Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Rappið hefur alltaf verið til. Þegar Guð talaði við Adam, Móses og alla spámennina rappaði hann, það gerði Shakespeare líka, hann rappaði og rímaði. Rappið hefur þess vegna alltaf verið til.
Þannig hljóðar skilgreining eins af frumkvöðlum rappsins, Afrika Bambaataa, á fyrirbærinu. Hér verður þó notuð þrengri skilgreining og rapp skoðað sem tónlistarstefna sem á rætur að rekja til hipp-hoppsins í New York borg á 8. áratug síðustu aldar.
Afrika Bambaataa
Árið 1979 var tímamótaár í sögu rappsins. Í fyrsta sinn vakti rapplag verulega athygli og náði heimsvinsældum. Það var lagið „Rapper’s Delight“ með sveitinni Sugarhill Gang, sem var byggt á diskósmellinum „Good Times“ með hljómsveitinni Chic. Sugarhill Gang var strákatríó frá New Jersey sem komst á samning hjá útgáfufyrirtækinu Sugar Hill Records en þar réð ríkjum framleiðandinn og fyrrum soul-dívan Sylvia Robinson. Lagið náði 4. sæti á R&B-listanum í Bandaríkjunum og seldist í tveimur milljónum eintaka á heimsvísu. Þá var farið að nota hugtakið rapp í fjölmiðlum og segja má að í lok 8. áratugarins hafi rappið komist í almenna umræðu eða að minnsta kosti út fyrir afmörkuð hverfi New York borgar.
Þrátt fyrir að þrír strákar frá New Jersey hafi gegnt stóru hlutverki í sögu rappsins er vagga þess engu að síður í New York, nánar tiltekið í hverfunum Bronx og Harlem en þar var mikil gerjun í menningarlífi ungra svertingja. Hipp-hopp-menningin stóð í blóma með tilheyrandi breikdansi og graffíti. Í tónlistinni stóð einn maður öðrum framar í að leggja grunninn að því sem á eftir kom, DJ Kool Herc.
DJ Kool Herc fæddist árið 1954 í Kingston á Jamaíku, í sama hverfi og reggítónlistarmaðurinn Bob Marley. Herc fluttist til Bronx í New York árið 1967 og frá árinu 1973 kom hann reglulega fram sem DJ eða plötusnúður á götum úti, í klúbbum og víðar við góðar undirtektir. Ekki skemmdi það fyrir að einn DJ kostaði klúbbaeigendur um það bil einn tíunda af því sem danshljómsveitir fengu fyrir að troða upp, en þær voru yfirleitt mjög fjölmennar á þessum árum. Herc spilaði gjarnan tónlist frá heimalandinu en þar ríkti sú hefð að tónlistarmenn eins og U-Roy og Big Youth, sem nefndust „deejays“ á Jamaíku, töluðu og sungu yfir tónlistinni sem var leikin af plötum. Herc var fyrstur til að spila saman, eða mixa, tvær plötur með sama lagi og þróa þarmeð svokölluð „break beats“ eða 'breiktakta' sem urðu undirstaða rapptónlistar. Svonefnt ‘skrats’ er aftur á móti eignað Grand Wizard Theodore en hann prófaði að búa til skraut við bítið með því að færa plötu á spilarara fram og um 1977-1978.
Grand Wizard Theodore að skratsa við plötuspilarana.
Fyrrnefndur Afrika Bambaataa fylgdi fordæmi Herc og annara tónlistarmanna en sótti einnig innblástur úr allt annarri átt. Það sem átti hug hans allan var tónlist þýsku raftónlistarmannanna úr Kraftwerk. Fyrir tilstilli hans hljómaði nú þýsk raftónlist af plötum eins og Autobahn og Trans-Europe Express í svertingjaklúbbum New York. Þannig læddust raftónlistaráhrifin inn í rapptónlistina og einnig hjálpaði útbreiðsla ódýrra rafhljóðfæra, þar á meðal hljóðgervla og trommuheila.
