Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Frá sjónarhóli þróunarfræðinnar eru prímatar eða mannapar afar ungur hópur spendýra. Talið er að fyrstu "sönnu" prímatarnir hafi komið fram á miðju Paleósen-tímabilinu fyrir um 60 milljónum ára eða stuttu eftir að risaeðlurnar dóu út. Þessir forfeður apa nútímans líktust frekar íkornum en öpum því þeir voru mjög litlir og hegðuðu sér líkt og nagdýr, samanber myndina hér á eftir. Einn meginmunurinn á þeim og hefðbundnum nagdýrum var sá að þeir höfðu framfótapar sem þeir notuðu til að þess að klifra og grípa utan um hluti.
Fornlíffræðingar telja á þeim milljónum ára sem á eftir komu hafi svokölluð tegundaútgeislun orðið mikil meðal smávöxnu frumapanna, en það merkir að tegundum hafi fjölgað mjög út frá þeim fyrstu. Þeir telja að þessar tegundir hafi breiðst hratt út enda hafi þær haft betur í samkeppni við aðra hópa spendýra og jafnvel fugla um sess eða vist (niche) í vistkerfum miðlægra svæða á jörðinni. Steingervingafræðingar hafa greint um 60 ættkvíslir í tveimur ættum, Adapidea og Omomydidea, frá þessu tímabili.
Hægt er að greina nokkrar mikilvægar breytingar á frumöpum í lok Ólígósen-skeiðsins fyrir rúmum 35 milljónum árum. Breytingarnar fólu meðal annars í sér að þeir fengu stærri heila og minna trýni og fóru því að minna meira á apa nútímans. Síðast en ekki síst urðu miklar breytingar á beinagrindinni. Gatið þar sem mænan gengur inn í hauskúpuna (Foramen magnum) færðist frá aftanverðum hnakkanum inn að miðri hauskúpunni að neðanverðu eins og hjá mannöpum nútímans og það gerði þeim kleift að ganga á afturfótunum. Þessi færsla sést glöggt á myndinni hér á undan.
Við lok Eósen-skeiðsins er ekki hægt að finna mikið af leifum þessara frumapa í jarðlögum. Fræðimenn telja ástæðuna vera að þróaðri tegund apa hafi komið fram á þessum tíma. Þeir apar líktust mjög þeim smáöpum sem búa í frumskógum í dag. Tvær ættkvíslir þessara apa, Apadium og Aegyptopithecus hafa verið rannsakaðar. Dýrin í þessum ættkvíslum voru talsvert stærri en fyrirrennarar þeirra eða allt frá 3 til 10 kg að þyngd. Þau voru fræ- og ávaxtaætur og lifðu í þéttum skógum.
Í steingervingasögu prímata eru margar eyður. Ein þeirra er tímabilið sem var fyrir 31 til 35 milljónum árum. Fyrir 15 til 30 milljón árum fóru að koma fram apategundir sem minna mjög á þá smáapa sem lifa í skóglendi Afríku og suðurhluta Asíu í dag.
Míósen-tímabilið sem var fyrir 8 til 15 milljónum ára er sérstaklega áhugavert. Á því tímabili varð loftslagið þurrara sem leiddi til þess að skóglendi dróst saman og gresjur stækkuðu víða í Afríku og í Asíu. Afleiðingarnar urðu þær að margar apategundir neyddust til þess að takast á við lífsbaráttuna á savanna-sléttunum þar sem rándýr voru hverju strái.
Fræðimenn telja að þessar miklu sviptingar sem urðu á umhverfi apanna hafi ýtt undir það að þeir fóru að standa á afturfótunum. Sá eiginleiki var nauðsynlegur til þess að hafa betri yfirsýn yfir umhverfi sitt og forðast rándýr sléttunnar.Mataræði þeirra breyttist líka talsvert. Hinir svokölluðu sléttuapar fóru að borða tormeltari fæðu eins og fræ og hnetur sem kröfðust sterkari kjálka.
Á þessu tímabili kom fram tegundin Sivapithecus í Asíu. Fræðimenn telja að hún sé forfaðir orangútan-apa nútímans. Rannsóknir steingervingafræðinga benda til þess að á sléttum austur Afríku hafi fyrir 10 milljónum ára verið á ferli api sem heitir á fræðimáli Dryopithecus og var sameiginlegur forfaðir simpansa, górilluapa og manna. Apinn sá var svipaður að stærð og simpansi. Talið er að simpansar og górilluapar annars vegar og forfeður manna hins vegar hafi skilist að og þróast hvor í sína áttina fyrir um 8 til 10 milljónum ára.
Í nóvember árið 1974 fundu Donald Johanson og Tom Gray 3,2 milljón ára gamlar jarðneskar leifar Lucyar í Eþíópíu. Hluti af höfuðkúpu hennar er sýndur á myndinni hér til hliðar. Margir telja að Lucy sé einn merkasti fornleifafundur sögunnar. Á þeim tíma var Lucy elstu minjar um tvífætta mannveru sem fundust höfðu. Lucy var af tegund mannapa sem hefur verið nefndur suðurapinn (Australopithecus afarensis). Rannsóknir á beinagrindum mannapanna sýna að þeir voru komnir með hlutfallslega stóran heila, stærri en górilluapar eru með í dag. Allt bendir til þess að mannaparnir hafi aðallega sótt í að éta jurtir líkt og forverar þeirra og aðrir sléttuapar. Þeir lögðust þó einnig í kjötát en hafa sennilega oftast lagst á hræ sem stærri rándýr höfðu veitt sér til matar.
Frummenn þróuðust tiltölulega hratt á þeim milljónum ára sem eftir fylgdu. Fyrir 3 til 2 milljónum ára birtust á sjónarsviðinu tegundir sem hafa valdið fræðimönnum nokkrum heilabrotum.
Næsta stökk í þróun mannsins var tilkoma ættkvíslarinnar Homo fyrir 2 milljónum ára. Munurinn á jarðneskum leifum Homo habilis (H. erectus) og austurapanna (Australopithecus) felst fyrst og fremst í hlutfallslega stærri heila og göngulagi sem var farið að líkjast okkar göngulagi. Síðast en ekki síst bjó Homo habilis yfir kunnáttu til þess að nota áhöld og vopn. Við sem erum af tegundinni Homo sapiens erum síðasta grein þessarar ættkvíslar eins og myndin að ofan sýnir.
Mynd 4: Savage, Joy. M, Evolution, third edition. Holt, Rinehart and Winston, New York, 1977.
Jón Már Halldórsson. „Hvað geturðu sagt mér um þróun apa?“ Vísindavefurinn, 14. febrúar 2002, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2115.
Jón Már Halldórsson. (2002, 14. febrúar). Hvað geturðu sagt mér um þróun apa? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2115
Jón Már Halldórsson. „Hvað geturðu sagt mér um þróun apa?“ Vísindavefurinn. 14. feb. 2002. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2115>.