Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hér er einnig svarað spurningu Bjarkar Bjarnadóttur Hver fann upp penisilínið, hvernig var það uppgötvað og hvenær var það fyrst notað?
Sir Alexander Fleming (1881-1955) var breskur vísindamaður sem frægastur er fyrir uppgötvun sína á fyrsta sýklalyfinu, penisilíni.
Hann fæddist nálægt bænum Darvel í Skotlandi árið 1881 en fjölskylda hans starfaði við landbúnað. Faðir hans lést þegar Fleming var barn en þá tók elsti bróðir hans við búinu. Systkinin voru átta talsins og var Fleming næstyngstur. Þau eyddu löngum stundum við leik úti í náttúrunni og seinna sagði Fleming að þau hefðu óafvitandi lært mikið af því. Fjórtán ára gamall fór hann að heiman með fjórum systkinum sínum og saman héldu þau til London til að búa hjá bróður sínum, Tom, sem var læknir. Fleming, eða „Alec” eins og hann var kallaður, hóf þá nám í tækniskóla, en að því loknu vann hann hjá útgerðarfyrirtæki. Þar starfaði hann í fjögur ár en líkaði ekki vel.
Alexander Fleming (1881-1955).
Í byrjun 20. aldar geisaði Búastríðið milli Stóra-Bretlands og búanna í Suður-Afríku. Fleming skráði sig í herinn ásamt tveimur bræðrum sínum, en þeir fóru aldrei á vígvellina. Stuttu seinna erfðu þeir mikla fjármuni eftir frænda sinn sem lést og Tom hvatti hann þá til að læra læknisfræði. Alec þreytti inntökuprófin og fékk hæstu einkunn. Stuttu seinna hóf hann nám við London University og skráði sig í skurðlækningar á St. Mary's-sjúkrahúsinu en skipti svo yfir í sýklafræði.
Fleming átti eftir að starfa á St. Mary's allan sinn feril. Hann vann til að byrja með hjá manni að nafni Almroth Wright sem var yfirmaður bólusetningardeildarinnar. Wright hafði sérstakan áhuga á ónæmiskerfinu og á starfsferli sínum þróaði hann bóluefni gegn mörgum sjúkdómum. Deildin sem hann vann á fékk fjármagn með því að framleiða og selja bóluefni og meðhöndla sjúklinga.
Fleming vann með Wright sem aðstoðarmaður hans meðan á fyrri heimsstyrjöldinni stóð og þeir voru sendir ásamt samstarfsmönnum sínum til Frakklands. Þar reistu þeir sjúkraskýli með rannsóknarstofu á orrustuvellinum og saman reyndu þeir að lækna sýkingar í sárum breskra hermanna. Það reyndist ekki auðvelt og létust margir mannanna fljótt af sárum sínum. Læknar höfðu þá nýverið samþykkt reglur um að sóttvarnarefni skyldu notuð við skurðaðgerðir. Þeir gerðu ráð fyrir því að sótthreinsandi efni gætu drepið sýkla.
Wright og Fleming börðust mjög gegn þessum ranghugmyndum. Þeir bentu á að hvít blóðkorn væru líkamanum mikilvæg til að yfirvinna sýkingar en sóttvarnarefnin dræpu hvítu blóðkornin jafnvel hraðar en sýklana. Ekkert mark var tekið á þeim félögum og lítið var gert til að lina þjáningar hermannanna. Þeir héldu þó áfram rannsóknum sínum á sýklalyfjum og bóluefnum, en á þessum tíma var mikil þörf fyrir þau því að margir sjúkdómar herjuðu á mannkynið og stríðið stóð yfir.
Að stríðinu loknu árið 1918 hélt Fleming aftur til London og hóf að leita að sterku sýklaeyðandi efni. Árið 1921 uppgötvaði hann leysiensím, bakteríueyðandi ensím sem finnst meðal annars í munnvatni, tárum og eggjahvítum. Efnið virtist vinna á sýklum en reyndist ekki vera nógu sterkt til að hafa áhrif á hættulegustu smitgerlana, og fljótlega missti hann áhuga á þessum rannsóknum. Hins vegar juku þær áhuga Flemings á rotvarnarefnum og urðu grundvöllurinn að uppgötvun hans á fyrsta sýklalyfinu, penisilíni, árið 1928.
Uppgötvun penisilínsins var óvænt og jafnvel tilkomin vegna óreiðu á rannsóknarstofu Flemings. Sagan um atburðinn hefur verið sögð í mörgum útgáfum en er einhvern veginn á þennan veg: Fleming var að vinna við rannsókn á inflúensuveirunni á tilraunastofunni sinni og virðist hafa skilið eftir ræktunardisk með sýklum og farið svo í sumarfrí. Þegar hann kom aftur hafði mygla myndast á diskinum og drepið sýklana umhverfis hana. Hann hóf að rannsaka mygluna og komst að því að hún væri komin af penicillium-fjölskyldunni og héti penicillium notatum.
Fleming greindi frá þessum uppgötvunum sínum árið 1929 en þær vöktu lítinn áhuga meðal fræðimanna. Frekari athugun og þróun á efninu reyndist honum erfið og hentaði betur efnafræðingum. Auk þess fékk hann ekki nægilegan stuðning frá læknasamfélaginu, og á endanum hætti hann að vinna með efnið. Það var ekki fyrr en í seinni heimsstyrjöldinni að áhugi manna á því kviknaði aftur. Tveir vísindamenn, Howard Florey og Ernst Chain, tóku við vinnunni og þróuðu efnið á form sýklalyfs. Í byrjun fimmta áratugarins hófst svo fjöldaframleiðsla á lyfinu. Fleming var sleginn til riddara árið 1944 fyrir framlag sitt, og þeim Fleming, Florey og Chain voru veitt Nóbelsverðlaunin í læknisfræði árið 1945.
Fleming giftist tvisvar um ævina. Fyrri eiginkona hans hét Sarah Marion McElroy. Þau giftust árið 1915 og eignuðust árið 1924 soninn Robert Fleming sem var læknir. Sarah lést árið 1949. Seinni eiginkona Flemings var læknir og samstarfsmaður hans á St. Mary΄s sjúkrahúsinu en hún hét Amalia Koutsouri-Voureka og var frá Grikklandi. Alexander Fleming hélt áfram störfum sínum hjá St. Mary's-spítalanum allt þar til hann lést skyndilega af völdum hjartaáfalls 11. mars árið 1955.
Heimildir og mynd:
Hrafnhildur L. Runólfsdóttir og Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Hver var Alexander Fleming?“ Vísindavefurinn, 13. júní 2001, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1699.
Hrafnhildur L. Runólfsdóttir og Eyja Margrét Brynjarsdóttir. (2001, 13. júní). Hver var Alexander Fleming? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1699
Hrafnhildur L. Runólfsdóttir og Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Hver var Alexander Fleming?“ Vísindavefurinn. 13. jún. 2001. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1699>.