Hvað getið þið sagt um SARS-faraldurinn sem gekk yfir 2002-2004 og af hverju hvarf veiran?Veiran SARS-CoV er ein af sjö kórónuveirum sem getur sýkt menn, eins og fram kemur í svari við spurningunni Hvað eru til margar kórónuveirur sem sýkja menn og dugar ónæmi gegn einni þeirra fyrir hinum? Veiran veldur sjúkdómi sem kallast á ensku Severe Acute Respiratory Syndrome (SARS), á íslensku 'heilkenni alvarlegrar bráðrar lungnabólgu' (HABL), en allt eins algengt er að enska skammstöfunin sé notuð. SARS veldur sýkingu sem bundin er við neðri öndunarfæri og algengustu einkennin eru hósti, hiti, hrollur, slappleiki, vöðva- og höfuðverkur og mæði. Niðurgangur og hálssærindi geta einnig fylgt. Sjúkdómurinn veldur í flestum tilfellum lungnabólgu. Meðgöngutími sjúkdómsins er venjulega tveir til sjö dagar en getur orðið tíu dagar. Fyrsta tilfellið af SARS kom fram í Guangdong-héraði í Kína í nóvember árið 2002 en orsök og eðli sjúkdómsins var þá óþekkt. Í febrúar 2003 barst sjúkdómurinn út fyrir Kína, fyrst til Hong Kong, Víetnam og Kanada en síðan til fleiri landa. Veikin breiddist hratt út næstu vikurnar og náði á endanum til 29 landa og sjálfsstjórnarsvæða í Asíu, Norður- og Suður-Ameríku og Evrópu. Fljótlega tókst þó að koma böndum á sjúkdóminn og í júlí 2003 lýsti Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) því yfir að faraldurinn væri yfirstaðinn. Samkvæmt upplýsingum frá WHO voru tilfelli á tímabilinu sem faraldurinn stóð yfir, frá nóvember 2002 til loka júlí 2003, alls 8.096 og dauðsföll 774. Langflest tilfellin voru í Kína, rúmlega 5.300 en einnig voru mörg tilfelli í Hong Kong (1755), Taívan (346), Kanada (251) og Singapúr (238). Þótt faraldurinn væri yfirstaðinn héldu áfram að koma upp einstök tilfelli næstu mánuði en frá vori 2004 hefur ekkert tilfelli greinst.

Útbreiðsla SARS-faraldursins 2002-2003.

SARS var í hámarki vorið 2003 en hefur ekki látið á sér kræla síðan 2004.
- Haraldur Briem. (2003). Heilkenni alvarlegrar bráðrar lungnabólgu (HABL). Læknablaðið, 5(89), 442-444.
- Cherry J. D. (2004). The chronology of the 2002-2003 SARS mini pandemic. Paediatric respiratory reviews, 5(4), 262–269. (Sótt 11.6.2020).
- WHO. (2004). Summary of probable SARS cases with onset of illness from 1 November 2002 to 31 July 2003. (Sótt 11.6.2020).
- WHO. (2004). China’s latest SARS outbreak has been contained, but biosafety concerns remain – Update 7. (Sótt 11.6.2020).
- Ye, Z. W. o.fl. (2020). Zoonotic origins of human coronaviruses. International journal of biological sciences, 16(10), 1686–1697. (Sótt 11.6.2020).
- NHS. SARS (severe acute respiratory syndrome). (Sótt 11.6.2020).
- Song, Z. o.fl. (2019). From SARS to MERS, Thrusting Coronaviruses into the Spotlight. Viruses, 11(1), 59. (Sótt 22.6.2020).
- Hixenbaugh, M. (2020, 5. mars). Scientists were close to a coronavirus vaccine years ago. Then the money dried up. NBC News. (Sótt 22.6.2020).
- Roossinck, M.J. (2020, 5. maí). The mysterious disappearance of the first SARS virus, and why we need a vaccine for the current one but didn’t for the other. The Conversation. (Sótt 22.6.2020).
- Kort: SARS map.svg. Höfundur: Maximilian Dörrbecker. Birt undir CC BY-SA 4.0 leyfi. (Sótt 11.6.2020).
- Mynd: MedicalNewsToday.com. (Sótt 22.6.2020).