Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Nær öll dýr sem finnast á Íslandi í dag námu land eftir síðustu ísöld.[1] Staðsetning landsins í miðju Atlantshafi er ekki mjög heppileg fyrir landnám dýra[2] en landnám og búseta manna með tilheyrandi búfénaði, varningi og verslun við önnur lönd hefur auðveldað nýjum dýrategundum að berast til landsins. Öldum saman var þetta þó smávægilegt miðað við mikla aukningu í ferðalögum, verslun og innflutningi frá og með síðari hluta 20. aldar. Þá hófst mikill innflutningur á timbri og öðrum lífrænum efnum, þar með talið plöntum. Samfara því hefur fjöldi nýrra tegunda skotið upp kollinum hérlendis á síðustu 50 árum, þar með talið maurar eins og fram kemur í svari sömu höfunda við spurningunn Hafa maurar numið land á Íslandi?
Ágengar tegundir eru þær tegundir lífvera sem berast á ný svæði fyrir tilstilli manna, viljandi eða óvart, og hafa neikvæð áhrif á lífríki þeirra svæða.[3] Samkvæmt skilgreiningu hafa ágengar tegundir yfirleitt mjög neikvæð áhrif á hin nýju heimkynni og koma þeirra leiðir til þess að náttúrulegum tegundum sem fyrir eru hnignar eða þær deyja jafnvel út á svæðinu. Þannig minnka ágengar tegundir líffræðilega fjölbreytni, þrátt fyrir að þær hafi numið ný lönd.
Maurar eiga það til að verða ágengir þegar þeir nema ný landsvæði. Þeir geta haft sérstaklega skaðleg áhrif á aðrar skordýrategundir með samkeppni og afráni. Þar sem maurar eru landlægir hafa skordýrategundir komið sér upp sérhæfðum vörnum gegn þeim. Dæmi um slíkar varnir eru að sum skordýr geta losað af sér útlim ef maur grípur í hann og önnur hafa þróað feluliti til þess að geta fallið inn í umhverfi sitt þegar maurum bregður fyrir. Á svæðum þar sem maurar hafa ekki fundist eða fest sig í sessi, eins og á mörgum eyjum (þar með líka Íslandi), hafa innlendu skordýrin ekki þróað (eða misst) varnir sem þessar. Maurarnir sem nema slík landssvæði eða eyjar geta þá á stuttum tíma útrýmt stórum hluta innlendra skordýrategunda.
Gott dæmi um ágengni maura er frá Hawaii-eyjunum. Í upphafi 19. aldar námu maurar þar land og urðu mjög algengir. Fljótlega tóku stofnar bjalla að dragast saman. Nánari athugun sýndi að bjöllur, sem áður voru útbreiddar á eyjunum, fundust ekki lengur á þeim svæðum þar sem maurar höfðu numið land. En það voru ekki aðeins bjöllurnar sem áttu undir högg að sækja því margar tegundir maura veiða ýmiskonar aðrar skordýrategundir eða geta tekið yfir mikilvægar næringaruppsprettur og búsvæði annarra tegunda. Með þessu móti hafa innfluttir maurar á Hawaii-eyjum stefnt mörgum einlendum[4] tegundum skordýra í beina útrýmingarhættu.
Meðal þeirra tegunda sem maurar hafa leikið grátt á Hawaii eru Thyrocopa apatela (mölflugutegund), Micromus cookeorum (huluvængjutegund) og Plagithmysus terryi (bjöllutegund), einlendar tegundir sem nú finnast eingöngu í 2500-2900 metra hæð yfir sjávarmáli í hlíðum eldfjallsins Haleakala á eyjunni Maui.
Maurarnir hafa ekki einungis áhrif á skordýr, heldur einnig fugla. Þekkt er að þeir bíti fætur fugla og geta endurtekin bit leitt til þess að fugl missi hreinlega tær. Dæmi eru um að maurar ráðist einnig á nýklakta unga. Þannig hafa maurar leitt til hnignunar á stofnum fuglategunda (Puffinus pacificus og Branta sandvicensis meðal annarra). Í vissum tilfellum geta maurar meira að segja haft áhrif á útbreiðslu plantna. Mikilvæg næring margra maurategunda er hunangsdögg, sem er sykurríkur úrgangur blaðlúsa. Þess vegna reyna maurar að verja blaðlýs fyrir rándýrum með þeim afleiðingum að blaðlýsnar geta fjölgað sér meira. Þetta er auðvitað slæmt fyrir plönturnar þar sem blaðlýs nærast á plöntuvessa og geta borið sýkingar í hýsilplönturnar.
Alls hafa um 40 maurategundir greinst á Hawaii-eyjum en þeir hópar sem eiga mestan þátt í þessari útrýmingu eru eldmaurar (Solenopsis sp.) og argentínumaurar (Linepithema humile). Blessunarlega hefur hvorugur þessara hópa maura borist til Íslands.[5]
Argentínumaurar (Linepithema humile) eru meðal þeirra maurategunda sem hafa komið sér vel fyrir á Hawaii og haft mikil áhrif á skordýralíf.
