Sólin Sólin Rís 10:23 • sest 16:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:04 • Sest 15:29 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:18 • Síðdegis: 25:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:51 • Síðdegis: 18:50 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:23 • sest 16:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:04 • Sest 15:29 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:18 • Síðdegis: 25:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:51 • Síðdegis: 18:50 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað hélt fólk fyrr á tímum um orsakir norðurljósa?

Aðalheiður Guðmundsdóttir

Hugmyndir fólks um eðli og orsök norðurljósa hafa verið með ýmsu móti í gegnum aldirnar. Víðast hvar voru þau hinum ómenntaða meirihluta fólks innblástur sagna og hugmynda um hulda heima, en á hinn bóginn hafa menn lengi reynt að útskýra eðli þeirra með lögmálum náttúrunnar. Elstu hugmyndir norrænna manna í þessa veru er að finna í Konungs skuggsjá sem var skrifuð á bilinu 1250–60, þar sem höfundur rekur þrjár helstu kenningar „horskra“ eða viturra manna um eðli ljósanna. Þær hljóða í stuttu máli svo:[1]

  1. Að eldur liggi um þau höf og vötn sem renni yst um jarðarkringluna og að norðurljósin stafi af slíkum eldi.
  2. Að norðurljósin stafi af sólargeislum sem nái upp á yfirborð jarðar á nóttunni, utarlega (samanber í norðri) þar sem „brekkuhvelið“ er minna en annars staðar á jörðinni.
  3. Að frost og ís norðursins dragi í sig svo mikið afl að af því geisli.

Danski listmálarinn Harald Moltke (1871-1960) málaði fjölmargar myndir af norðurljósum snemma á 20. öld.

Í Íslandslýsingu Odds Einarssonar (lat. Qualiscunque descriptio Islandiae) frá 1588–89 segir að þótt Íslendingar kunni ekki að skýra orsakir norðurljósanna telji sumir „að þetta séu hin stökkvandi stjörnumerki náttúrufræðinganna“.[2] Sonur Odds, Gísli, sem skrifaði um norðurljósin í riti sínu um undur Íslands (lat. De mirabilibus Islandiæ) árið 1638, lagði þó fram þessa tilgátu:[3]

... að þegar sólargeislarnir sundri þeim ógurlegu ísum ... þá lýsi þeir himininn með afturkasti sínu og valdi þessum afar hvikulu og óstöðugu leifturhreyfingum í upphæðum, vegna ókyrrðarkviks hafbylgjanna við ísrekið, – rétt eins og þegar ker eða krukka full af vatni er látin í sólargeisla við húsdyr; þá kemur afturkast geislanna sýnilega í ljós efst í lofti hússins, hreyfist, þegar vatnið hefur hreyfzt, en staðnar, þegar vatnið hefur staðnað. Verð eg að láta stjörnufræðingunum eftir að íhuga, hvað treysta megi á þetta.

Þótt fleiri menn frá sömu öld lýsi norðurljósum yfir Íslandi og geti um áhrif þeirra á veðurfar, reyna þeir ekki að skilgreina fyrirbærið frekar. Á 18. öld eru þeir hins vegar í auknum mæli farnir að velta fyrir sér eðli norðurljósanna, líkt og fram kemur í riti Johanns Andersons frá árinu 1748, en hann taldi norðurljósin stafa af brennisteinsgufum sem kvikni í loftinu. Hann segir eðlilegt að mikið sé um norðurljós yfir Íslandi, þar sem brennisteinsgufur stígi upp frá eldfjöllunum. Anderson segir að í heimskautslöndunum kvikni ekki í slíkum gufum fyrr en þær hafi þjappast saman efst í lofthvolfinu, og sé það vegna kulda. Í heitum löndum kvikni aftur á móti í slíkum gufum niður við jörðu og verði þær að hrævareldi og eldingum þar, en ekki norðurljósum.[4]

Um hugmyndir manna á 18. öld má einnig lesa í Íslandsriti Nielsar Horrebows frá 1752, en hann framkvæmdi athuganir sínar á veðurfari á Íslandi á árunum 1749–51.[5] Að auki getur Magnús Stephensen dómstjóri þess í riti sínu „Um Meteora, edr Vedráttufar, Loptsiónir, og adra náttúrliga tilburdi á sió og landi“ frá 1783, að þá þegar hafi menn verið farnir að mæla norðurljósin með segulnál.[6] Ekki verður betur séð af skrifum Magnúsar en að menn á hans tímum hafi haft miklar og þó misjafnar skoðanir á norðurljósunum. Einna umfangsmestar eru þó líklega athuganir Sveins Pálssonar sem mældi tíðni þeirra,[7] og Eggerts Ólafssonar sem lýsti norðurljósunum víða um land og aðgreindi þau frá annars konar loftljósum.[8]

Fyrstu ljósmyndirnar af norðurljósum voru teknar í janúar árið 1892. Það var þýski eðlis- og stjörnufræðingurinn Martin Brendel (1862-1939) sem tók þær.

