Er til eitthvert dýr sem heitir múmeldýr? Þá er ég ekki að tala um múrmeldýr sem er þá afbrigði af kameldýri eða eitthvað slíkt?Við könnumst ekki við að til sé dýr sem gengur undir heitinu múmeldýr. En það er rétt hjá spyrjanda að til eru svokölluð múrmeldýr en latneskt tegundaheiti þeirra er Marmota monax. Múrmeldýrin eru ekki afbrigði af kameldýrum heldur eru þau nagdýr af íkornaætt (Sciuridae) sem finnast víða í Norður-Ameríku. Á ensku eru þau venjulega kölluð groundhog og í Bandaríkjunum og Kanada er einn dagur á ári tileinkaður þeim, Groundhog Day. Sá dagur öðlaðist heimsfrægð árið 1993 þegar út kom mynd með Bill Murray með sama heiti. Í myndinni festist persónan sem Bill leikur í tíma og rúmi og upplifir þannig sama daginn aftur og aftur. Þetta var eins og nafn myndarinnar gefur til kynna Groundhog Day. Groundhog Day er haldinn hátíðlegur 2. febrúar ár hvert. Sagt er að múrmeldýr geti spáð fyrir um hversu lengi vetur muni vara eftir þennan dag. Ef þau skríða úr bæli sínu á þessum degi og sjá ekki skuggann sinn, þýðir það að veturinn er senn á enda. Sjái múrmeldýrið hins vegar skuggann sinn mun það hörfa aftur inn í holuna sína og veturinn vara í 6 vikur í viðbót. Eftir útkomu myndarinnar hefur heitið Groundhog Day jafnframt fengið nýtt minni í hugum manna. Nú er algengt að þetta orðtak sé notað um eitthvað sem er síendurtekið, sérstaklega ef það er óskemmtilegt. Myndir:
- Wikimedia Commons - Baby groundhog. (Sótt 1.6.2018).
- Flickr. (Sótt 1.6.2018).