Sólin Sólin Rís 11:22 • sest 15:30 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 24:13 • Sest 13:33 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:31 • Síðdegis: 23:02 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:12 • Síðdegis: 16:52 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 11:22 • sest 15:30 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 24:13 • Sest 13:33 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:31 • Síðdegis: 23:02 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:12 • Síðdegis: 16:52 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvert er almennt talið líklegasta banamein þeirra sem voru krossfestir?

Geir Þ. Þórarinsson

Einnig var spurt:
Hvernig fara krossfestingar fram? Er hægt að deyja af henni og hvernig gerist það þá? Hvernig var Jesús krossfestur?

Í stuttu máli er banamein þeirra sem voru krossfestir ekki þekkt. Hafa verður í huga að heimildir okkar um krossfestingar – bæði fornleifar og ritaðar heimildir – eru fáar og rýrar; engin þeirra er ítarleg skýrsla réttarmeinafræðings byggð á krufningu þeirra sem létust, því að réttarmeinafræði var ekki til sem vísindagrein í fornöld. Kenningar um hvað dró krossfesta til dauða eru því byggðar á getgátum. Eins og gefur að skilja er ekki mögulegt að reyna tilgátur um þetta með tilraunum. En með þessum fyrirvörum má segja að flestir fræðimenn í dag telji að krossfesting hafi annaðhvort valdið andnauð og köfnun, hjartabilun og hjartastoppi eða blóðtöppum sem ollu dauða hins krossfesta.

Þótt okkur skorti ítarlegar heimildir um dánarorsök krossfestra og jafnvel þær aðferðir sem beitt var, er þó vitað að krossfestingar voru tíðar í fornöld. Þær tíðkuðust hjá Assýringum og Babýlóníumönnum, hjá Persum og Föníkumönnum og á hellenískum tíma þekktust þær líka hjá Júdeumönnum, Grikkjum og svo Rómverjum. Að teknu tilliti til þess hversu víða og lengi þær tíðkuðust má ganga að því vísu verklagið hafi ekki alltaf verið nákvæmlega eins. Fátt er um fornleifar af krossfestum mönnum en leifar að minnsta kosti þriggja manna hafa fundist. Lýsingar vitna, sem varðveittar eru í rituðum heimildum, eru ögn fleiri. Frægastar eru vitanlega lýsingar guðspjallanna af krossfestingu Jesú. Einnig er að finna lýsingar í ritum Flavíosar Jósefosar sagnaritara og rómverska heimspekingsins Luciusar Annaeusar Senecu, sem báðar eru frá miðri 1. öld.

Kossfesting Jesú hefur verið myndefni listamanna öldum saman. Myndin hér er hluti af málverki eftir hollenska málarann Jan van Eyck (um 1390–1441).

Jósefos og Seneca segja beinlínis að stellingar þeirra sem voru krossfestir hafi verið með ýmsu móti. Flestir voru illa leiknir af hýðingum og barsmíðum áður, að minnsta kosti hjá Rómverjum. Hendur þeirra hafa verið misjafnlega strekktar upp fyrir höfuð eða út til hliðanna og sumir voru hengdir á krossinn öfugir, þannig að höfuðið sneri niður. Sumir voru bundnir með reipi við krossinn en aðrir voru negldir á hann. Leifar manns, sem Rómverjar höfðu krossfest í Ísrael, báru merki þess að hann hefði verið negldur gegnum hælana við hliðar krossins. Leifar manns sem fundust í Englandi árið 2021 hafa einnig för eftir nagla gegnum hæl.[1]

Rétt eins og verklagið var með ýmsu móti má vera að dánarorsakir krossfestra manna hafi ekki alltaf verið þær sömu. Eins og gefur að skilja skiptir máli hvort sá krossfesti var negldur á krossinn eða bundinn, hvort hann sneri upp eða niður og hvernig höndum hans var komið fyrir. Það gæti jafnvel skipt máli hvert hitastigið var og hvernig viðraði. Einn gæti hafa dáið úr andnauð og kafnað en annar gæti hafa fengið hjartastopp. Af heimildum okkar að dæma virðast sumir hafa hangið lengi á krossinum áður en þeir dóu. Rómverjar létu verði gæta þeirra sem krossfestir voru og mögulega hafa þeir stundum flýtt dauða þeirra sem héngu á krossinum með því að stinga þá í síðuna eða brjóta fætur þeirra en þá hefði þungi líkamans flýtt dauðanum. Ljóst er að krossfesting var kvalarfullur dauðdagi.

