Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Með tíðahvörfum er átt við síðustu blæðingar kvenna en áður en þau verða fer að draga úr framleiðslu hormónanna estradíóls og prógesteróns í eggjastokkum. Eftir tíðahvörf hætta blæðingar og slímhimnan í legi og leggöngum rýrnar.
Á síðfósturskeiði verða eggfrumur til við meiósuskiptingu og við fæðingu eru meybörn og önnur kvenkynsungviði af meiði spendýra með ákveðinn fjölda eggfruma. Þetta þekkist einnig hjá nokkrum öðrum tegundum hryggdýra. Lengi var talið að kvendýr annarra spendýrategunda en mannsins gætu haft egglos alla sína ævi. Þar af leiðandi gætu þau einnig getið af sér afkvæmi svo lengi sem ævin entist. Líffræðingar telja að vegna þess hversu mannsævin hefur lengst á síðastliðnum árþúsundum nái kvenfólk að klára eggjaskammtinn sinn ólíkt öðrum spendýrum og lifa í nokkra áratugi án þess að hafa blæðingar. Það mun vera gott samband á milli líkamsstærðar og langlífis en dýr sem eru áþekk manninum að stærð lifa mun skemur.
Það er þó þekkt meðal dýra sem eru í haldi manna, svo sem í dýragörðum, að kvendýr hinna ýmsu tegunda spendýra sem auðnast að ná mjög háum aldri verða ófrjó síðustu æviárin. Rannsóknir á villtum háhyrningum (Orcinus orca) hafa sýnt að kýrnar ganga í gegnum tíðahvörf og lifa umtalsvert lengi ófrjóar. Jafnvel lengur í árum talið en meðalkvenmaðurinn. Simpansar, sem er sú tegund sem er einna skyldust manninum, eru alls ekki eins langlífir og menn. Nærri 90% kvenapa ná vart hærri aldri en fertugt.
Háhyrningar (Orcinus orca).
Í rannsókn sem Melissa Emery Thompson, prófessor við Harvard-háskóla, stóð að var fylgst með fæðingaraldri 185 simpsansakerlinga í nokkra áratugi. Alls náðu 34 þeirra að lifa fram yfir fertugt og 17 þeirra gátu af sér unga. Elsta móðirin gat unga þegar hún var 55 ára gömul! Thompson túlkar þetta á þá leið að frjósemin minnki jafnt og þétt með aldrinum.
Önnur rannsókn, sem birt var fyrr á þessu ári (2010) af líffræðingnum Hawkes, þar sem samanburður var gerður á eggfrumubúskap milli manna og simpansa sýnir að jafnhratt gengur á eggjafjölda þessara tegunda en elsta simpansakvendýrið sem hópurinn fylgdist með var 47 ára gömul þegar hún fæddi unga. Niðurstaða Hawkes og félaga var sú að simpansar deyja einfaldlega áður en þeir koma að tíðahvörfum. Þetta styður upprunalegu tilgátuna um að skýringin á því að kvenfólk gengur í gegnum tíðahvörf er einfaldlega aukin lífslengd manna.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Emery Thompson, M, RM Stumpf, and AE Pusey (2008). Female reproductive strategies and competition in apes. International Journal of Primatology 29: 815-821.
Emery Thompson, M, JH Jones, AE Pusey, S Brewer-Marsden, J Goodall, D Marsden, T Matsuzawa, T Nishida, V Reynolds, Y Sugiyama, and RW Wrangham (2007). Aging and fertility patterns in wild chimpanzees provide insights into the evolution of menopause. Current Biology 17: 2150-2156.
Finn C.A. Reproductive ageing and the menopause. Int. J. Dev. Biol. 45: 613-617 (2001). UBC Press.
Hawkes E. of. Grandmothering, menopause, and the evolution of human life histories. Proc Natl Acad Sci U S A. 1998 Feb 3;95(3):1336-9.
Hawkes, K & KR Smith. 2010. Do women stop early? Similarities in fertility decline between humans and chimpanzees. Ann NY Acad Sci doi: 10.1111/j.1749-6632.2010.05527.
Ward J. E. The role of menopause and reproductive senescence in a long-lived social mammal. Frontiers of zoology 6:4.
Geta dýr, svo sem simpansar, af sér afkvæmi fram í rauðan dauðann? Þessi spurning kviknar í kjölfar umræðna á því að mannfólk, flest í það minnsta, fæðir afkvæmi á ákveðnu tímabili lífs síns og reynir svo að hafa það „huggulegt“ og eyða tímanum í sjálft sig þegar afkvæmin eru vaxin úr grasi. Er einhver hliðstæða við þetta í dýraríkinu?
Jón Már Halldórsson. „Eru konur einu dýrin sem fara í gegnum tíðahvörf, hvað með önnur spendýr eins og simpansa?“ Vísindavefurinn, 15. nóvember 2010, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=56998.
Jón Már Halldórsson. (2010, 15. nóvember). Eru konur einu dýrin sem fara í gegnum tíðahvörf, hvað með önnur spendýr eins og simpansa? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=56998
Jón Már Halldórsson. „Eru konur einu dýrin sem fara í gegnum tíðahvörf, hvað með önnur spendýr eins og simpansa?“ Vísindavefurinn. 15. nóv. 2010. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=56998>.