Norðurlandabúar, Englendingar og Frakkar voru áberandi í norðurljósaathugunum á 18. öld og 19. öld, og urðu þá til ýmsar tilgátur, svo sem að norðurljósin:

  1. … tengdust rafkrafti (jafnvel í formi afhleðslu rafmagns milli jarðar og himins).
  2. … tilheyrðu hring eða belti sem lægi umhverfis pólinn.
  3. … tengdust segulsviði jarðar.
  4. … væru nokkurs konar lýsigas.[9]

Á síðari hluta 19. aldar urðu norðurljósarannsóknir enn kerfisbundnari og til að mynda stóð danska veðurstofan fyrir leiðöngrum til Íslands og Norður-Noregs. Óhætt er að segja að norðurljósarannsóknir á 20. öld og fram til dagsins í dag hafa eflst til muna með nýrri tækni, þótt þær byggi engu að síður á þessum gömlu rótum.

Tilvísanir:
  1. ^ Ólafur Halldórsson 1978: 128.
  2. ^ Oddur Einarsson 1971: 63.
  3. ^ Gísli Oddsson 1942: 60, sbr. latneskan texta í Halldór Hermannsson 1916: 34.
  4. ^ Anderson 1748: 104-5.
  5. ^ Horrebow 1752: 391-478.
  6. ^ Magnús Stephensen 1783: 162-63.
  7. ^ Sveinn Pálsson 1945: 46, 161-62. Um rannsóknarsögu, sjá einnig Þorsteinn Sæmundsson 2012b.
  8. ^ Eggert Ólafsson 1981: I 6, 71, 177, 228, II 20, 184-86. Sérstaklega nákvæmar eru lýsingarnar á bls. II 184-86.
  9. ^ Brekke og Egeland 1983: 53-86.

Heimildir:
  • Anderson, Johann. 1748. Efterretninger om Island, Grönland og Strat Davis. Kiøbenhavn: Gabriel Christian Rothe.
  • Brekke, Asgeir og Alv Egeland. 1983. The Northern Lights: From Mythology to Space Research. Berlin, Heidelberg, New York, Tokyo: Springer-Verlag.
  • Eggert Ólafsson. 1974. Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar um ferðir þeirra á Íslandi árin 1752–1757 I–II. Reykjavík: Örn og Örlygur.
  • Gísli Oddsson. 1942. Íslenzk annálabrot [Annalium in Islandia farrago] og Undur Íslands [De mirabilibus Islandiæ]. Þýð. Jónas Rafnar. Akureyri: Þorsteinn M. Jónsson.
  • Hauksbók udgiven efter de Arnamagnæanske håndskrifter no. 371, 544 og 675, 4°. 1892–94. København: Thieles bogtrykkeri.
  • Halldór Hermannsson. 1916. Icelandic books of the sixteenth century (1534–1600). Islandica IX. Ithaca, N.Y.: Cornell Unicersity Library.
  • Horrebow, Niels. 1752. Tilforladelige Efterretninger om Island. København: s.n.
  • Magnús Stephensen. 1783. Um Meteora, edr Vedráttufar, Loptsiónir, og adra náttúrliga tilburdi á sió og landi. Rit þess íslenzka Lærdóms-lista felags III. Kaupmannahöfn: Jóhann Rúdólph Thiele. Bls. 122-92.
  • Oddur Einarsson. 1971. Íslandslýsing: Qualiscunque descriptio Islandiae. Útg. Jakob Benediktsson. Þýð. Sveinn Pálsson. Reykjavík: Menningarsjóður.
  • Ólafur Halldórsson. 1978. Grænland í miðaldaritum. Reykjavík: Sögufélag.
  • Sveinn Pálsson. 1945. Ferðabók Sveins Pálssonar: Dagbækur og riterðir 1791–1797. Reykjavík: Snælands útgáfan.

Myndir:

Höfundur

Aðalheiður Guðmundsdóttir

prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda

Útgáfudagur

26.4.2018

Síðast uppfært

3.5.2018

Spyrjandi

Svanur Þór Smárason

Tilvísun

Aðalheiður Guðmundsdóttir. „Hvað hélt fólk fyrr á tímum um orsakir norðurljósa?“ Vísindavefurinn, 26. apríl 2018, sótt 23. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=7846.