Að sjálfsögðu komu áhrif úr ótal áttum inn í rapptónlistina þó eigna megi ofantöldum aðilum stóran hlut. Nöfn eins og Gil Scott-Heron, Last Poets, Cab Calloway komu einnig við sögu, jafnvel Louis Armstrong og Commander Cody.
Seinni hluti 8. áratugarins var upphafsskeið hipp-hoppsins og lykilmenn í tónlistinni voru DJ Kool Herc, Afrika Bambaataa, Kurtis Blow (sem var fyrsti rapparinn sem fékk útgáfusamning hjá stóru útgáfufyrirtæki, Mercury/Polygram árið 1979) og Grandmaster Flash. Þetta voru þeir sem skipuðu fyrstu kynslóð rappara og lögðu grunninn að þeirri fjölbreyttu flóru sem skilgreind er sem rapptónlist í dag.
Næstu tímamót í sögu rappsins voru árið 1982 en þá var lagið „The Message“ með Grandmaster Flash and the Furious Five’s gefið út. Tónlistin var reyndar ekki frábrugðin þeirri sem hafði tíðkast á árunum á undan en í textagerðinni kvað við annan tón. Þar var að finna nöturlega lýsingu á lífinu í fátækrarhverfinu, til dæmis línur eins og þessar: “Don’t push me ‘cause I’m close to the edge...” Í kjölfarið fylgdu rappsveitir á borð við Run-DMC og Public Enemy og þeim lá meira á hjarta en forverum þeirra. Pólitík og félagsleg kýli samfélagsins voru nú meðal yrkisefna rappara.
Önnur kynslóð rappara fór að láta á sér bera með stórstjörnum eins og Run-DMC, Beastie Boys, L.L. Cool J, sem oft er nefndur fyrsta kyntákn rapptónlistarinnar, og fleirum. Árið 1984 náði rapp svo endanlega að festa sig í sessi með samstarfi Run-DMC og rokkhljómsveitarinnar Aerosmith. Þar var um að ræða þriðju breiðskífu Run-DMC sem bar titilinn Raising Hell og innihélt hún smellinn „Walk This Way“. Þessi plata, sem gefin var út af Def Jam Records, útgáfufyrirtæki framleiðendanna Russell Simmons og Rick Rubin, náði metsölu innan rapptónlistargeirans. Um hálfu ári síðar gáfu Beastie Boys út sína fyrstu breiðskífu Liscense to Ill en það var fyrsta rappplatan sem náði toppsæti bandaríska vinsældalistans og seldist í yfir sjö milljónum eintaka á heimsvísu.
Þegar hér var komið sögu var rapptónlist orðin að yfirgripsmiklum iðnaði sem teygði anga sína um gervöll Bandaríkin og víðar. Breiddin í tónlistinni var orðin mikil og ekki síður í textagerðinni. Nokkrir tónlistarmenn, fyrir utan þá sem áður hafa verið nefndir, hafa skipt sköpum í sögu rappsins. Þeirra á meðal eru De La Soul, N.W.A., Ice Cube, Dr. Dre, Snoop Doggy Dog, Wu-Tang Clan, Puff Daddy, Eminem, Jay-Z, Lauryn Hill, Missy Elliott og DMX.
Í dag er rapp einn af stærri hlutum tónlistargeirans. Stíltegundirnar sem falla undir rappið eru fjölmargar. Þar má til dæmis nefna: 'Hardcore Rap', 'West Coast Rap', 'Gangsta Rap' og 'Pop Rap'. Rapptónlistarmenn geta verið eins ólíkir og Will Smith og Eminem, BlazRoca og Nelly. Varla er gefið út R&B lag í dag án þess að rapp komi þar við sögu og hipp-hopp-menningin teygir anga sína víða.
Heimildir og myndir:
Berglind María Tómasdóttir. „Hver er saga rappsins?“ Vísindavefurinn, 12. nóvember 2003, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3854.
Berglind María Tómasdóttir. (2003, 12. nóvember). Hver er saga rappsins? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3854
Berglind María Tómasdóttir. „Hver er saga rappsins?“ Vísindavefurinn. 12. nóv. 2003. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3854>.