Er einhvers staðar fjallað um norðurljós í Íslendingasögunum? Hvað með aðrar heimildir frá miðöldum?
Á norðurljós er hvergi minnst með beinum hætti í Íslendingasögum, sem sumar hverjar fela þó í sér frásagnir af yfirnáttúrlegum eða óútskýrðum eldum. Meðal þeirra eru haugaeldar, en lýsingin á þeim getur óneitanlega minnt á norðurljós, og svo virðist sem menn eigi erfitt með að skilgreina haugaeldana ekki síður en norðurljósin, enda hvorutveggja talið af öðrum heimi. Sem dæmi um þetta mætti nefna frásögn í Þorskfirðinga sögu (sbr. Gull-Þóris sögu), þar sem segir frá sýn Gull-Þóris þegar hann kemur af hafi og mætir félaga sínum Úlfi: „ … sá Þórir, hvar eldr var, nær sem lýsti af tungli, ok brá yfir blám loga. Þórir spurði, hvat lýsu þat væri. Úlfr segir: „Ekki skulu þér þat forvitnast, því at þat er ekki af manna völdum.“ Þórir svarar: „Því mun ek þó eigi vita mega, þótt tröll ráði fyrir?“ Úlfr kvað þat vera haugaeld“.[1] Í þessu tilviki er sögusviðið Hálogaland, og svipaða frásögn er að finna í Grettis sögu, þar sem Grettir er staddur á Sunnmæri. Grettir segir að slíkir eldar sjáist einnig á Íslandi, þar sem þeir séu taldir brenna af fé.[2] Frá haugaeldi segir ennfremur í Egils sögu, og tekið fram hann sjáist oftlega við Mosfell.[3]
Ein traustasta heimild okkar um norðurljós frá miðöldum er Konungs skuggsjá, norskt rit sem var skrifað á bilinu 1250–60 og segir frá norðurljósum yfir Grænlandi. Konungs skuggsjá var að vísu þekkt rit á Íslandi, enda varðveitt[4] í íslenskum miðaldahandritum og líklegt er að Íslendingar hafi þekkt til þeirra ljósa sem þar er lýst.[5] Álíka frásögn er að finna í íslenskri sögu, Hemings þætti Áslákssonar, sem talinn er vera frá síðari hluta 13. aldar, en þar er talað um „eld“ yfir hafi sem var „blár sem logi“.[6]
Þótt aðrar miðaldaheimildir geti um elda og/eða loftsýnir sem minna á norðurljós er heimildagildi þeirra mun takmarkaðra, þótt vissulega sé eðlilegt að setja þær í samhengi við hugmyndir um norðurljós og lesa í einstaka texta út frá vitnisburði annarra. Þetta á bæði við um frásagnarbókmenntir og kvæði og skemmtilegt er að lesa í táknheim eddukvæða og jafnvel Gylfaginningar Snorra-Eddu með þetta í huga, eins og Finnur Magnússon gerði í eddukvæðaskýringum sínum frá 1821–23. Hér værum við þó komin út í túlkanir, þar sem nauðsynlegt er að setja fram hugmynda- og/eða táknkerfi og greina og svo heimildirnar út frá því. Hugmyndir af þessu tagi voru kynntar á fyrirlestri hjá Miðaldastofu Háskóla Íslands snemma árs 2018 og talið að eddukvæðin og Snorra-Edda feli í sér myndræna tengingu við norðurljósin, sem og ef til vill almennari hugmyndir um goðsögulega bústaði í himinhvolfinu.[7]
Tilvísanir:- ^ Þorskfirðinga saga í Harðar saga 2009: 183.
- ^ Grettis saga Ásmundarsonar 1936: 57.
- ^ Egils saga Skalla-Grímssonar 1933: 298.
- ^ Finnur Magnússon 1821–23: II 77, 171–72, 175, 197.
- ^ Ólafur Halldórsson 1978: 127–128.
- ^ Hauksbók 1892–96: 335.
- ^ Aðalheiður Guðmundsdóttir 2018.
- Aðalheiður Guðmundsdóttir. 2018. „Rafurlogar og vafurlogar: Um norðurljós í íslenskum heimildum“. Miðaldastofa Háskóla Íslands, 18. janúar.
- Egils saga Skalla-Grímssonar. 1933. Útg. Sigurður Nordal. Íslenzk fornrit II. Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag.
- Finnur Magnússon [Finn Magnusen]. 1822. Den ældre Edda I–IV. Kjöbenhavn: Gyldendalske boghandling.
- Grettis saga Ásmundarsonar. 1936. Útg. Guðni Jónsson. Íslenzk fornrit VII. Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag.
- Harðar saga. 2009. Útg. Þórhallur Vilmundarson og Bjarni Vilhjálmsson. Íslenzk fornrit XIII. Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag.
- Hauksbók udgiven efter de Arnamagnæanske håndskrifter no. 371, 544 og 675, 4o. 1892–94. København: Thieles bogtrykkeri.
- Ólafur Halldórsson, útg. 1978. Grænland í miðaldaritum. Reykjavík: Sögufélag.
-
The Northern Lights Route - The northern lights. (Sótt 22.03.2018).