Líftækni er sérhver tækni þar sem líffræðilegum kerfum, lífverum eða hlutum þeirra, er beitt til að framleiða vörur eða breyta vörum eða vinnuferlum til ákveðinna nota.Líftækni er ekki allskostar ný af nálinni. Egyptar og fleiri þjóðir til forna notuðu gersveppi til að brugga bjór um 6000 árum fyrir upphaf okkar tímatals og ger hefur löngum verið notað við brauðgerð svo dæmi séu tekin. Stundum er þróun landbúnaðar með kynbótum talin til líftækni.

Bjórgerð er einn angi af líftækni sem hefur verið stundaður í þúsundir ára.

Líftækni snýst meðal annars um að lækna heiminn, veita heiminum eldsneyti eða orku og fæða heiminn.
- Að lækna heiminn.
- Að veita heiminum eldsneyti eða orku.
- Að fæða heiminn.
Rauð líftækni snýst um beitingu líftæknilegra aðferða í heilbrigðisvísindum, framleiðslu lyfja svo sem fúkalyfja, bóluefna og mótefna, en einnig þróun lækninga sem byggja á breytingum í erfðamengi sjúklings (genalækningar). | |
Hvít líftækni eða iðnaðarlíftækni, einnig nefnd framleiðslulíftækni, fjallar um notkun örvera eða ensíma við framleiðslu efna. Undir þetta hugtak falla notkun gerfruma við framleiðslu víns, bjórs og brauðs. Enn fremur framleiðsla iðnaðarensíma og örvera og gerð eldsneytis úr endurnýjanlegum hráefnum eins og sterkju. | |
Græn líftækni fjallar um notkun líftækni í landbúnaði. Hér má nefna bæði hefðbundin viðfangsefni á borð við kynbætur plöntuyrkja í frumuræktum en einnig erfðabreytingu plöntuyrkja til að auka þol þeirra gegn til dæmis þurrki eða ágangi skordýra. Gott dæmi eru svokölluð „gullin hrísgrjón“ sem bætt hafa verið með genum páskalilju þannig að þau framleiði beta-karótín sem er forstig A-vítamíns, en skortur á því veldur náttblindu sem er algengur kvilli í Asíulöndum. | |
Blá líftækni snýst um sjávarlífverur. Sjávarlífverur eða afurðir þeirra eru notaðar til framleiðslu nýrra lyfja, innihaldsefna í snyrtivörur og ýmiss konar matvæli og fæðubótarefni. | |
Gul líftækni mætti kalla næringarlíftækni. Hún snýst um nýjar aðferðir til að bæta matvæli og auka næringargildi þeirra. Enn fremur fjallar hún um að losna við ofnæmisvalda og önnur efni sem geta valdið óþoli. | |
Grá líftækni fjallar um notkun lífvera til umhverfisbóta. Hún fjallar um förgun úrgangs, svo sem skólps og sorps, en einnig hreinsun umhverfis af mengunar- og spilliefnum, þar með talin olía og eiturefni. Skólphreinsun þar sem bakteríustofnar eru nýttir til að brjóta niður ýmis næringarefni í skólpi, er dæmi um gráa líftækni. | |
Gyllt líftækni eða lífgagnatækni (e. bioinformatics) snýst um úrvinnslu erfðafræðilegra, sameindalíffræðilegra og lífefnafræðilegra gagna, svo sem við raðgreiningu prótína og kjarnsýra og greiningu genamengja. Undir þetta falla erfðamengjagreining (e. genomics), umritamengjagreining (e. transcriptomics) og prótínmengjagreining (e. proteomics). | |
Brún líftækni snýr að nýtingu þurra svæða og eyðimarka til ræktunar. Í Afríku eru tveir þriðju hlutar lands af þessari gerð og þar býr um helmingur íbúanna. Með erfðabreytitækni má væntanlega ná fram yrkjum gagnlegra jurta sem geta vaxið og gefið af sér verðmætar afurðir á svæðum þar sem regn er af skornum skammti. | |
Fjólublá líftækni er nokkuð annars eðlis því hún snýst um lagaumhverfi tækninnar. Líftækni er umdeild og getur hugsanlega verið hættuleg. Þess vegna er nauðsynlegt að beiting hennar lúti ákveðnum reglum. Hér koma einnig til siðfræðileg álitamál, til dæmis er varða erfðalækningar, dýratilraunir og fleira. | |
Dökk líftækni er svarti sauðurinn í þessu litrófi. Ekki verður fram hjá því litið að ýmislegt í líftækninni felur í sér möguleika á glæpsamlegri starfsemi, beitingu líffræðilegra aðferða í hernaði og hryðjuverkum. Nægir að nefna sjúkdómsvaldandi, smitskæðar og lífseigar örverur í því sambandi. |
- Biotechnology - Wikipedia. (Sótt 23.7.2020).
- What is Biotechnology? | BIO. (Sótt 23.7.2020).
- All the colors of biotechnology — Steemit. (Sótt 23.7.2020).
- European Federation of Biotechnology. (Sótt 23.7.2020).
- The Brewer designed and engraved in the Sixteenth. Century by J Amman.png - Wikimedia Commons. (Sótt 24.7.2020).
- Biotechnology Research | INL scientist Yoshiko Fujita works … | Flickr. Höfundur myndar: Idaho National Laboratory. Birt undir CC BY 2.0 leyfi. (Sótt 24.7.2020).