
Myndskreyting við þekkt 16. aldar rit sem sýnir mannát í Brasilíu.
Mannát gæti fræðilega séð unnið gegn tveimur stærstu heimsvandamálum á einu bretti, offjölgun og hungursneyð, svo hvers vegna er mannát ólöglegt? Þ.e.a.s. með hvaða rökfræðilegu rökum (en ekki bara eitthvað „oj bara“ siðfræðivæl) hefur þetta verið bannað?Önnur forsenda spurningarnar er sú að hungursneyð í heiminum stafi af skorti á matvælum á heimsvísu. Það má setja spurningamerki við þá fullyrðingu. Hungursneyð í samtímanum stafar yfirleitt af öðrum orsökum. Stríð og náttúruhamfarir eru yfirleitt orsakirnar og er í raun ekki tæknilega flókið fyrir alþjóðasamfélagið að bregðast við slíkum staðbundnum aðstæðum. Það er ekki skortur á matvælum á heimsvísu. Og það er fátt sem bendir til að gott sé að mæta hungursneyð með kjötáti af jafn rýrum skepnum og manneskjum. Þótt auðvitað finnist þekktar undantekningar þá er vöðvauppbygging okkar ekki sambærileg við þær skepnur sem hafa þróast með okkur í landbúnaði í gegnum árþúsundin. Hin forsendan um að sporna gegn fólksfjölgun er hins vegar allrar athygli verð. Vandamálið við þessa forsendu snertir svo sem ekki mannátið sem slíkt heldur miklu fremur stærri spurningar um hvort okkur leyfist að taka líf annarra manneskja til að mæta tilteknum markmiðum. Hvort slíkt sé réttlætanlegt verður alltaf fyrst og fremst siðferðileg spurning og ekki ljóst hvaða önnur rök geta spilað þar inn í. Einnig þyrfti að svara því hvernig við myndum fella fólk á sem mannúðlegastan máta. Siðferðilegu spurningarnar liggja víða. En þessar efasemdir um forsendur upphaflegu spurningarinnar breyta þó ekki því að það kann að vera áhugavert að leitast við að svara því hvers vegna bann við mannáti er svo víðtækt. Viðhorf sem efast um rökin bakvið bann við mannáti geta verið af ýmsu tagi. Sumir geta sagt það stæka tegundahyggju að leggja sér önnur spendýr til munns en kúgast á sama tíma við tilhugsunina um að borða mannakjöt. Þá getur fólk einnig bent á að það sé fjarri því óþekkt í dýraríkinu að dýr borði einstaklinga af sömu tegund. Mannát hefur þar að auki þekkst í ólíkum menningarsamfélögum. Hver erum við að segja okkar siðmenningu standa öðrum framar? Einnig má nefna að pælingar um að það felist sjúkdómahætta í mannáti skýri ekki hvers vegna okkur býður við því. Slíkar hugmyndir eru tiltölulega nýtilkomnar í sögu mannkyns. Ástæður þess að mannát er siðferðilega rangt – og þar af leiðandi ólöglegt – koma fram í því hvernig við bregðumst við ofangreindum atriðum. Til einföldunar má segja að þessar ástæður séu af tvennu tagi, þótt þær vissulega tengist. Fyrri ástæðan felst í því sem við nefnum „mannhelgi“. Hún felst í því að okkur ber að sýna öðru fólki virðingu, óháð stétt og stöðu, og er nokkurs konar kjölfesta í siðferðislífi okkar. Vissulega kemur það fyrir að erfitt getur reynst að gæta að mannhelginni, til dæmis í stríðsátökum, en þó er reynt – til dæmis með alþjóðlegum samningum – að finna leiðir til þess að öll virðing skolist ekki til.

Mannát í rússnesku hungursneyðinni 1921.
- Human cannibalism - Wikipedia. (Sótt 12.11.2020).
- File:Cannibalism russian famine1921 6 peasants bouzuluk district and remains of humans they eatten.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 12.11.2020).