Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Tæki og tól leikjafræðinnar (e. game theory) eru oft notuð til að greina mögulegar niðurstöður hernaðarátaka. Tollastríð felur í sér valdbeitingu af hálfu þess sem byrjar og varnarviðbrögð þolanda, þó blóðsúthellingar séu fátíðar. Þess vegna má nota leikjafræði til að greina líklega niðurstöðu tollastríðs.
Nærtækast er að líta á tollastríð sem eitt form svokallaðs skræfuleiks (e. game of chicken), sem er vinsælt þema í amerískum kvikmyndum. Grunnstefið er þetta: Tveir bílstjórar nálgast hvor úr sinni áttinni á einbreiðum vegi. Sá sem víkur er talinn skræfa og verður fyrir álitshnekki. Þann sem ekki víkur mætti kalla „tudda“. Víki báðir fá þeir orð fyrir varkárni og skynsemi. Víki hvorugur verður árekstur með fjárhags- og líkamstjóni. Séu báðir bílarnir álíka þungir (bæði löndin jafn stór) má setja upp eftirfarandi ávinningsfylki:
Leikur 1. Tuddi og skræfa - með jafn þungum leikendum
Ökumaður B/land B
Víkja
Víkja ekki
Ökumaður A/land A
Víkja
0,0
-1,+1
Víkja ekki
+1,-1
-3,-3
Tölurnar (-1,+1) efst hægra megin í fylkinu sýna ávinning annars vegar ökumanns A (lands A) og hins vegar ökumanns B (lands B) ef ökumaður A víkur en ökumaður B ekki. Til dæmis gæti talan 1 táknað 1% aukningu landsframleiðslu og talan -1 táknað 1% samdrátt. Ef bæði lönd láta hjá líða að fylgja eftir hótunum um að setja tolla á innflutning frá gagnaðilanum er enginn skaði skeður, viðskipti milli landanna halda áfram óhindruð.
Ákveði land A að leggja tolla á innflutning frá landi B án þess að land B grípi til gagnaðgerða og leggi tolla á framleiðslu lands A eykst landsframleiðsla í landi A um 1% en dregst saman um 1% í landi B. Þetta snýst við ef það er land B sem leggur á tolla en ekki land A. En brjótist út fullt tollastríð einangrast efnahagslíf landanna og þau njóta ekki lengur framleiðsluforskots sem þau kunna að hafa. Landsframleiðsla í báðum löndum dregst þá umtalsvert saman.
Ekki er hægt að segja fyrir fram hvort land A muni víkja eða víkja ekki og heldur ekki hvorn kostinn land B muni velja. Fyrir fram er því fullkomin óvissa um hver niðurstaðan verður í þessum leik.[1]
Eins og fyrr sagði byggir ávinningsfylkið í leik 1 á að bílar ökumannanna séu álíka þungir eða að efnahagskerfi landanna í tollastríðinu séu jafn stór. En hver yrði niðurstaðan ef við værum að tala um „Fiat-lús“ annars vegar og 20 tonna flutningabíl hins vegar? Eða stórveldi annars vegar og smáríki hins vegar. Þá gæti eftirfarandi ávinningsfylki átt við:
Leikur 2. Tuddi og skræfa - með misþungum leikendum
Fíat-lús/smáríki
Víkja
Víkja ekki
Trukkur/stórveldi
Víkja
0,0
-5,+1
Víkja ekki
+1,-1
-1,-10
Stórveldi sem hótar að leggja tolla á framleiðslu smáríkis en stendur ekki við þær hótanir tapar áliti og áhrifum í heiminum. Hér er þessi álitshnekkir talinn jafngilda allt að 5% af landsframleiðslu. Komi til tollastríðs er tap stórveldisins hins vegar lítið en tap smáríkisins mikið.
