Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvers vegna hafna konur kynlífi tímabundið fyrir eða eftir blæðingar?

Sóley S. Bender

Upplýsingar um kynlífshegðun fólks gefa okkur ekki tilefni til að ætla að konur hafni almennt kynlífi fyrir eða eftir blæðingar. Konur eru með mismunandi þrár og langanir til kynlífs sem tengjast margvíslegum þáttum sem reynt verður að minnast á í þessu svari en fyrst mun ég fjalla um blæðingar og viðhorf til þeirra. Hvað varðar blæðingar almennt og tengsl þeirra við kynlíf þá var áður fyrr talið að konan væri óhrein á meðan hún hefði blæðingar. Kemur það fram í gömlum íslenskum heimildum að fólk trúði þessu svo mjög að það taldi að það gæti jafnvel eignast óheilbrigt barn ef það hefði kynmök á blæðingatíma. Í Biblíunni, Mósebók 15 kemur fram:

Nú hefur kona rennsli (tíðablæðingar) og rennslið úr holdi hennar er blóð þá skal hún vera saurug í sjö daga og hver sem snertir hana skal vera óhreinn til kvelds.

Síðar segir:

Og ef einhver samrekkir henni og tíðablóð hennar kemur á hann þá er hann óhreinn sjö daga, og hver sú hvíla skal óhrein vera, er hann liggur í.

Ruth Westheimer (1986) kemur inn á ýmsar goðsagnir gagnvart tíðablæðingum. Dæmi um þær eru að ef kona bakar köku fellur kakan, hárlagning helst ekki, konan verði að liggja í rúminu á meðan á blæðingum stendur og sá karlmaður sem hefur kynmök við konu sem er með blæðingar verði getulaus eða geldur (Westheimer, 1986).

Nútímaþekking segir okkur að kynlíf sé hættulaust meðan á blæðingum stendur. Hver einstaklingur hefur sínar sérstöku langanir og þrár. Það er því mjög mismunandi hvenær löngun til kynlífs vaknar og hvenær ekki. Rannsóknir á tengslum kynhormóna kvenna (östrógens og prógesteróns) á mismunandi tímum tíðahringsins og kynlífsvirkni hafa sýnt fram á mismunandi niðurstöður. Sumar rannsóknir hafa sýnt fram á að konan hafi mesta kynlöngun í kringum egglos en aðrar rannsóknir að það eigi sér stað fyrir eða eftir blæðingar. Enn aðrar rannsóknir hafa gefið tilefni til að ætla að mesta kynlöngunin sé á öllum þessum tímabilum (sjá í Van Goozen, Wiegan, Endert, Helmond og Van de Poll, 1997). Abplanalp o.fl. (1979) fengu þær niðurstöður að kynlíf fólks hefði jafna dreifingu yfir tíðahringinn og tengdist ekki magni kynhormóna kvenna (sjá í Van Goozen, Wiegan, Endert, Helmond og Van de Poll, 1997). Nýleg vitneskja hefur rennt stoðum undir það að karlhormón (androgen) skipti líklega meira máli en kvenhormónið östrogen fyrir kynlífsvirkni kvenna. Rannsókn Van Goozen o.fl. (1997) sýndi að magn karlhormónsins testosteróns var tengt kynlöngun og kynlífsvirkni.

Það virðist vera algengara að skoða kynlífsáhuga kvenna fyrir blæðingar en eftir þær. Þær rannsóknir byggjast á því að skoða svokallaða fyrirtíðaspennu (premenstrual syndrome). Rannsókn Van Goozen o.fl. (1997) sýndi að þær konur sem voru með fyrirtíðarspennu fannst þær hafa mesta löngun til kynlífs á miðju tíðatímabili en konur sem ekki höfðu einkenni fyrirtíðaspennu höfðu mesta kynlöngun fyrir blæðingar.

Miriam Stoppard (1992) nefnir margar ástæður þess að kona hafi ekki áhuga á kynlífi. Það geta verið neikvæð viðhorf til kynlífs sem byggjast á uppeldislegum þáttum þar sem lögð hefur verið áhersla á það að kynlíf væri eitthvað óhreint eða dónalegt. Það getur stafað af þekkingarskorti á kynlífi sem hindrað getur eðlilega löngun til kynlífs. Eins getur erfið kynlífsreynsla í uppvexti valdið því að konan á erfitt með að gefa sig að kynlífi. Jafnframt hefur það sýnt sig við meðferð kynlífsvandamála að það sem hamlar fólki að lifa eðlilegu kynlífi er að það hefur ekki getað rætt á eðlilegan hátt við maka/vin sinn um kynlífið. Til þess að vita nægjanlega vel hvað hinn aðilinn vill þarf fólk að geta rætt saman um langanir, tilfinningar og það sem það vill ekki í kynlífi. Góð tjáskipti um kynlíf eru grundvallaratriði fyrir gott kynlíf.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Tilvitnanir:
  • Biblían (1957). Reykjavík: Prentsmiðjan Oddi hf.
  • Stoppard, M. (1992). Töfrar kynlífsins (Guðrún Björk Guðsteinsdóttir, Hálfdán Ómar Hálfdánarson, Sverrir Konráðsson, þýddu). Reykjavík: Bókaútgáfan Örn og Örlygur hf.

Höfundur

Sóley S. Bender

prófessor og forstöðumaður fræðasviðs um kynheilbrigði við HÍ

Útgáfudagur

29.8.2000

Spyrjandi

N.N.

Tilvísun

Sóley S. Bender. „Hvers vegna hafna konur kynlífi tímabundið fyrir eða eftir blæðingar?“ Vísindavefurinn, 29. ágúst 2000, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=859.

