Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Til þess að verða örverufræðingur þarf að afla sér grunnmenntunar í háskóla, oftast BS-prófs, á einhverju því sviði þar sem örverufræði er stunduð og kennd. Önnur mikilvæg grunnfög eru efnafræði, lífefnafræði, erfðafræði og sameindalíffræði. Síðan þarf að taka meistarapróf og/eða doktorspróf á sviði örverufræði.
Örverufræðingar hafa til dæmis bakgrunn í líffræði, líftækni, sameindalíffræði, matvælafræði, læknisfræði, dýralæknisfræði og lífeindafræði.
Hvaða svið eru þetta? Í Örverufræðifélagi Íslands er fólk sem hefur að grunnmenntun líffræði, líftækni, sameindalíffræði, matvælafræði, læknisfræði, dýralæknisfræði og lífeindafræði. Ekki allir kalla sig örverufræðinga þótt þeir hafi menntun til þess heldur kenna þeir sig oft við það fag sem þeir hafa grunnmenntun á, sérstaklega ef sú menntun gefur rétt á lögvernduðu starfsheiti, en örverufræðingur er ekki lögverndað starfsheiti.
Örverufræðingar fást við margvíslegar rannsóknir, en einnig kennslu og stjórnun. Örverufræðin fjallar um smásæjar lífverur af mörgum gerðum, bakteríur, veirur, sveppi, þörunga og dýr. Þótt örverur séu lífverur sem við sjáum ekki með berum augum, þá eru áhrif þeirra mikil og margvísleg, aðallega til góðs en einnig til ills. Rannsóknir margra örverufræðinga beinast að því að minnka slæmu áhrifin sem þær hafa, svo sem baráttu mannsins við smitsjúkdóma manna og dýra og að koma í veg fyrir að sjúkdómsvaldandi örverur berist í matvæli, svo og að lengja líftíma á matvælum og öðrum varningi, þar sem bakteríur og sveppir koma við sögu.
Örverufræðingar fást meðal annars við margskonar rannsóknir á lífverum sem við sjáum ekki með berum augum.
Sveppir og bakteríur eru rotverur og nauðsynlegur hlekkur í hringrás frumefna svo sem kolefnis og niturs. Áhrif örvera í náttúrunni, mikilvægi í vistkerfi lands og sjávar og samspil við aðrar lífverur eru einnig rannsóknarefni örverufræðinga. Örverur hafa verið notaðar frá alda öðli í iðnaði, svo sem við gerjun matvæla og víngerð, en margir nýir fletir á líftækniiðnaði komu fram á sjónarsviðið á síðustu öld, svo sem framleiðsla örvera á ýmsum efnum og ensímum sem nota má í iðnaði.
Sem dæmi um vinnustaði örverufræðinga hér á landi eru Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Landspítalinn, Keldur og Matís, svo og ýmsar rannsóknarstofur fyrirtækja, sjúkrahúsa og heilbrigðiseftirlits.
Myndir:
Eva Benediktsdóttir. „Hvernig verður maður örverufræðingur?“ Vísindavefurinn, 18. maí 2018, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=75175.
Eva Benediktsdóttir. (2018, 18. maí). Hvernig verður maður örverufræðingur? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=75175
Eva Benediktsdóttir. „Hvernig verður maður örverufræðingur?“ Vísindavefurinn. 18. maí. 2018. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=75175>.