Hvernig fara krossfestingar fram? Er hægt að deyja af henni og hvernig gerist það þá? Hvernig var Jesús krossfestur?Í stuttu máli er banamein þeirra sem voru krossfestir ekki þekkt. Hafa verður í huga að heimildir okkar um krossfestingar – bæði fornleifar og ritaðar heimildir – eru fáar og rýrar; engin þeirra er ítarleg skýrsla réttarmeinafræðings byggð á krufningu þeirra sem létust, því að réttarmeinafræði var ekki til sem vísindagrein í fornöld. Kenningar um hvað dró krossfesta til dauða eru því byggðar á getgátum. Eins og gefur að skilja er ekki mögulegt að reyna tilgátur um þetta með tilraunum. En með þessum fyrirvörum má segja að flestir fræðimenn í dag telji að krossfesting hafi annaðhvort valdið andnauð og köfnun, hjartabilun og hjartastoppi eða blóðtöppum sem ollu dauða hins krossfesta. Þótt okkur skorti ítarlegar heimildir um dánarorsök krossfestra og jafnvel þær aðferðir sem beitt var, er þó vitað að krossfestingar voru tíðar í fornöld. Þær tíðkuðust hjá Assýringum og Babýlóníumönnum, hjá Persum og Föníkumönnum og á hellenískum tíma þekktust þær líka hjá Júdeumönnum, Grikkjum og svo Rómverjum. Að teknu tilliti til þess hversu víða og lengi þær tíðkuðust má ganga að því vísu verklagið hafi ekki alltaf verið nákvæmlega eins. Fátt er um fornleifar af krossfestum mönnum en leifar að minnsta kosti þriggja manna hafa fundist. Lýsingar vitna, sem varðveittar eru í rituðum heimildum, eru ögn fleiri. Frægastar eru vitanlega lýsingar guðspjallanna af krossfestingu Jesú. Einnig er að finna lýsingar í ritum Flavíosar Jósefosar sagnaritara og rómverska heimspekingsins Luciusar Annaeusar Senecu, sem báðar eru frá miðri 1. öld.
- ^ Leifarnar eru næstum örugglega frá ofanverðri 2. öld, en mögulega frá því snemma á 3. öld. Þær eru eina þekkta dæmið um krossfestingu á vegum Rómverja á Bretlandi.
- Habermas, G., J. Kopel og B.C.F. Shaw. „Medical views on the death by crucifixion of Jesus Christ“. Proceedings (Baylor University. Medical Center). 34 (6) (2021): 748–752. https://doi.org/10.1080/08998280.2021.1951096.
- Ingham, David og Corinne Duhig. „Crucifixion in the Fens: life & death in Roman Fenstanton“. Archaeology Magazine, Jan./Feb. (2022): 18–29.
- Maslen, M.W. og P.D. Mitchell. „Medical Theories on the Cause of Death in Crucifixion“. Journal of the Royal Society of Medicine. 99 (4) (2006): 185–8. https://doi.org/10.1177/01410768060990041.
- McGovern T.W., D.A. Kaminskas, E.S. Fernandes. „Did Jesus Die by Suffocation?: An Appraisal of the Evidence.“ The Linacre Quarterly. 90 (1) (2023): 64–79. https://doi.org/10.1177/00243639221116217.
- Retief, F.P. og L. Cilliers. „The History and Pathology of Crucifixion“. South African Medical Journal. 93 (12) (2003): 938–41.
- Yfirlitsmynd: Kreuzberg (Rhön) - Golgota-Kreuze. Flickr. Höfundur myndar avda-foto. Birt undir CC BY-SA 2.0 leyfi. (Sótt 27.11.2024).
- Mynd: Jan van Eyck - Diptych - WGA07587 crop of the crucified Jesus.jpg. Wikimedia Commons. (Sótt 27.11.2024).