Þykkt jökulsins hefur verið mæld með svokallaðri íssjá sem mælir tímann sem það tekur rafsegulbylgju að berast frá yfirborði niður á jökulbotn og til baka upp á yfirborð eftir að hún hefur endurkastast frá botninum. Við þekkjum hraða bylgjunnar og getum því reiknað vegalengdina sem hún fór um ísinn og fundið þykkt hans. Íssjáin er dregin af snjóbíl eða vélsleða eftir jöklinum og ísþykktin er skráð samfellt á ljósmyndafilmu. Alls hafa verið eknar um 10,000 km langar mælilínur á Vatnajökli, að jafnaði með 200 m til 1 km millibili. Í upprunaleg spurningunni var einnig spurt um aldur Vatnajökuls. Í svari sama höfundar við spurningunni Hversu hratt mun Vatnajökull bráðna á næstu árum? kemur fram að jökullinn myndaðist við mun kaldara loftslag en nú er hér á landi og er talið að það hafi verið fyrir um 2500 árum. Hins vegar er elsti ís í jöklinum í dag ekki svo gamall því eins og fram kemur í svari Sigurðar Steinþórssonar við spurningunni Hvað er líklegt að ísinn neðst í Vatnajökli sé gamall? er ólíklegt að undir Vatnajökli sé að finna eldri ís en frá því um 1100. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Hvernig myndast jöklar? eftir Ólaf Ingólfsson
- Ef Vatnajökull myndi hverfa á morgun hvað mundi land undir honum rísa mikið og á hvað löngum tíma? eftir Freystein Sigmundsson
- Hve stór hluti landsins er hulinn jöklum? eftir Ulriku Andersson
- Hver verður líkleg staða jökla hérlendis eftir 50 ár miðað við óbreytta þróun? eftir Helga Björnsson
Í heild hljóðaði spurningin svona:
Hvert er rúmmál Vatnajökuls talið vera og hversu gott er það mat? Hvað er jökullinn gamall?