Sóley S. Bender. (2000, 29. ágúst). Hvers vegna hafna konur kynlífi tímabundið fyrir eða eftir blæðingar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=859

Sóley S. Bender. „Hvers vegna hafna konur kynlífi tímabundið fyrir eða eftir blæðingar?“ Vísindavefurinn. 29. ágú. 2000. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=859>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvers vegna hafna konur kynlífi tímabundið fyrir eða eftir blæðingar?
Upplýsingar um kynlífshegðun fólks gefa okkur ekki tilefni til að ætla að konur hafni almennt kynlífi fyrir eða eftir blæðingar. Konur eru með mismunandi þrár og langanir til kynlífs sem tengjast margvíslegum þáttum sem reynt verður að minnast á í þessu svari en fyrst mun ég fjalla um blæðingar og viðhorf til þeirra. Hvað varðar blæðingar almennt og tengsl þeirra við kynlíf þá var áður fyrr talið að konan væri óhrein á meðan hún hefði blæðingar. Kemur það fram í gömlum íslenskum heimildum að fólk trúði þessu svo mjög að það taldi að það gæti jafnvel eignast óheilbrigt barn ef það hefði kynmök á blæðingatíma. Í Biblíunni, Mósebók 15 kemur fram:

Nú hefur kona rennsli (tíðablæðingar) og rennslið úr holdi hennar er blóð þá skal hún vera saurug í sjö daga og hver sem snertir hana skal vera óhreinn til kvelds.

Síðar segir:

Og ef einhver samrekkir henni og tíðablóð hennar kemur á hann þá er hann óhreinn sjö daga, og hver sú hvíla skal óhrein vera, er hann liggur í.

Ruth Westheimer (1986) kemur inn á ýmsar goðsagnir gagnvart tíðablæðingum. Dæmi um þær eru að ef kona bakar köku fellur kakan, hárlagning helst ekki, konan verði að liggja í rúminu á meðan á blæðingum stendur og sá karlmaður sem hefur kynmök við konu sem er með blæðingar verði getulaus eða geldur (Westheimer, 1986).

Nútímaþekking segir okkur að kynlíf sé hættulaust meðan á blæðingum stendur. Hver einstaklingur hefur sínar sérstöku langanir og þrár. Það er því mjög mismunandi hvenær löngun til kynlífs vaknar og hvenær ekki. Rannsóknir á tengslum kynhormóna kvenna (östrógens og prógesteróns) á mismunandi tímum tíðahringsins og kynlífsvirkni hafa sýnt fram á mismunandi niðurstöður. Sumar rannsóknir hafa sýnt fram á að konan hafi mesta kynlöngun í kringum egglos en aðrar rannsóknir að það eigi sér stað fyrir eða eftir blæðingar. Enn aðrar rannsóknir hafa gefið tilefni til að ætla að mesta kynlöngunin sé á öllum þessum tímabilum (sjá í Van Goozen, Wiegan, Endert, Helmond og Van de Poll, 1997). Abplanalp o.fl. (1979) fengu þær niðurstöður að kynlíf fólks hefði jafna dreifingu yfir tíðahringinn og tengdist ekki magni kynhormóna kvenna (sjá í Van Goozen, Wiegan, Endert, Helmond og Van de Poll, 1997). Nýleg vitneskja hefur rennt stoðum undir það að karlhormón (androgen) skipti líklega meira máli en kvenhormónið östrogen fyrir kynlífsvirkni kvenna. Rannsókn Van Goozen o.fl. (1997) sýndi að magn karlhormónsins testosteróns var tengt kynlöngun og kynlífsvirkni.

Það virðist vera algengara að skoða kynlífsáhuga kvenna fyrir blæðingar en eftir þær. Þær rannsóknir byggjast á því að skoða svokallaða fyrirtíðaspennu (premenstrual syndrome). Rannsókn Van Goozen o.fl. (1997) sýndi að þær konur sem voru með fyrirtíðarspennu fannst þær hafa mesta löngun til kynlífs á miðju tíðatímabili en konur sem ekki höfðu einkenni fyrirtíðaspennu höfðu mesta kynlöngun fyrir blæðingar.

Miriam Stoppard (1992) nefnir margar ástæður þess að kona hafi ekki áhuga á kynlífi. Það geta verið neikvæð viðhorf til kynlífs sem byggjast á uppeldislegum þáttum þar sem lögð hefur verið áhersla á það að kynlíf væri eitthvað óhreint eða dónalegt. Það getur stafað af þekkingarskorti á kynlífi sem hindrað getur eðlilega löngun til kynlífs. Eins getur erfið kynlífsreynsla í uppvexti valdið því að konan á erfitt með að gefa sig að kynlífi. Jafnframt hefur það sýnt sig við meðferð kynlífsvandamála að það sem hamlar fólki að lifa eðlilegu kynlífi er að það hefur ekki getað rætt á eðlilegan hátt við maka/vin sinn um kynlífið. Til þess að vita nægjanlega vel hvað hinn aðilinn vill þarf fólk að geta rætt saman um langanir, tilfinningar og það sem það vill ekki í kynlífi. Góð tjáskipti um kynlíf eru grundvallaratriði fyrir gott kynlíf.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Tilvitnanir:
  • Biblían (1957). Reykjavík: Prentsmiðjan Oddi hf.
  • Stoppard, M. (1992). Töfrar kynlífsins (Guðrún Björk Guðsteinsdóttir, Hálfdán Ómar Hálfdánarson, Sverrir Konráðsson, þýddu). Reykjavík: Bókaútgáfan Örn og Örlygur hf.
...