Þar sem meðalhiti frá miðbaugi lækkar í átt að norðurpólnum má búast við að stærsti jökull Íslands sé á Norður-Íslandi en Vatnajökull er á Suður-Íslandi. Hver er skýringin á þessu?Jöklar myndast þar sem veðurfar er slíkt árum saman, að snjóa setur meir að vetri en nær að leysa að sumri. Stærstu jöklar á Íslandi eru á suður- og miðhálendinu vegna þess að mesti hluti úrkomu berst til landsins með suðlægum vindum frá Norður-Atlantshafi. Rakt loft berst inn á suðurströndina og rís snöggt þegar það mætir fjöllum, og kólnar svo að vatnsgufa þéttist, ískristallar myndast, regn og snjór fellur til jarðar. Á toppi stærstu jökulhvelanna er meðalhiti undir eða nærri frostmarki allan ársins hring og mestur hluti úrkomunnar fellur sem snjór. Ofan við hjarnmörk í 1100-1300 m hæð nær ekki allan snjó að leysa að sumri og þaðan skríður því ís niður á jökulsporðana. Rúmlega helmingur af yfirborði jöklanna nær yfir hjarnmörkin, en einungis um 10% af botni þeirra, svo að ef jöklarnir hyrfu kæmu þeir ekki aftur við núverandi loftslag. Þá yrðu einungis smájöklar eftir á hæstu fjallstoppum.
- Meðalúrkoma ársins 1971-2000 - Veðurstofa Íslands. (Sótt 11.8.2022).
- Kort af mánaðarmeðalhita á Íslandi 1961 - 1990 - Veðurstofa Íslands. (Sótt 12.8.2022).