Jafnvægi í þessari útgáfu leiksins (svokallað Nash-jafnvægi) er að stórveldið víki ekki en að smáríkið víki. Ef stórveldið leggur á tolla er besta svar smáríkisins að víkja (tap í landsframleiðslu 1% í stað 10%). Í leik 1 þar sem löndin voru jafn stór gat land B gert landi A óskunda upp á sem jafngilti 3% af landsframleiðslu með því að velja að víkja ekki. Í leik 2 getur smáríkið aðeins valdið stórveldinu óskunda upp á 1% samdrátt. En mestu skiptir að með því að víkja ekki leggur smáríkið afar þungar byrðar á eigin þegna.
Nærtækast er að líta á tollastríð sem eitt form svokallaðs skræfuleiks, þar sem tveir bílstjórar nálgast hvor úr sinni áttinni á einbreiðum vegi. Sá sem víkur er talinn skræfa og verður fyrir álitshnekki. Ef annar bíllinn (eða landið) er risatrukkur en hitt ekki breytist svokallað Nash-jafnvægi í leiknum verulega.
Þessi einfalda og mjög stílfærða mynd gefur ástæðu til að ætla að það sé að jafnaði sá sterki sem tapi minnstu í tollastríð. Hvort rétt sé að tala um að hinn sterki sigri er svo annað mál eins og vikið verður að hér að neðan. En fyrst er rétt að benda á að þessi mjög svo stílfærði leikur gefur góða hugmynd um bestu viðbrögð lítils lands við hótunum stórveldis um tollastríð: Að „lúffa“ og víkja. En noti stórveldið sömu aðferðafræði ítrekað gagnvart öðrum smáríkjum er vænlegra fyrir þau að bindast samtökum í tollabandalagi og breyta þannig ávinningsfylkinu frá því að vera eins og í leik 2 og í það að vera eins og í leik 1.
Með tollabandalagi opnast mörgum smáum ríkjum sá möguleiki, hugsanlega í samstarfi við stærri vinveitt ríki, að gera sig í sameiningu gildandi til jafns við stórveldi á viðskiptasviðinu.
Hvaða áhrif hafa tollar á verðlag?
Áhrifin á landsframleiðslu í dæmunum hér að ofan eru stílfærð en gefa hugmynd um líkleg áhrif tollastríðs. En víkjum að áhrifum tolla á tekjudreifingu innanlands. Tollar hækka verðlag í því landi sem þeim beita. Kostnaðurinn vegna tollanna dreifist því með einhverjum hætti á íbúa lands A. Segjum að varningurinn sem fær viðbótartoll séu rafmagnsbílar og að bæði löndin, A og B framleiði slíka bíla. Kaupendur rafbíla í landi A standa frammi fyrir hærra verði á innflutningi. Það gefur framleiðendum rafbíla í landi A tækifæri á að hækka verð á sínum bílum.
Lítum á sögulegt dæmi: Í kjölfar olíuverðhækkana og olíuskorts árið 1980 jókst mjög eftirspurn bandarískra kaupenda eftir sparneytnum japönskum bílum. Að sama skapi dróst eftirspurn eftir neyslufrekum bandarískum bílum saman. Háværar kröfur voru um að bandarísk stjórnvöld kæmu bandarískum bílaframleiðendum til bjargar og gæfu þeim svigrúm til að þróa neyslugrennri bíla, til dæmis með því að leggja tolla á japanska bíla. Þetta var í forsetatíð Ronalds Reagans og ríkisstjórn hans lítt hrifin af því að beita tollum. Niðurstaðan var að ríkisstjórn Japans féllst á að takmarka innflutning til Bandaríkjanna við 1,68 milljónir ökutækja árlega í stað 2 milljón ökutækja næstu ár á undan.[2]
Í kjölfar olíuverðhækkana og olíuskorts árið 1980 jókst mjög eftirspurn bandarískra kaupenda eftir sparneytnum japönskum bílum. Háværar kröfur voru um að bandarísk stjórnvöld kæmu bandarískum bílaframleiðendum til bjargar og gæfu þeim svigrúm til að þróa neyslugrennri bíla, til dæmis með því að leggja tolla á japanska bíla. Þetta var í forsetatíð Ronalds Reagans.
