….fór að brydda á inflúensu hér og hvar í bænum í júlí, ágúst og september, og veikin var mjög væg á flestum, og hægt fór hún, tók óvíða nema mann og mann á stangli, einn eða tvo á heimili. Þó var það hjá þrem fjölskyldum, sem ég var sóttur til, að hún tók alla. Að þetta var sama veikin og seinna barst hingað í októbermánuði, ber það atvik ljósan vott að mínu áliti, að enginn af þeim, sem veiktust um þetta leyti, fengu veikina þegar hún síðar komst í algleyming. Eg hefi gert mér far um að grenslast eftir þessu.[1]Er önnur bylgja veikinnar reið yfir hafði veikin breytt um ásýnd - úr fremur hefðbundinni flensu í drepsótt þá sem við tengjum alla jafna við hina eiginlegu spænsku veiki. Telja má nokkuð víst að þeir sem lifðu þá veiki af voru varðir fyrir veikindum af völdum sömu veiru, líkt og þeir sem veiktust í fyrstu bylgjunni. Eins og kunnugt er tókst að stöðva útbreiðslu annarrar bylgju veikinnar til Norður- og Austurlands og voru því líklega allmargir íbúar þessara svæða enn óvarðir er hún var um garð gengin á Suður- og Vesturlandi. Hvað sem þessu líður er ljóst að þriðja bylgja veikinnar vorið 1919 var ekki slæm hér á landi. Raunar hefur ekki verið sýnt fram á neina aukningu í dauðsföllum vegna inflúensu á Íslandi árin 1919-1920, ólíkt því sem ef til vill hefði mátt vænta. Hins vegar eru til lýsingar frá stöðum sem sluppu við veikina 1918 á afar alvarlegri inflúensu sem geisaði sumarið 1921.

Mynd 1: Morgunblaðið kom ekki út í 11 daga í nóvember árið 1918 vegna spænsku veikinnar. Þegar blaðið kom aftur út þann 17. nóvember var forsíða blaðsins tileinkuð fórnarlömubum veikinnar með fyrirsögninni „Sóttin mikla“.

Mynd 2: Veikindi af völdum inflúensu á Íslandi, í Bandaríkjunum og Danmörku, árin 1915-2009. Árstíðabundin vetrarinflúensa hér á landi sýndi aðeins lauslega fylgni við nágrannalöndin fram til ársins 1930 en eftir það jókst fylgnin og inflúensa varð nokkuð árviss að vetri til, en talsverð töf gat verið á komu hennar hingað til lands. Þessi töf styttist síðan jafnt og þétt og var nánast úr sögunni á tíunda áratug 20. aldar (grófar punktalínur við árið 1930 og 1995). Heimsfaraldrar með nýjum stofnum inflúensuveira komu fram árin 1918 (spænska veikin), 1957 (asíuflensan) og 1968 (hong kong-flensan) (fínar punktalínur við árið 1918, 1957 og 1968). Eins og sjá má voru sveiflurnar orðnar afar svipaðar og samstilltar í löndunum þremur á síðustu árum 20. aldar. Hið reglubundna og árvissa mynstur sýnir jafnframt að fullkomnu hjarðónæmi er ógerningur að ná gegn árstíðabundinni inflúensu, því að umbreyttir stofnar koma reglubundið fram. Hins vegar er unnt að draga úr skaðanum sem hlýst af árstíðabundinni inflúensu með bólusetningum. Tölurnar á y-ásnum eru mánaðarleg tilfelli, leiðrétt fyrir ytri þáttum og umbreytt með ferningsrótarvörpun. Myndin er fengin úr heimild 4.
- Þórður Thoroddsen. Inflúensan fyrrum og nú. Læknablaðið 1919; 5:13-23 og 74-9. Nýja útgáfu að greininni má finna á slóðinni: https://www.laeknabladid.is/tolublod/2018/10/nr/6847
- Magnús Gottfreðsson, Bjarni V. Halldórsson, Stefán Jónsson, Már Kristjánsson, Kristleifur Kristjánsson, Karl G. Kristinsson, Arthur Löve, Thorsteinn Blöndal, Cécile Viboud, Sverrir Thorvaldsson, Agnar Helgason, Jeffrey R. Gulcher, Kári Stefánsson, Ingileif Jónsdóttir. Lessons from the past: familial aggregation analysis of fatal pandemic influenza (Spanish flu) in Iceland in 1918. Proc Natl Acad Sci USA. 2008 Jan 29;105(4):1303-8. doi: 10.1073/pnas.0707659105.
- Magnús Gottfreðsson. Spænska veikin á Íslandi 1918. Lærdómur í læknisfræði og sögu. Læknablaðið 2008; 94: 737-745. Sjá slóðina: https://www.laeknabladid.is/media/tolublod/1399/PDF/f03.pdf
- Daniel M. Weinberger, Tyra Grove Krause, Kåre Mølbak, Andrew Cliff, Haraldur Briem, Cécile Viboud, Magnús Gottfreðsson. Influenza epidemics in Iceland over 9 decades: changes in timing and synchrony with the United States and Europe. Am J Epidemiol. 2012 Oct 1;176(7):649-55. https://doi.org/10.1093/aje/kws140
- Morgunblaðið - 7. tölublað (17.11.1918) - Tímarit.is. (Sótt 10.02.2021).
- Graf: Daniel M. Weinberger, Tyra Grove Krause, Kåre Mølbak, Andrew Cliff, Haraldur Briem, Cécile Viboud, Magnús Gottfreðsson. Influenza epidemics in Iceland over 9 decades: changes in timing and synchrony with the United States and Europe. Am J Epidemiol. 2012 Oct 1;176(7):649-55. https://doi.org/10.1093/aje/kws140