Tegundir ágengra maura hafa verið kallaðir „flökkumaurar“ (e. „tramp ants“). Einkenni slíkra tegunda eru margar drottningar, búin fjölga sér með eins konar knappskotum (e. budding), og tegundirnar hafa dreifst um heiminn með aðstoð mannsins og lifa í nánu sambandi við hann.[6] Þrjár þeirra maurategunda sem hér hafa náð fótfestu teljast til „flökkumaura“, það er faraómaurar (Monomorium pharaonis), draugamaurar (Tapinoma melanocephalum) og húsamaurar (Hypoponera punctatissima).[7] Allar tegundirnar þrjár eru taldar koma upphaflega frá hitabeltissvæðum en hafa nú dreifst um allan heiminn.[8] Á heimsvísu eru þessar tegundir þekktar og skilgreindar sem ágengar þar sem þær hafa slæm áhrif á staðbundna skordýrastofna. Allar tegundirnar þrjár hafa til dæmis valdið óskunda á Hawaii-eyjum. Óvíst er að það sama gildi um þessar tegundir á Íslandi. Bú þeirra hafa einungis fundist innanhúss í þéttbýli, fyrir utan að bú húsamaura hafa líka fundist á jarðhitasvæðum. Þetta þýðir að tegundirnar þrjár eru enn bundnar við mjög takmarkað útbreiðslusvæði og þannig geta þær ekki ógnað íslenskum skordýrastofnum. Þessar tegundir mætti því telja óágengar á Íslandi þrátt fyrir að vera taldar til ágengustu maurategundanna á heimsvísu.
Fjórða tegundin sem hefur náð fótfestu á Íslandi er blökkumaurinn (Lasius niger). Blökkumaurar koma upphaflega frá Evrasíu en hafa breiðst út um Asíu og Norður-Ameríku. Þeir teljast ekki til flökkutegunda þar sem þeir hafa einungis eina drottningu í búum sínum sem dreifa sér ekki með knappskotum. Blökkumaurar eru taldir minna ágengir en ofangreindu tegundirnar þrjár, á heimsvísu.
Blökkumaur (Lasius niger) við veiðar.
Blökkumaurar hafa fundist utandyra á svæðum við 64°N upp eftir ströndum Noregs og Eystrasaltsins.[9] Á þessum svæðum er loftslagið mjög svipað því sem gerist á Íslandi. Nýlega fundust bú blökkumaura utandyra á Íslandi. Athugun á vegum Háskóla Íslands sýndi fram á að þeir geta lifað og ef til vill dafnað og fjölgað sér utandyra hér á landi, að minnsta kosti í görðum. Ef maurarnir geta lifað utandyra er ekki loku fyrir það skotið að þeir ógni íslenskum skordýrastofnum. Þegar þetta svar er skrifað, í júní 2021, hefur ekkert komið fram sem bendir til að blökkumaur sé ágeng tegund á Íslandi. Hækkun umhverfishita gæti breytt því, en það verður að koma í ljós. Engu að síður er mikilvægt að fylgjast vel með þeim, kortleggja útbreiðslu þeirra og rannsaka áhrif þeirra á umhverfi sitt.
Því er ekki hægt að segja að maurar séu ágengir á Íslandi. Áhrifin sem maurar hafa haft á íslenska náttúru hingað til eru hverfandi lítil og er ólíklegt að þetta muni breytast á næstu árum. Eina raunverulega hættan er að blökkumaurar verði ágengir, til dæmis ef þeim tekst að lifa af og fjölga sér á komandi árum. Hins vegar hafa bú blökkumaura aðeins eina drottningu og er því mjög auðvelt að eyða þeim. Þess vegna þarf líklega ekki að hafa miklar áhyggjur af útbreiðslu þeirra.
Samantekt:
Maurar með vissa eiginleika geta verið ágengar tegundir.
Tegundir svonefndra „flökkumaura“ hafa leikið skordýralíf á eyjum grátt, til dæmis á Hawaii.
Hér á landi finnast þrjár tegundir flökkumaura, en ólíklegt er að þeir verði ágengir hérlendis.
Tilvísanir:
^ Merkilegasta undantekningin eru grunnvatnsmarflær sem búa í ferskvatnslindum/neðanjarðar-kerfum á gosbeltinu, Hvað eru einlendar dýrategundir?
Passera, L. (1994). Characteristics of Tramp Species. In Williams, D. F. (Ed.), Exotic Ants. Biology, Impact and Control of Introduced Species (pp. 23-43). Westview Press.
Seifert, B. (2020). A taxonomic revision of the Paleartic members of the subgenus Lasius s. str. (Hymenoptera: Formicidae). Soil Organisms, 92(1), 15-86.
Wetterer, J. K. (2009). Worldwide spread of the ghost ant, Tapinoma melanocephalum (Hymenoptera: Formicidae). Myrmecological News 12, 23-33.
Wetterer, J. K. (2010). Worldwide spread of the pharaoh ant, Monomorium pharaonis (Hymenoptera: Formicidae). Myrmecological News 13, 115-129.
Krushelnycky, P. D., Loope L. L. og Reimer N. J. (2005). The Ecology, Policy, and Management of Ants in Hawaii. Proceedings of the Hawaiian Entomological Society 37:1–25. (Sótt 4. 2 2021).
Áhugasömum lesendum má benda á síðuna Maurar á Íslandi þar sem finna má frekari fróðleik um maura. Einnig má benda á stutt myndskeið, Búa maurar undir Reykjavík? þar sem tveir höfundar þessa svars fjalla maura á Íslandi.
Marco Mancini, Andreas Guðmundsson og Arnar Pálsson. „Eru maurategundir ágengar á Íslandi?“ Vísindavefurinn, 14. júlí 2021, sótt 3. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=82063.
Marco Mancini, Andreas Guðmundsson og Arnar Pálsson. (2021, 14. júlí). Eru maurategundir ágengar á Íslandi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=82063
Marco Mancini, Andreas Guðmundsson og Arnar Pálsson. „Eru maurategundir ágengar á Íslandi?“ Vísindavefurinn. 14. júl. 2021. Vefsíða. 3. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=82063>.