Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Svokallaðir „votmarkaðir“ hafa oft verið nefndir í tengslum við uppruna COVID-19-kórónuveirufaraldursins í Wuhan í Kína. Heiti þetta virðist hafa fyrst komið fram á ensku sem „wet markets“ og vísar aðallega til þess að gólf á slíkum mörkuðum eru að öllu jöfnu vot. Um er að ræða hefðbundna matarmarkaði þar sem sala fer fram á hráum dýraafurðum á borð við kjöt og fisk, auk ávaxta, grænmetis og annarra matvæla. Gólf eru vot, bæði vegna þess að ís er notaður til að viðhalda ferskleika varnings á borð við sjávarvörur og vegna þess að á svæðum þar sem kjöt- og fiskvinnsla og jafnvel stundum slátrun eiga sér stað er stöðugt verið að spúla og hreinsa gólf. Enska orðið virðist rekja uppruna sinn til Singapúr á áttunda áratug tuttugustu aldar þegar þarlend yfirvöld tóku að beita því um hefðbundna matarmarkaði til aðgreiningar frá nýtilkomnum stórmörkuðum þar sem gólfin voru þurr. Ekkert samsvarandi hugtak virðist vera til í Kína yfir slíka markaði og þar eru þeir einfaldlega nefndir „matarmarkaðir“ (caishichang 菜市场).
Í sjálfu sér er ekkert athugavert við votmarkaði. Þessir markaðir gegna mikilvægu hlutverki fyrir fæðuöflun – og raunar fæðuöryggi – borgarbúa um allan heim, ekki síst þeirra sem hafa minna á milli handanna. Þeir gera fólki kleift að kaupa ferskar matvörur beint af bændum eða að minnsta kosti með færri milliliðum en gildir um stórmarkaði og eru því mun ódýrari en hinir síðarnefndu. Menningarlega eru þeir einnig mikilvægur vettvangur þar sem fólk kemur reglulega saman og blandar geði hvert við annað.
Hugtakið „votmarkaður“ á rætur að rekja til Singapúr þegar tekið var að aðgreina hefðbunda matarmarkaði frá nýtilkomnum stórmörkuðum. Í Kína eru slíkir markaðir einfaldlega nefndir „matarmarkaðir“ (caishichang 菜市场).
Votmarkaðir eru í raun sambærilegir við markaði sem oft eru kenndir við bændamarkaði og eru líka algengir í Evrópu og N-Ameríku, nema að því leyti að miklu stærri hluti almennings í Kína kaupir matvörur sínar á votmörkuðum en Vesturlandabúar á bændamörkuðum. Rannsóknir benda til að í Kína og víða í Asíu séu votmarkaðir ennþá mun vinsælli en stórmarkaðir, einkum vegna verðlags og ferskleika.
Í Kína er lögð svo rík áhersla á ferskleika að algengt er að dýr, einkum fiskar og sjávardýr, eru seld lifandi og þeim jafnvel slátrað á markaðnum sjálfum. Réttlætanlegar áhyggjur og samsvarandi gagnrýni hafa beinst að hreinlætisaðstæðum þar sem slátrun fer fram. Bæði í Kína og nærliggjandi svæðum þar sem löng hefð er fyrir þessum mörkuðum hafa reglur margsinnis verið hertar á undanförnum áratugum til að koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdóma á borð við fugla- og svínaflensu.
Hvað sem því líður eru málsmetandi aðilar sammála um að lausn vandans felist ekki í því að loka votmörkuðum, eins og krafist hefur verið víða á Vesturlöndum, heldur í því að herða á reglum um sölu villtra dýra og dýraafurða, því grunur leikur á að COVID-19-veiran komi upprunalega frá leðurblökum sem hafi borið veiruna til annarra dýra, til dæmis snáka eða hreisturdýra, sem síðan hafa verið seld til neyslu á matarmörkuðum. Vandinn felst með öðrum orðum ekki í votmörkuðum sem slíkum heldur í „villimörkuðum“, það er mörkuðum sem selja slíkar afurðir en þeir skarast augljóslega oft við votmarkaði.
Markaðurinn í Wuhan, þar sem mögnun varð á veirunni sem olli COVID-19-heimsfaraldrinum, nefndist Huanan-sjávarvöruheildsölumarkaðurinn (Huanan haixian pifa shichang 华南海鲜批发市场). Þótt þar hafi verið að finna hefðbundinn votmarkað var þar jafnframt um „villimarkað“ að ræða. Þótt heimildir séu ekki allar á einu máli um þær tegundir sem voru til sölu á villimarkaðnum er ljóst að um var að ræða ýmiss konar óvenjulega villibráð. Meðal þeirra tegunda sem nefndar hafa verið eru snákar, refir, salamöndrur, hreisturdýr, múrmeldýr, broddgeltir og krókódílar, svo nokkur dæmi séu tekin.
Huanan-sjávarvöruheildsölumarkaðurinn var bæði votmarkaður og „villimarkaður“ þar sem hægt var að kaupa ýmsa óvenjulega villibráð.
Margir votmarkaðir í Kína lokuðu í kjölfar COVID-19-faraldursins en í mars 2020 var búið að opna flesta þeirra aftur, enda gegna þeir eins og áður segir því mikilvæga hlutverki að gera almenningi kleift að hafa aðgang að ferskum matvælum. Sala á villtum dýrum eða afurðum sem frá þeim koma hefur hins vegar verið bönnuð og til umræðu er að gera þetta bann varanlegt. Varanlegt bann hefur komið til tals áður, til dæmis þegar HABL-faraldurinn (SARS) geisaði 2003, sem einnig hefur verið rakinn til neyslu villtra dýra, í því tilviki þefkatta sem voru millihýslar veiru sem kom úr leðurblökum. Hins vegar hefur eftirspurn eftir óvenjulegum dýraafurðum lengi verið talsverð sem má rekja að hluta til vafasamrar hjátrúar sem sett hefur verið í samband við hefðbundna kínverska læknisfræði, auk þess sem íbúar í tilteknum héruðum, einkum í suðurhluta landsins, hneigjast til nokkurrar ævintýramennsku hvað varðar dýraát.
Ómótstæðileg peningaveltan sem fylgdi þessari eftirspurn kom í veg fyrir að bannið stæði lengi í kjölfar HABL-faraldursins. Nú er að sjá hvort eftirspurnin í Kína eftir óvenjulegri villibráð verði enn nægilega mikil í kjölfar COVID-19-faraldursins til að sporna við varanlegu banni í þetta skipti líka.
Fáeinar heimildir:
Geir Sigurðsson. „Hvers konar markaðir eru votmarkaðir í Kína?“ Vísindavefurinn, 21. apríl 2020, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=79238.
Geir Sigurðsson. (2020, 21. apríl). Hvers konar markaðir eru votmarkaðir í Kína? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=79238
Geir Sigurðsson. „Hvers konar markaðir eru votmarkaðir í Kína?“ Vísindavefurinn. 21. apr. 2020. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=79238>.