Er hægt að þjappa vökva, líkt og lofti?Loftið í kringum okkur inniheldur um 78% köfnunarefni og 21% súrefni, auk annarra lofttegunda sem eru um 1%. Það sem einkennir loft (ekki bara andrúmsloftið heldur líka hreinar lofttegundir) er að það er afar gljúpt, það er að segja rúmmál sameindanna er aðeins lítill hluti af rúmmáli loftsins. Sameindirnar í loftinu eru nefnilega afar litlar og langt á milli þeirra og því er ekkert efni í megninu af rýminu í loftinu. Vegna þessa er hægt að þjappa loftinu gríðarlega mikið, það er minnka rúmmálið með því að færa sameindirnar í loftinu nær hverri annarri. Sameindir lofts í vökvaham eru hins vegar frekar þétt upp við hver aðra og því lítið rými milli þeirra. Það er því ekki hægt að þjappa þeim mikið saman. Til að glöggva okkur aðeins betur á því hversu mikill munur er á rúmmáli andrúmslofts í gasham og í vökvaham getum við borið saman eðlismassa þeirra. Eðlismassi andrúmsloftsins í gasham (við 20°C) er 1,205 g/l á meðan eðlismassi andrúmsloftsins í vökvaham (við -194°C) er 870 g/l. Munurinn er 722-faldur og því ætti að vera hægt að þjappa 1 lítra af andrúmslofti niður í 1,4 ml af vökva með því að kæla það niður í -194°C. Einnig er hægt að þjappa loftinu með öflugri pumpu en það kostar heilmikla orku. Hver vatnssameind í vökvaham er frekar þétt upp við aðrar vatnssameindir því það ríkja aðdráttarkraftar, sem kallast vetnistengi, milli sameindanna sem draga þær hver að annarri. Vetnistengin eru samt það veik að þau brotna og myndast í sífellu og þess vegna geta vatnssameindirnar verið á hreyfingu innan vatnsins. Það er því svolítið rými milli vatnssameindanna sem gefur færi á að þrýsta sameindum vatns örlítið saman, ekki þó mikið og auk þess krefst samþjöppunin mikillar orku. Sama gildir um aðra vökva, þó það séu ekki endilega vetnistengi milli sameindanna heldur aðrir (veikari) aðdráttarkraftar sem halda þeim saman. Það er síðan háð vökvanum hversu mikið er hægt að þjappa honum saman.
- Gaslögmálið - Efnafræði.is. (Sótt 17.3.2022).
- Gases - Densities - Engineering ToolBox. (Sótt 17.3.2022).
- Liquid air - Wikipedia.org. (Sótt 17.3.2022).
- Mynd: Mezclas de la materia.jpg. Birt undir CC BY-SA 3.0 leyfi. (Sótt 17.3.2022)