Gos innan Grímsvatnaöskjunnar
Grímsvatnagos sem verða innan öskjunnar eru flest fremur lítil og gosefnin eru yfirleitt minni en 0,1 rúmkílómetri. Algengast er að gosin á þessum stað standi yfir í nokkra daga eða vikur. Síðasta gos í megineldstöðinni varð 2011 og þá komu upp um 0,7 rúmkílómetrar af basískri gjósku. Gos af þeirri stærð virðast koma sjaldnar en einu sinni á öld. Árið 1873 var gos sem svipaði til gossins 2011. Um gos sem verða í megineldstöðinni er hægt að lesa meira í svari við spurningunni Hvers konar gos verða í Grímsvötnum?Gos utan Grímsvatnaöskjunnar
Norðan Grímsvatna er gosrein sem virðist gjósa 1-2 sinnum á öld. Gosin á þessum stað eru miklu stærri en venjuleg Grímsvatnagos. Tvö gos í Gjálp á 20. öld voru af þessari gerð, árin 1938 og 1996. Í Gjálpargosinu 1996 komu upp um 0,45 rúmkílómetrar af kviku og um 0,3 rúmkílómetrar komu upp í gosinu 1938.[1]Gos utan Grímsvatnaöskjunnar á íslausa hlutanum
Suðvestan Vatnajökuls er sprungurein sem hefur gosið fjórum eða sex sinnum frá því að jöklar hurfu af svæðinu. Eina sögulega gosið á þessari sprungurein eru Skaftáreldar. Það var annað stærsta flæðibasaltgos Íslandssögunnar. Í því gosi komu upp um 15 rúmkílómetrar af hrauni. Hægt er að lesa meira um gos utan Grímsvatnaöskjunnar í svari við spurningunni Hvað er vitað um gos í Grímsvötnum sem verða utan Grímsvatnaöskjunnar? Tilvísun:- ^ Um Gjálparsvæðið er það segja að gosið árið 1996 stýrðist greinilega af Bárðarbungu. Innskot kom þá úr norðri inn í Grímsvatnakerfið. Gosefnin sem upp komu voru hins vegar einkennandi fyrir Grímsvötn og hugsanlega hefur innskotið úr Bárðarbungu því hitt á kviku sem þarna var fyrir.
- Íslensk eldfjallavefsjá. (Sótt 2.12.2021).
- Ólafur Sigurjónsson frá Forsæti tók myndina 21. maí 2011. Myndin er fengin af vefnum Íslensk eldfjallavefsjá.