Hvað þarf maður að læra til að verða réttarmeinafræðingur, hversu margar eru undirgreinar réttarmeinafræðinnar og er boðið upp á nám í réttarmeinafræði á Íslandi?Réttarlæknisfræði eða réttarmeinafræði er ein af sérgreinum læknisfræðinnar. Þeir sem vilja verða réttarlæknar eða réttarmeinafræðingar þurfa þess vegna fyrst að ljúka námi í læknisfræði sem tekur sex ár. Að því loknu tekur við svokallað kandidatsár, sem er nauðsynlegt til að öðlast lækningaleyfi, en að því loknu getur sérnám hafist. Sérnám í réttarlæknisfræði er nokkuð mismunandi milli landa. Í Evrópu, til dæmis Svíþjóð, er um sérstakt nám að ræða og tekur það vanalega fimm ár en í Bandaríkjunum ljúka læknar yfirleitt fyrst sérnámi í almennri meinafræði (e. anatomic pathology), sem getur tekið þrjú ár, en sérhæfa sig síðan í réttarlæknisfræði (oft tvö ár) (svokallað fellowship). Ekki er boðið upp á sérnám í réttarlæknisfræði á Íslandi en hægt er að læra hluta af almennri meinafræði á Landspítalanum en réttarlæknisfræðin heyrir þar undir Rannsóknastofu í meinafræði. Að sjálfsögðu geta réttarlæknar sérhæft sig eftir áhugasviðum en yfirleitt er ekki um formlega viðurkenndar undirgreinar að ræða. Á síðustu árum hefur aðferðafræði sameindalíffræðinnar verið tekin upp í auknum mæli við réttarlæknisfræðilegar rannsóknir. Samráð er haft við aðrar sérgreinar, til dæmis sérfræðinga í eiturefnafræði, og að sjálfsögðu er náin samvinna við lögreglu. Benda má jafnframt á grein um réttarlæknisfræði á Íslandi í dag eftir Pétur Guðmann Guðmannsson, lækni, sem birtist í Læknablaðinu árið 2013 (Læknablaðið 2013 99:529) en Pétur er við sérnám í réttarlæknisfræði í Linköping í Svíþjóð. Mynd:
- Aðgerð um borð í USS Carl Vinson.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 12.03.2014).