Tilvísun:
  1. ^ Leifarnar eru næstum örugglega frá ofanverðri 2. öld, en mögulega frá því snemma á 3. öld. Þær eru eina þekkta dæmið um krossfestingu á vegum Rómverja á Bretlandi.

Heimildir og frekara lesefni:
  • Habermas, G., J. Kopel og B.C.F. Shaw. „Medical views on the death by crucifixion of Jesus Christ“. Proceedings (Baylor University. Medical Center). 34 (6) (2021): 748–752. https://doi.org/10.1080/08998280.2021.1951096.
  • Ingham, David og Corinne Duhig. „Crucifixion in the Fens: life & death in Roman Fenstanton“. Archaeology Magazine, Jan./Feb. (2022): 18–29.
  • Maslen, M.W. og P.D. Mitchell. „Medical Theories on the Cause of Death in Crucifixion“. Journal of the Royal Society of Medicine. 99 (4) (2006): 185–8. https://doi.org/10.1177/01410768060990041.
  • McGovern T.W., D.A. Kaminskas, E.S. Fernandes. „Did Jesus Die by Suffocation?: An Appraisal of the Evidence.“ The Linacre Quarterly. 90 (1) (2023): 64–79. https://doi.org/10.1177/00243639221116217.
  • Retief, F.P. og L. Cilliers. „The History and Pathology of Crucifixion“. South African Medical Journal. 93 (12) (2003): 938–41.

Myndir:

Höfundur

Geir Þ. Þórarinsson

aðjúnkt í grísku og latínu við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

5.12.2024

Spyrjandi

Örn, Sigurður Karlsson

Tilvísun

Geir Þ. Þórarinsson. „Hvert er almennt talið líklegasta banamein þeirra sem voru krossfestir?“ Vísindavefurinn, 5. desember 2024, sótt 21. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=86918.

Geir Þ. Þórarinsson. (2024, 5. desember). Hvert er almennt talið líklegasta banamein þeirra sem voru krossfestir? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=86918

Geir Þ. Þórarinsson. „Hvert er almennt talið líklegasta banamein þeirra sem voru krossfestir?“ Vísindavefurinn. 5. des. 2024. Vefsíða. 21. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=86918>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvert er almennt talið líklegasta banamein þeirra sem voru krossfestir?
Einnig var spurt:

Hvernig fara krossfestingar fram? Er hægt að deyja af henni og hvernig gerist það þá? Hvernig var Jesús krossfestur?

Í stuttu máli er banamein þeirra sem voru krossfestir ekki þekkt. Hafa verður í huga að heimildir okkar um krossfestingar – bæði fornleifar og ritaðar heimildir – eru fáar og rýrar; engin þeirra er ítarleg skýrsla réttarmeinafræðings byggð á krufningu þeirra sem létust, því að réttarmeinafræði var ekki til sem vísindagrein í fornöld. Kenningar um hvað dró krossfesta til dauða eru því byggðar á getgátum. Eins og gefur að skilja er ekki mögulegt að reyna tilgátur um þetta með tilraunum. En með þessum fyrirvörum má segja að flestir fræðimenn í dag telji að krossfesting hafi annaðhvort valdið andnauð og köfnun, hjartabilun og hjartastoppi eða blóðtöppum sem ollu dauða hins krossfesta.

