að koma á framfæri viðbótum og að nýta sér myndefni og framsetningu sem litið hefur dagsins ljós frá þeim tíma, auk þess að gefa yfirlit yfir myndun efnis alheimsins frá Miklahvelli (e. Big Bang). Hér gildir, frumeind = atóm.
Myndun léttustu frumeindanna frá Miklahvelli til stjörnumyndunar
Talið er að tímabilið frá Miklahvelli þar til fyrstu stjörnur og vetrarbrautir alheims hófu að myndast hafi spannað meira en 300.000 ár (mynd 1). Á fyrstu sekúndubrotum þess tíma er talið að heimurinn hafi samanstaðið af orku á formi orkusviða og massalausra einda. Vegna samverkandi áhrifa (víxlverkunar) einda við orkusvið sem kennt hefur verið við vísindamanninn P. Higgs (Higgs-sviðið)[1] mynduðust öreindir með massa og til urðu meðal annars rafeindir, róteindir og nifteindir sem atóm efnisheimsins eru gerð úr.
Talið er að það orkuform sem myndar efnisheiminn sé einungis um það bil 4 – 5% af heildarorku alheimsins. Þann hluta má kalla hinn greinanlega (eða „sýnilega“) alheim meðan hin 95 – 96% alheimsins eru hulduefni (e. dark matter) og hulduorka (e. dark energy).
Í kjölfar myndunar grunneinda efnisheimsins átti sér stað samruni kjarnaeinda (róteinda og nifteinda) og myndun léttustu atómkjarnanna í formi jákvætt hlaðinna jóna (einkum tvær léttustu jónirnar, H+, He2+ og ögn af Li3+). Við frekari þenslu og kólnun efnisheimsins náðu þessar jónir að fanga neikvætt hlaðnar rafeindir og mynda tilsvarandi atóm, það er vetni (H), helín (He) og ögn af litín (Li).
Mynd 1: Þróun hins greinanlega/„sýnilega“ alheims frá Miklahvelli (e. Big Bang).
Myndun þyngri frumeinda eftir myndun stjarna og vetrarbrauta
Megnið af þyngri frumeindum varð ýmist til við kjarnasamruna í stjörnum eða við kjarnabreytingar í hamförum sem fylgdu eyðingu eða sprengingu stjarna. Mynd 2 sýnir meginþróun stjarnmyndunar og umbreytingar/eyðingar þeirra, háð stærð/þyngd og mynd 3 sýnir frumefni sem fyrirfinnast í náttúrunni/á jörðinni, flokkuð eftir myndun þeirra.
Mynd 2: Þróun stjarnmyndunar og umbreytinga/eyðingar fyrir meðalstórar stjörnur á borð við sólina okkar (neðra ferli) og fyrir þyngri stjörnur (efra ferli).
Í stórum dráttum myndast atómkjarnar járns (nr. 26) og léttari frumefna í iðrum stjarna við kjarnasamruna allt frá samruna vetniskjarna/róteinda til myndunar helínkjarna, sem er nánast einvörðungu í smærri stjörnum á borð við sólina okkar,[2] til samruna helínkjarna við krómatómkjarna (nr. 24) til myndunar járns.[3] Slíkur kjarnasamruni er háður þrýstingi í iðrum stjarnanna sem fer eftir stærð þeirra þannig að vægi atómkjarnmyndunar þyngri atóma vex með stærð stjarna. Þá eykst myndun þyngri frumeinda í kjölfar þess að megineldsneyti stjarnanna (vetniskjarnar) klárast, en það markar endalok stjarna og myndun rauðra risa (e. red giants) eða ofurrisa (e. super red giants). Viðkomandi atómkjarnar og tilsvarandi atóm losna síðan úr læðingi þegar rauðu risarnir ýmist flosna upp (e. planetary nebula) og mynda hvíta dverga (e. white dwarfs) eða mynda sprengistjörnur sem springa (e. supernova) og geta myndað nifteindastjörnur.
Í hamförum sem fylgja endalokum stjarna, eyðingu þeirra eða umbreytingum, losnar úr læðingi gífurlega mikil orka sem getur orsakað margvíslega árekstra kjarneinda og atómakjarna og leitt til myndunar stærri atómkjarna en járns. Talið er að verulegur hluti frumeinda kolefnis (C), köfnunarefnis (N) og litíns (Li) verði til við endalok lítilla stjarna auk fjölmargra þyngri frumeinda í minna mæli (gulir reitir á mynd 3) en að súrefnisatómið (O), svo dæmi sé tekið, myndist einkum við endalok stærri stjarna. Þá er talið að léttu frumefnin beryllín (Be) og bór (B) verði einkum til við kjarnaklofnun stærri atómkjarna fyrir tilstilli geimgeislunar (bleikir reitir á mynd 3). Myndun þyngstu frumeindanna á einkum rætur sínar að rekja til sprengistjarna og myndunar nifteindastjarna (brúnir reitir á mynd 3).
Mynd 3: Lotukerfi frumefna sem fyrirfinnast í náttúrunni/á jörðu og litaflokkun háð myndun þeirra frá Miklahvelli til nútímans.
Afleiðingin af ofangreindu er að efnismassi alheimsins samanstendur að mestu af léttustu frumeindunum vetni (H, 75%) og helíni (He, 23%), samanlagt um 98%. Aðrar frumeindir vega því einungis um 2% af heildarefnismassanum. Þar af vega léttu frumeindirnar, súrefni (O, 1%), kolefni (C, 0,5%), neon (Ne, 0,1%) og köfnunarefni (N, 0,1%) hvað mest.[4][5]Samruni atóma; myndun sameinda og efnakerfa
Myndun atómkjarna og atóma (frumeinda), eins og lýst er hér ofar, gerist að jafnaði við hátt hitastig. Myndun sameinda og efnakerfa með tengingum milli atóma gerist, að jafnaði, við lægra hitastig, ýmist við samruna efnis vegna aðdráttarkrafta í geimskýjum (e. stellar nebula) í aðdraganda stjörnumyndunar[6] (mynd 2) eða í hnöttum (plánetum, tunglum og loftsteinum) sem myndast umhverfis sólir við myndun sólkerfa (mynd 4).
Mynd 4: Myndun sólkerfis úr geimskýi.
Sameindir og efnakerfi, sem myndast í og á hnöttum eru háð aðstæðum og samsetningu frumeinda við myndun og þróun þeirra. Þannig eru til dæmis einstaklega sérstæð skilyrði og frumeindasamsetningar á jörðinni með þeim hætti að efnið hefur meðal annars tekið á sig form lífríkja, samanber jurta- og dýraríki, sem að stórum hluta samanstanda af lífrænum efnum og vatni þar sem frumeindirnar kolefni (C), vetni (H), súrefni (O) og köfnunarefni (N) auk ýmissa málmjóna gegna lykilhlutverki. Meginhluti yfirborðs jarðarinnar er hins vegar gerður úr ólífrænum efnum þar sem frumefnið kísill (Si) er meginuppistaðan.[7]Tilvísanir:
Ágúst Kvaran. „Hvernig varð allt efnið í alheiminum til?“ Vísindavefurinn, 13. desember 2024, sótt 26. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=87319.
Ágúst Kvaran. (2024, 13. desember). Hvernig varð allt efnið í alheiminum til? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=87319
Ágúst Kvaran. „Hvernig varð allt efnið í alheiminum til?“ Vísindavefurinn. 13. des. 2024. Vefsíða. 26. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=87319>.