Nei. Orðið himnaríki merkir yfirleitt stað utan þess heims eða þess hluta heimsins sem við þekkjum, þar sem allir menn eða einhver hópur manna hafnar eftir jarðlífið, og verður eilíflega hamingjusamur. Spyrjandi hefur væntanlega þessa merkingu í huga. Himnaríki er þannig sett fram sem eins konar andstæða þess heims sem fólk býr í, þar sem manneskjur eru oft en þó ekki alltaf daprar, leiðar, hræddar, pirraðar, reiðar. Og sumar manneskjur í þessum heimi eru svo alvarlega ósáttar við veru sína eða líðan að þær svipta sig lífi. Því mætti segja að ein af hvötunum að baki hugmyndum um himnaríki sé eðlileg og skiljanleg von um betri líðan. Deila má um hvort hægt sé að afsanna tilvist himnaríkis með þekktum vísindalegum aðferðum eða hvort slíkt væri á verksviði vísindanna. En við höfum engin haldbær rök fyrir því heldur að staðurinn sé til, engar rannsóknir hafa leitt hann í ljós. Hamingja mannanna virðist þar að auki háð fleiru en staðháttum. Trúaðir menn geta hins vegar sagst vera vissir um tilvist Himnaríkis en trúarleg vissa hefur ekki endilega neitt með venjulegar staðreyndir mála að gera.
Sjá ennfremur svar sama höfundar við spurningunni: Getur verið að háskólamenn líti svo á að það sem þeir ekki viti nóg um tali þeir ekki um og það sem þeir vita ekkert um sé ekki til? svar Róberts Haraldssonar við spurningunni: Er til einhver guð, annars staðar en í hausum fólks? svar Hjalta Hugasonar við spurningunni: Hvað gerist ef vísindin sanna að Guð er ekki til og var aldrei til? og svar Péturs Péturssonar við spurningunni: Er líf eftir dauðann?
Mynd eftir Sanzio Raffaello frá: Barewalls.com