Hver er uppruni og saga gallabuxnanna?Gallabuxur eru síðbuxur úr þykku, þéttofnu bómullarefni, oftast bláu. Rekja má sögu gallabuxanna aftur til seinni hluta 19. aldar. Í lok árs 1870 fékk klæðskerinn Jacob Davis í Nevada-fylki í Bandaríkjunum það verkefni að útbúa sterkbyggðar buxur fyrir skógarhöggsmann á svæðinu. Það var svo árið 1871 sem fyrstu gallabuxurnar litu dagsins ljós. Buxurnar urðu strax vinsælar á svæðinu og átti Davis erfitt með að anna eftirspurn. Davis fékk efnið í buxurnar frá manni að nafni Levi Strauss en árið 1872 hafði Davis samband við Strauss með einkaleyfi í huga. Einkleyfið fékkst 20. maí árið 1873 í nafni Jacobs Davis og fyrirtæki Levis Strauss. Fyrst um sinn voru gallabuxur aðallega notaðar sem vinnubuxur í vesturríkjunum, auk þess að vera vinsælar meðal kúreka. Í kúrekamyndum 4. áratugarins mátti iðullega sjá aðalpersónurnar klæddar í gallabuxur en það varð til þess að almenningur fór að sýna þeim meiri áhuga. Þrátt fyrir það urðu þær ekki að hversdagsklæðnaði fyrr en eftir seinni heimsstyrjöldina (1939-1945). Þá voru gallabuxurnar tákn uppreisnar eftir vinsælar kvikmyndir 6. áratugarins, svo sem The Wild One með Marlon Brando og Rebel Without a Cause með James Dean í aðalhlutverki en þeir klæddust buxunum margumtöluðu. Gallabuxur voru um tíma bannaðar í ýmsum skólum vegna þessa. Um svipað leyti fóru buxurnar einnig að sjást utan Bandaríkjanna. Gallabuxur urðu vinsælli með tímanum og á 7. og 8. áratugnum voru þær orðnar algengur hversdagsfatnaður. Þær eru nú orðnar vinsælar um allan heim og notaðar af fólki á öllum aldri. Þær koma í mörgum sniðum og litum, auk þess sem þær eru unnar á mismunandi hátt sem gefur þeim mismunandi yfirbragð. Fjölmargir samfélagshópar hafa sett mark sitt á gallabuxurnar, til dæmis kúrekar og uppreisnarseggir, eins og áður hefur komið fram, auk hippa, pönkara og rappara, svo fátt eitt sé nefnt. Heimildir:
- Jeans - Wikipedia. the free encyclopedia. (Skoðað 02.07.2015).
- How jeans conquered the world - BBC News. (Skoðað 02.07.2015).
- Jacob W. Davis - Wikipedia. the free encyclopedia. (Skoðað 02.07.2015).
- The History of Jeans - NI Global Issues for Learners of English. (Skoðað 02.07.2015).
- jeans | clothing | Britannica.com. (Skoðað 02.07.2015).
- Jeans - Wikipedia the free encyclopedia. (Sótt 02.07.2015).
- Punk – Wikipedia. (Sótt 9.07.2015).
Grunnurinn í þessu svari er skrifaður af nemendum í Háskóla unga fólksins, námskeiðum á vegum HÍ fyrir 12-16 ára ungmenni í júnímánuði 2015.