Fræðimennirnir Berry og fleiri (1999) gerðu vandaða greiningu á áhrifum innflutningstakmarkananna. Niðurstöðurnar voru þær helstar að bandarískir bílaframleiðendur högnuðust verulega á fyrirkomulaginu. Aðgerðin hafði lítil ef nokkur áhrif á hagnað japanskra framleiðenda (seldu vissulega færri bíla í Bandaríkjunum, en fengu mun betra verð). Þeir sem töpuðu á þessum aðgerðum voru fyrst og fremst bandarískir neytendur sem greiddu mun hærra verð fyrir bæði japanska og bandaríka bíla en hefði orðið hefði engar „takmarkanir“ verið í gangi.
Fjölmargar greiningar eru til á efnahagslegum áhrifum tollastríðs Bandaríkjanna og Kína á fyrra kjörtímabili Donalds Trump. Ryan Hass og Abraham Denmark[3] hafa tekið þetta saman. Markmið Trumps var að draga úr tvíhliða viðskiptahalla milli Kína og Bandaríkjanna Kína í vil. Hann sagði Kína ábyrgt fyrir „the greatest theft in the history of the world“. Þremur mánuðum eftir að Trump flutti inn í Hvíta húsið í fyrra skiptið, hitti hann leiðtoga Kína, Xí Jínpíng í Mar-a-Largo. Þeir komu sér saman um 100 daga áætlun sem ætlað var að mæta áhyggjum Trumps. Sú áætlun fór í vaskinn og Bandaríkin lögðu tolla á kínverskar vörur. Kínverjar svöruðu í sömu mynt. Þetta var á tímabilinu júlí 2017 til ágúst 2018.
Hass og Denmark segja fjölda greininga sýna að það voru bandarísk fyrirtæki sem tóku á sig kostnaðinn vegna tollanna, að 300.000 störf hafi tapast og kostnaður í tapaðri landsframleiðslu hafi verið 0,3%-0,7%. Bændur töpuðu háum fjárhæðum og bú fóru á hausinn. Trump og aðstoðarforsætisráðherra Kína Liú Hé sömdu um „vopnahlé“ í janúar 2020. Samkomulagið fól í sér loforð Kína um að auka kaup á bandarískum vörum um tiltekna upphæð. Það gekk ekki eftir, en samkomulagið gaf Trump tilefni til að lýsa yfir sigri í tollastríðinu. Niðurstaða Hass og Denmark er: „It appears that President Trump accepted an IOU as a declaration of victory“.
Niðurstaða
Ef stórveldi leggjast í viðskiptastríð við smáríki er líklegt að smáríkið tapi. Ekki er hægt að álykta hver fer með sigur af hólmi ef tvö stórveldi eiga í viðskiptastríði. Samningar sem gerðir eru að tollastríði loknu eru gjarnan flóknir og geta gefið báðum aðilum tækifæri til að lýsa yfir „fullum“ sigri. Aukist tíðni viðskiptadeilna og verði tollum beitt í auknu mæli í slíkum átökum eiga smáríki fáa aðra kosti en gerast hluti af tollabandalögum. En þó erfitt sé að festa hendur á hver sigrar þegar jafn stöndug ríki eiga í viðskiptastríði er auðveldara að festa hönd á hverjir tapar. Það eru almenningur, almennir neytendur í þeim löndum sem eiga í slíku stríði.
Tilvísanir:
^ Leikjafræðingar segja að ekki sé neitt Nash-jafnvægi í þessum leik í hreinum leikbrögðum. Nash-jafnvægi í blönduðum leikbrögðum er til. Þá láta leikendur hendingu ráða hvaða leikbragð er valið. Ekki er líklegt að stjórnvöld í löndunum 2 vinni með þeim hætti að kasta tengingum upp á hvaða stefna skuli mörkuð í utanríkisviðskiptum.
^ Berry, Steven, James Levinsohn, & Ariel Pakes. (1999). Voluntary Export Restraints on Automobiles: Evaluating a Trade Policy. American Economic Review 89 (3): 400–430. https://www.jstor.org/stable/117026