Þótt okkur skorti ítarlegar heimildir um dánarorsök krossfestra og jafnvel þær aðferðir sem beitt var, er þó vitað að krossfestingar voru tíðar í fornöld. Þær tíðkuðust hjá Assýringum og Babýlóníumönnum, hjá Persum og Föníkumönnum og á hellenískum tíma þekktust þær líka hjá Júdeumönnum, Grikkjum og svo Rómverjum. Að teknu tilliti til þess hversu víða og lengi þær tíðkuðust má ganga að því vísu verklagið hafi ekki alltaf verið nákvæmlega eins. Fátt er um fornleifar af krossfestum mönnum en leifar að minnsta kosti þriggja manna hafa fundist. Lýsingar vitna, sem varðveittar eru í rituðum heimildum, eru ögn fleiri. Frægastar eru vitanlega lýsingar guðspjallanna af krossfestingu Jesú. Einnig er að finna lýsingar í ritum Flavíosar Jósefosar sagnaritara og rómverska heimspekingsins Luciusar Annaeusar Senecu, sem báðar eru frá miðri 1. öld.

Kossfesting Jesú hefur verið myndefni listamanna öldum saman. Myndin hér er hluti af málverki eftir hollenska málarann Jan van Eyck (um 1390–1441).

Jósefos og Seneca segja beinlínis að stellingar þeirra sem voru krossfestir hafi verið með ýmsu móti. Flestir voru illa leiknir af hýðingum og barsmíðum áður, að minnsta kosti hjá Rómverjum. Hendur þeirra hafa verið misjafnlega strekktar upp fyrir höfuð eða út til hliðanna og sumir voru hengdir á krossinn öfugir, þannig að höfuðið sneri niður. Sumir voru bundnir með reipi við krossinn en aðrir voru negldir á hann. Leifar manns, sem Rómverjar höfðu krossfest í Ísrael, báru merki þess að hann hefði verið negldur gegnum hælana við hliðar krossins. Leifar manns sem fundust í Englandi árið 2021 hafa einnig för eftir nagla gegnum hæl.[1]

Rétt eins og verklagið var með ýmsu móti má vera að dánarorsakir krossfestra manna hafi ekki alltaf verið þær sömu. Eins og gefur að skilja skiptir máli hvort sá krossfesti var negldur á krossinn eða bundinn, hvort hann sneri upp eða niður og hvernig höndum hans var komið fyrir. Það gæti jafnvel skipt máli hvert hitastigið var og hvernig viðraði. Einn gæti hafa dáið úr andnauð og kafnað en annar gæti hafa fengið hjartastopp. Af heimildum okkar að dæma virðast sumir hafa hangið lengi á krossinum áður en þeir dóu. Rómverjar létu verði gæta þeirra sem krossfestir voru og mögulega hafa þeir stundum flýtt dauða þeirra sem héngu á krossinum með því að stinga þá í síðuna eða brjóta fætur þeirra en þá hefði þungi líkamans flýtt dauðanum. Ljóst er að krossfesting var kvalarfullur dauðdagi.

Tilvísun:
  1. ^ Leifarnar eru næstum örugglega frá ofanverðri 2. öld, en mögulega frá því snemma á 3. öld. Þær eru eina þekkta dæmið um krossfestingu á vegum Rómverja á Bretlandi.

Heimildir og frekara lesefni:
  • Habermas, G., J. Kopel og B.C.F. Shaw. „Medical views on the death by crucifixion of Jesus Christ“. Proceedings (Baylor University. Medical Center). 34 (6) (2021): 748–752. https://doi.org/10.1080/08998280.2021.1951096.
  • Ingham, David og Corinne Duhig. „Crucifixion in the Fens: life & death in Roman Fenstanton“. Archaeology Magazine, Jan./Feb. (2022): 18–29.
  • Maslen, M.W. og P.D. Mitchell. „Medical Theories on the Cause of Death in Crucifixion“. Journal of the Royal Society of Medicine. 99 (4) (2006): 185–8. https://doi.org/10.1177/01410768060990041.
  • McGovern T.W., D.A. Kaminskas, E.S. Fernandes. „Did Jesus Die by Suffocation?: An Appraisal of the Evidence.“ The Linacre Quarterly. 90 (1) (2023): 64–79. https://doi.org/10.1177/00243639221116217.
  • Retief, F.P. og L. Cilliers. „The History and Pathology of Crucifixion“. South African Medical Journal. 93 (12) (2003): 938–41.

Myndir:

...