Aðalheiður Guðmundsdóttir. (2018, 26. apríl). Hvað hélt fólk fyrr á tímum um orsakir norðurljósa? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=7846

Aðalheiður Guðmundsdóttir. „Hvað hélt fólk fyrr á tímum um orsakir norðurljósa?“ Vísindavefurinn. 26. apr. 2018. Vefsíða. 23. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=7846>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað hélt fólk fyrr á tímum um orsakir norðurljósa?
Hugmyndir fólks um eðli og orsök norðurljósa hafa verið með ýmsu móti í gegnum aldirnar. Víðast hvar voru þau hinum ómenntaða meirihluta fólks innblástur sagna og hugmynda um hulda heima, en á hinn bóginn hafa menn lengi reynt að útskýra eðli þeirra með lögmálum náttúrunnar. Elstu hugmyndir norrænna manna í þessa veru er að finna í Konungs skuggsjá sem var skrifuð á bilinu 1250–60, þar sem höfundur rekur þrjár helstu kenningar „horskra“ eða viturra manna um eðli ljósanna. Þær hljóða í stuttu máli svo:[1]

  1. Að eldur liggi um þau höf og vötn sem renni yst um jarðarkringluna og að norðurljósin stafi af slíkum eldi.
  2. Að norðurljósin stafi af sólargeislum sem nái upp á yfirborð jarðar á nóttunni, utarlega (samanber í norðri) þar sem „brekkuhvelið“ er minna en annars staðar á jörðinni.
  3. Að frost og ís norðursins dragi í sig svo mikið afl að af því geisli.

Danski listmálarinn Harald Moltke (1871-1960) málaði fjölmargar myndir af norðurljósum snemma á 20. öld.

Í Íslandslýsingu Odds Einarssonar (lat. Qualiscunque descriptio Islandiae) frá 1588–89 segir að þótt Íslendingar kunni ekki að skýra orsakir norðurljósanna telji sumir „að þetta séu hin stökkvandi stjörnumerki náttúrufræðinganna“.[2] Sonur Odds, Gísli, sem skrifaði um norðurljósin í riti sínu um undur Íslands (lat. De mirabilibus Islandiæ) árið 1638, lagði þó fram þessa tilgátu:[3]

... að þegar sólargeislarnir sundri þeim ógurlegu ísum ... þá lýsi þeir himininn með afturkasti sínu og valdi þessum afar hvikulu og óstöðugu leifturhreyfingum í upphæðum, vegna ókyrrðarkviks hafbylgjanna við ísrekið, – rétt eins og þegar ker eða krukka full af vatni er látin í sólargeisla við húsdyr; þá kemur afturkast geislanna sýnilega í ljós efst í lofti hússins, hreyfist, þegar vatnið hefur hreyfzt, en staðnar, þegar vatnið hefur staðnað. Verð eg að láta stjörnufræðingunum eftir að íhuga, hvað treysta megi á þetta.

Þótt fleiri menn frá sömu öld lýsi norðurljósum yfir Íslandi og geti um áhrif þeirra á veðurfar, reyna þeir ekki að skilgreina fyrirbærið frekar. Á 18. öld eru þeir hins vegar í auknum mæli farnir að velta fyrir sér eðli norðurljósanna, líkt og fram kemur í riti Johanns Andersons frá árinu 1748, en hann taldi norðurljósin stafa af brennisteinsgufum sem kvikni í loftinu. Hann segir eðlilegt að mikið sé um norðurljós yfir Íslandi, þar sem brennisteinsgufur stígi upp frá eldfjöllunum. Anderson segir að í heimskautslöndunum kvikni ekki í slíkum gufum fyrr en þær hafi þjappast saman efst í lofthvolfinu, og sé það vegna kulda. Í heitum löndum kvikni aftur á móti í slíkum gufum niður við jörðu og verði þær að hrævareldi og eldingum þar, en ekki norðurljósum.[4]

