Hvað er líklegt að ísinn neðst undir Vatnajökli sé gamall? Gæti hann verið frá því á landnámsöld?Sumarið 1972 náðu starfsmenn Raunvísindastofnunar Háskólans og félagar í Jöklarannsóknafélagi Íslands borkjarna úr jökulís Bárðarbungu. Því miður náði borinn ekki lengra en niður á 415 m dýpi. Kjarninn var aldursákvarðaður með gjóskulögum og reyndist botninn vera frá árinu 1650. Síðar könnuðu Guðrún Larsen og Magnús Tumi Guðmundsson gjóskulög sem upp koma í hinum ýmsu skriðjöklum Vatnajökuls: Brúarjökli, Tungnárjökli, Dyngjujökli og Skeiðarárjökli, og þar er elsta greinanlega gjóskulagið frá því um 1150. Neðan við það lag er eldri ís, en svo gruggugur og óhreinn að ekkert verður í hann ráðið.
- Guðrún Larsen, Magnús Tumi Guðmundsson og Helgi Björnsson (1998). Eight centuries of periodic volcanism at the center of Iceland hotspot revealed by glacier tephrostratigraphy. Geology 26: 943-946.
- Sigurður Steinþórsson (1982). Gjóskulög í jökulkjarna frá Bárðarbungu. Eldur er í norðri. Sögufélag, Reykjavík 1982, bls. 361-368.
- Mats Icelandic Image Library © Mats Wibe Lund. Birt með góðfúslegu leyfi.