Jöklar verða til, þar sem meiri snjór safnast fyrir árlega en regn og sumarhlýindi ná að leysa. Sá snjór, sem eftir verður af snjómagni hvers árs, nefnist snjófyrningar. Mörk milli snjófyrningasvæða og auðra svæða nefnast snælína, og er hún oft skýrt afmörkuð á jöklum síðari hluta sumars. Hæð snælínu er háð lofthita og úrkomu. Í heimskautalöndum liggur snælína víða við sjávarmál. Við hvarfbauga er hún hæst eða í 5000-6000 m hæð, en aðeins lægri í hitabeltinu, enda úrkoma mikil þar. Utan heimskautalanda eru jöklar nær eingöngu í fjöllum, enda vel skiljanlegt, þegar þess er gætt, að lofthiti lækkar um 0,5-1°C að meðaltali fyrir hverja 100 m, sem ofar dregur. Óvíða mun það jafngreinilegt og hér á landi, hversu hæð snælínu er háð úrkomu, enda er hæð hennar mjög breytileg eftir landshlutum. Snælína á sunnanverðum Vatnajöklil liggur í 1000-1100 m hæð, en á honum norðanverðum í 1300-1400 m. Á Drangajökli er snælínan í 700-800 m hæð, á Eyjafjarðarsvæðinu í 1200-1400 m, en í Ódáðahrauni yfir 1700 m (Herðubreið (1682 m) er jökullaus). Þessi hæðarmunur er í samræmi við mismun á meðalársúrkomu.Samkvæmt þessu er torskilið hvernig hægt er að „búa ofan snjólínu“, því þar er snjór allan ársins hring.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvað gerist þegar jöklar hopa? eftir Sigurð Steinþórsson
- Ef allir jöklar og bæði heimskautin mundu bráðna, hve mikið mundi sjávarborð þá hækka? eftir Harald Ólafsson og Tómas Jóhannesson
- Jöklar. Sótt 24.3.2010.
Hvað er átt við þegar talað er um að búa ofan snjólínu? Hver er skilgreiningin á snjólínu?