Um hugmyndir manna á 18. öld má einnig lesa í Íslandsriti Nielsar Horrebows frá 1752, en hann framkvæmdi athuganir sínar á veðurfari á Íslandi á árunum 1749–51.[5] Að auki getur Magnús Stephensen dómstjóri þess í riti sínu „Um Meteora, edr Vedráttufar, Loptsiónir, og adra náttúrliga tilburdi á sió og landi“ frá 1783, að þá þegar hafi menn verið farnir að mæla norðurljósin með segulnál.[6] Ekki verður betur séð af skrifum Magnúsar en að menn á hans tímum hafi haft miklar og þó misjafnar skoðanir á norðurljósunum. Einna umfangsmestar eru þó líklega athuganir Sveins Pálssonar sem mældi tíðni þeirra,[7] og Eggerts Ólafssonar sem lýsti norðurljósunum víða um land og aðgreindi þau frá annars konar loftljósum.[8]

Fyrstu ljósmyndirnar af norðurljósum voru teknar í janúar árið 1892. Það var þýski eðlis- og stjörnufræðingurinn Martin Brendel (1862-1939) sem tók þær.

Norðurlandabúar, Englendingar og Frakkar voru áberandi í norðurljósaathugunum á 18. öld og 19. öld, og urðu þá til ýmsar tilgátur, svo sem að norðurljósin:

  1. … tengdust rafkrafti (jafnvel í formi afhleðslu rafmagns milli jarðar og himins).
  2. … tilheyrðu hring eða belti sem lægi umhverfis pólinn.
  3. … tengdust segulsviði jarðar.
  4. … væru nokkurs konar lýsigas.[9]

Á síðari hluta 19. aldar urðu norðurljósarannsóknir enn kerfisbundnari og til að mynda stóð danska veðurstofan fyrir leiðöngrum til Íslands og Norður-Noregs. Óhætt er að segja að norðurljósarannsóknir á 20. öld og fram til dagsins í dag hafa eflst til muna með nýrri tækni, þótt þær byggi engu að síður á þessum gömlu rótum.

Tilvísanir:
  1. ^ Ólafur Halldórsson 1978: 128.
  2. ^ Oddur Einarsson 1971: 63.
  3. ^ Gísli Oddsson 1942: 60, sbr. latneskan texta í Halldór Hermannsson 1916: 34.
  4. ^ Anderson 1748: 104-5.
  5. ^ Horrebow 1752: 391-478.
  6. ^ Magnús Stephensen 1783: 162-63.
  7. ^ Sveinn Pálsson 1945: 46, 161-62. Um rannsóknarsögu, sjá einnig Þorsteinn Sæmundsson 2012b.
  8. ^ Eggert Ólafsson 1981: I 6, 71, 177, 228, II 20, 184-86. Sérstaklega nákvæmar eru lýsingarnar á bls. II 184-86.
  9. ^ Brekke og Egeland 1983: 53-86.

Heimildir:
  • Anderson, Johann. 1748. Efterretninger om Island, Grönland og Strat Davis. Kiøbenhavn: Gabriel Christian Rothe.
  • Brekke, Asgeir og Alv Egeland. 1983. The Northern Lights: From Mythology to Space Research. Berlin, Heidelberg, New York, Tokyo: Springer-Verlag.
  • Eggert Ólafsson. 1974. Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar um ferðir þeirra á Íslandi árin 1752–1757 I–II. Reykjavík: Örn og Örlygur.
  • Gísli Oddsson. 1942. Íslenzk annálabrot [Annalium in Islandia farrago] og Undur Íslands [De mirabilibus Islandiæ]. Þýð. Jónas Rafnar. Akureyri: Þorsteinn M. Jónsson.
  • Hauksbók udgiven efter de Arnamagnæanske håndskrifter no. 371, 544 og 675, 4°. 1892–94. København: Thieles bogtrykkeri.
  • Halldór Hermannsson. 1916. Icelandic books of the sixteenth century (1534–1600). Islandica IX. Ithaca, N.Y.: Cornell Unicersity Library.
  • Horrebow, Niels. 1752. Tilforladelige Efterretninger om Island. København: s.n.
  • Magnús Stephensen. 1783. Um Meteora, edr Vedráttufar, Loptsiónir, og adra náttúrliga tilburdi á sió og landi. Rit þess íslenzka Lærdóms-lista felags III. Kaupmannahöfn: Jóhann Rúdólph Thiele. Bls. 122-92.
  • Oddur Einarsson. 1971. Íslandslýsing: Qualiscunque descriptio Islandiae. Útg. Jakob Benediktsson. Þýð. Sveinn Pálsson. Reykjavík: Menningarsjóður.
  • Ólafur Halldórsson. 1978. Grænland í miðaldaritum. Reykjavík: Sögufélag.
  • Sveinn Pálsson. 1945. Ferðabók Sveins Pálssonar: Dagbækur og riterðir 1791–1797. Reykjavík: Snælands útgáfan.

Myndir:

...